29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg bjóst við, að hv. frsm. (ÞórJ) myndi skýra afstöðu fjvn. til tillagna samgmn. Hún dró þær til baka við 2. umr., til þess að þær yrðu betur athugaðar. En nú hefi jeg heyrt, að háttv. fjvn. leggi á móti þeim báðum; hafi þó kannske óbundin atkvæði um aðra þeirra. Skal jeg þá, án þess að endurtaka það, sem jeg sagði við 2. umr., lýsa afstöðu nefndarinnar til þessara tillagna. Hún hefir lagt til, að flóabátastyrkurinn verði hækkaður um 1100 kr., og af því fje gangi 400 kr. til Lagarfljótsbátsins, en þær 700 kr., sem þá eru eftir, ætlast nefndin til, að atvrh. noti þar, sem þörfin er mest. Annars hefir hann óbundnar hendur um, hvaða flóabáta hann styrkir, en venjan er sú, að hann tekur tillit til tillagna samgöngumálanefndarinnar, og vænti jeg, að svo verði einnig að þessu sinni.

Hvað snertir styrkinn til einstakra báta, þá þykir mjer styrkurinn til Hvalfjarðarbátsins heldur lítill, og vonast nefndin til, að atvrh. ráði fram úr þessu.

Þá er styrkurinn til einstakra fjelaga til að kaupa báta eða endurbæta báta. Jeg hefi heyrt, að hv. fjvn. leggi á móti þessari tillögu, af því að hún telji hana skapa fordæmi, svo að aðrir komi á eftir. Þetta má altaf segja. En er þá ekki komið fordæmi áður? Mig minnir, að fjelagið, sem gerði Breiðaflóabátinn „Svan“ út, hafi tvisvar fengið eftirgjöf á lánum, og auk þess beinan styrk til að borga skuldir með.

Jeg verð nú að halda því fram, að betra sje að veita víst til fjelaganna strax, svo að þau geti fengið sjer farkost, heldur en þurfa eftir á að veita þeim eftirgjöf skulda og styrki til að borga skuldir með. Þau fjelög, sem hjer er um að ræða eru: Djúpbátsfjelagið og h/f Skaftfellingur. Hjeraðsbúar í Skaftafellssýslu hafa þegar lagt fram mikla fjárhæð til þess að kaupa bát til að halda þar uppi samgöngum, því að þeir hafa engin not af „Esju“. En nú er svo komið, að þeir þurfa að skifta um vjel í bátnum, því að vjel sú, sem er í honum nú, er alt of lítil, svo lítil, að það er beint hættuspil að senda hann austur með söndunum, þegar hausta tekur. Er því ekki annað fyrir hendi en að kaupa nýja vjel í bátinn, og vill samgmn. láta ríkissjóð styrkja fjelagið til þessara vjelkaupa, þannig, að hann leggi fram kostnaðarins, en 2/3 munu sýslubúar aura saman.

Hið sama má segja um Djúpbátsfjelagið. Það varð fyrir því slysi síðastl. ár að missa farkost sinn, og stendur nú uppi nær eignalaust. En síðastliðin 8 ár hefir það haldið uppi ferðum um sýsluna.

Það er nú svo með fjelag þetta, að það getur ekki keypt bát aftur, nema það fái styrk frá hinu opinbera að einhverju leyti. Að mikil nauðsyn sje að fá bát aftur, ætti flestum að vera ljóst, því að hjeruð þau, er notað hafa bátinn, geta alls ekki notið góðs af strandferðum „Esju“.

Annars er það svo, að þeir 30 þús. íbúar, sem engin not geta haft af „Esju“, bera síst meira úr býtum til samgöngumála en hinir, sem hafa hennar full not.

Það er kannske til þess að gera þessum sveitum jafnhátt undir höfði bæði á sjó og landi, að menn taka ekki liðlega í að veita þeim fje til samgangna á sjó. Því að eins og menn vita, hafa fáar eða engar sveitir verri vegi á landi en einmitt þessar. Það er ekki heldur farið fram á það frá þeirra hálfu að leggja stórfje í vegagerðir, enda væri það óviturlega ráðið. Þeirra þjóðvegir hljóta að liggja um sjóinn. En á þá með stirðbusahætti og skilningsleysi jafnframt að gera þeim ókleift að hafa flutninga á sjó? Jeg ætla ekki að segja meira um þetta nú, en býst við að koma að fleiri orðum um það síðar.

Þá ætla jeg að minnast á brtt., sem jeg á við þennan kafla fjárlaganna. Sú fyrsta er á þskj. 297,XIII, og fer fram á 1000 kr. styrk til Jóns Ásgeirssonar. Þessi piltur var við hljómlistarnám suður í Þýskalandi, en veiktist síðastl. haust allalvarlega og hefir legið síðan suður í Vínarborg. Til námsins styrktu hann nokkrir kunningjar og vinir sem ekki vildu fara fram á ríkissjóðsstyrk, heldur aura einhverju saman sjálfir til að hjálpa honum. En nú er það fje þrotið og varla von, að þessir menn, sem styrktu hann utan, geti lagt mikið meira af mörkum, og það því síður, sem hann er orðinn alveg heilsulaus og engin von um, að hann geti snúið sjer að náminu aftur. Þess vegna legg jeg til, að honum verði veittar þessar 1000 kr. til að borga nokkuð af sjúkrahúskostnaði sínum og til að komast heim. En jeg get lýst yfir því, að jeg skal taka aftur þessa till., ef hv. fjvn. vill leggja með því, að hann fái það fje, sem veitt er í 17. gr. 5 til að hjálpa nauðstöddum Íslendingum erlendis. En þá er líka það fje þrotið, því að það er aðeins 1000 kr.

Þá er önnur brtt. mín á þskj. 297,XIX. um að hækka styrkinn til hýsingar ferðamanna um 200 kr., upp í 3200 kr. Þessi liður hefir verið lækkaður um þessar 200 kr. frá því, sem hefir verið undanfarið, og er ætlunin að sleppa styrknum til bóndans að Arngerðareyri. Er það víst bygt á því, að hún liggi svo nærri öðrum bæjum, ekki nema klukkutíma ferð, að því sje ekki þörf á styrknum. En jeg vil leyfa mjer að benda á það, að óvíða mun vera meiri gestagangur; jeg býst við, að þar komi fleiri hundruð næturgesta en einstaklingar á sumum þeim stöðum, sem styrkur er veittur til, og vil jeg þá t. d. benda á Kleppustaði í Strandasýslu.

Þá á jeg enn eina brtt. á sama þskj. XXIII. lið. Hún er um símalínu frá Ísafirði til Ögurs og frá Ögri um Æðey til Snæfjalla. Það er öllum kunnugt, að símasambandið við Vestfirði er mjög slitrótt, og það svo, að oft næst ekki samband vikum saman að vetrinum. Og það er annað verra, að þetta samband, sem þarna er, er svo ófullkomið, að það er altaf erfitt fyrir þá staði í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem hafa síma (en það eru ekki nærri allir hreppar í sýslunni), að komast út fyrir hjeraðið. Þetta stafar af því, að aðeins er einföld lína frá Ísafirði um Ögur til Borðeyrar, og á þessari línu eru allar millistöðvarnar. Landssímastjóri segir, að aldrei verði viðlit að fá gott samband fyr en önnur lína sje komin frá Ísafirði til Ögurs, og einnig frá Borðeyri til Hólmavíkur. Þessu til staðfestingar skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr brjefi frá landssímastjóra, dags. 3. þ. m.:

„Eins og jeg tjáði yður munnlega, er það nauðsynlegt að strengja nýja línu frá Ísafirði til Ögurs, er tekið getur allar símastöðvarnar á þessu svæði, sem nú eru á aðallínunni og skemma hana svo mjög og teppa, að hún kemur ekki sem stendur að tilætluðum notum fyrir Vestfirði. Um leið og þessi lína verður lögð vænti jeg, að unt verði að leggja sæsíma frá Ögri til Æðeyjar og yfir á Snæfjallaströnd ....“

Þá er ekki heldur neitt viðlit að fá nokkurt samband suður á bóginn á tímanum frá kl. 9–10 og 4–5, því að þá eru allar 3. flokks stöðvarnar í gangi. En Norður-Ísfirðingar fá nauðasjaldan samband út úr hjeraðinu, sakir þess, að línan er svo útbúin, að þörf er á nýrri. Kostnaðinn hefir landssímastjóri áætlað 34 þús. kr. Línan verður auðvitað lögð á gamalli stauraröð, en margir sæsímaspottar eru á leiðinni, og það gerir hana dýrari.

Þá er hv. deild það kunnugt, að í símalögunum frá 1912 er ákveðið að leggja símalínu til Snæfjalla, að Höfða í Grunnavík, til Staðar í Aðalvík, um Hesteyri og frá Hesteyri til Hafnar á Hornströndum.

Ekkert af því hefir verið framkvæmt til þessa dags. En jeg fullyrði, að búið er að leggja allar aðrar símalínur, sem þá voru ákveðnar, nema Barðastrandarlínuna, sem nú hefir verið veitt fje til, og eina smálínu. Þetta hefir að sjálfsögðu bagað norðurhreppa sýslunnar mjög mikið, svo mikið, að jeg býst ekki við, að beiðni hefði komið um að gefa Grunnavíkurhreppi eftir neitt af dýrtíðarláni hans, ef sími hefði verið kominn til Snæfjalla. Því að ástæðan til þess, hve Grunnavíkurhreppur er illa stæður, er sú, að í illviðrum koma togarar þarna inn í hópum og „þurka“ alla Jökulfirðina að fiski. En togararnir koma helst ekki, nema þeir sjeu alveg vissir um, að ekki komist boð eftir strandvarnarskipi til að handsama þá. En eigi að fara til síma í Dynjanda, má það heita ókleift, sakir þess að það er meira en dagleið, og sökudólgarnir þá farnir áður en hjálpin kemur. Auk þessa nýtur Snæfjallahreppur að sjálfsögðu þessa síma. Þar er eins ástatt, að helsta bjargræðið er að fá úr sjó, því að landbúnaður getur ekki verið mikill á þessum stað. Er honum einkarnauðsynlegt að fá síma, til þess að geta vitað, hvenær beitu er að fá við sunnanvert Djúpið, en hún fæst aldrei á norðurfjörðunum. Þetta — hve erfitt er að ná í beituna — hefir orðið til þess, að smábátaútgerðinni hefir farið stórkostlega aftur á síðustu árum, svo að nú eru þar aðeins 10 bátar í stað 40–50 áður. Á þessu væri ráðin afarmikil bót með síma til Snæfjalla. Auk þess eru þessir hreppar illa settir með lækni, þar sem þeir þurfa að sækja hann langa leið, bæði landveg og sjóveg. Og þessi hjeruð eru ill yfirferðar og ilt að elta uppi lækni, nema menn viti, hvar hann er. Þótt menn fari heim til hans, er ekki að vita, hvort það verður að gagni, því að hann getur þá ef til vill verið mikið nær þeim í læknisferð. En ef síminn væri, væri altaf hægt að komast að þessu, og í mörgum tilfellum gætu þeir fengið hann til að koma á móti sjer nokkuð af leiðinni.

Hv. frsm. fjvn. talaði um það, að nú reyndi á þolrif hv. þm. að fella þessar brtt., sem fram væru bornar. Það má vera, en hv. fjvn. hefir ekki getað stilt sig um að bera sjálf fram brtt., og jeg vil leyfa mjer að draga það í efa, hvort þær eru nokkuð sanngjarnari. Jeg efast t. d. um það, hvort ekki hefði mátt bíða að hækka framlagið til fjallvega um nærri helming, úr 8 þús. upp í 15 þús. kr. Og ennfremur er ástæða til að efast um þetta, þegar það upplýsist, að viðbótin á að fara aðeins til 2 vega, og er a. m. k. annar þeirra ekki fjölfarinn.

Hæstv. fjrh. sagði, að það væri ekki gott að gera hvorttveggja í senn, að hækka útgjöldin og ljetta af tollum. En jeg fæ nú ekki annað sjeð en að stjórnin hafi sjálf gengið nokkuð langt í þessu, því að eins og fjárlögin komu frá henni er miklu meira fje ætlað til verklegra framkvæmda en nokkru sinni áður. Það virðist svo, sem henni hafi nú þótt rjettast að vinna Torfalögin fyrir það, sem niður hefir fallið undanfarið. En jeg hygg, að enginn hugsandi maður sje í vafa um það, að á næsta ári muni atvinnuvegir landsmanna ekki geta gengið með fullum krafti, og má því búast við nokkru atvinnuleysi. Þess vegna er það alveg rjett að vinda þá til nokkurra verklegra framkvæmda. En þessar verklegu framkvæmdir ríkisins mega ekki standa í vegi fyrir því, að vinnulaun lækki í samræmi við minkun dýrtíðarinnar. Og ef kaupið lækkar ekki næsta haust, þá mun það sjást, að allsherjarverkbann verður nauðsynlegt langt fram eftir vetri. Þetta vona jeg, að verkamenn sjái, og ef það hefst ekki fram með góðu, þá verður auðvitað að fara aðrar leiðir. Jeg hugsa, að það, sem gerðist hjer fyrir skömmu, hafi fært mönnum heim sanninn um það, sem jeg segi, og að það borgar sig síst fyrir verkalýðinn að láta vinnu liggja niðri um langan tíma út af smávægilegum mun á kröfum þeirra og atvinnurekenda. Og ef verkamenn vilja ekki vinna fyrir það kaup, sem atvinnuvegirnir geta borið, þá á jeg bágt með að trúa því, að hið opinbera fari að hlaupa í kapp við atvinnurekendur um að bjóða upp kaupið. — Þetta var nú aðeins innskot, en út af símalagningunni, sem jeg mintist á, vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr brjefi frá sýslunefnd Ísafjarðarsýslu:

„Sýslunefndin lætur í ljós sterka óánægju yfir símasambandi Norður-Ísafjarðarsýslu við aðra landshluta. Til þess að bæta úr þessu, skorar sýslunefndin mjög eindregið á atvinnumálaráðherra og landssímastjóra að taka upp í fjárlögin fyrir árið 1928: (MG:'28?). a. Nýja línu frá Ísafirði til Ögurs til endurbóta utanhjeraðssambandi. — b. Línu frá Ögri um Æðey til Snæfjallastrandar og þaðan til Staðar í Grunnavík, þar sem símaleysið er nú orðið þessum hreppum því nær óbærilegt. Till. þessi var borin undir atkvæði og samþykt í einu hljóði. ....“

Það er rjett, að árið 1928 er tekið til í áskorun sýslunefndar, en í 3 þingmálafundargerðum er skorað á þm. að flytja till. þegar á þessu þingi. Jeg skal játa það, að jeg sagði þeim, að lítið mundi þýða að flytja þetta, en þegar jeg sje, að komnar eru inn í fjárlögin símalagningar, sem miklu síðar voru teknar upp í símalögin, þá er eðlilegt, að jeg vilji ekki láta þessa bíða lengur. Og þó að sýslunefndin hafi sagt, að hún óskaði línunnar árið 1928, — ætli hún mundi þó ekki þiggja hana ári fyr? (TrÞ: Það efar enginn. — KlJ: Sennilegt mjög). En með þeim miklu framkvæmdum, sem nú er gert ráð fyrir, finst mjer eðlilegt, að fyrst sje borið þar niður, sem þörfin er mest.