02.03.1926
Efri deild: 17. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Jóhannes Jóhannesson:

Það er ekki af hlífð við konurnar, að jeg sje mig nauðbeygðan til að greiða atkvæði með því, að giftar konur megi skorast undan opinberum bæjar- og sveitarstörfum. Ekki er það heldur af því, að jeg vantreysti þeim til þessara starfa, því að jeg býst ekki við, að þær trani sjer fram til þess, sem þær eru ekki færar um að leysa sómasamlega af hendi.

Mjer gengur hreint og beint til umhyggja fyrir hag heimilanna. Það er hart, en því miður nauðsynlegt, að hægt skuli að skylda einyrkja bónda til þessara starfa. En það er hreint og beint ótækt, að hægt sje að skylda húsmóðurina til þess að vera burtu frá heimilinu og kannske barnahóp svo dögum skiftir, og alt kemst af í framtíðinni eins og hingað til, þótt það verði ekki lögleitt.

Vona jeg, að háttv. deild geti fallist á þetta.