20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Jón Kjartansson):

Eins og hv. þdm. muna, var í ráði á síðasta þingi að skipa milliþinganefnd til þess að endurskoða sveitarstjórnarlögin og fátækralögin. En hv. Ed. fól stjórninni þessa endurskoðun. Með þessu frv. getur að líta einn flokk þessara mála, þar sem dregið er saman í eitt alt viðvíkjandi kosningum og kjörgengi í málefnum sveita og kaupstaða. Að það hafi verið full þörf endurskoðunar, sjest best, ef athuguð er 37. gr. frv., en þar eru 16 lög numin úr gildi. Áður var erfitt að átta sig á því, hvað voru lög í þessu efni, en nú hefir stjórnin dregið það saman í eitt í þessu frv.

Þetta frv. hefir nú gengið í gegnum Ed. og tekið þar nokkrum breytingum. Allshn. getur nú fallist á þær flestar, en þó ekki allar. Einn nefndarmaður, hv. 2. þm. Reykv. (JBald), vill ganga nokkuð lengra.

Jeg skal nú víkja nokkrum orðum að brtt. meiri hluta allshn. 1. brtt. er við 3. gr. í frv. stjórnarinnar er svo ákveðið, að konur geti skorast undan að sæta kjöri í hreppsnefndir og bæjarstjórnir. Hv. Ed. feldi þessi rjettindi kvenna burtu, svo konum er nú ætlað að hafa sömu skyldur og karlar í þessu efni. Meiri hluti allshn. fellst nú ekki á það, að rjett sje að svifta konur þessum rjetti. Það hefir nú um langt skeið verið fullkomið jafnrjetti milli karla og kvenna að því er snertir kosningarrjett og kjörgengi, rjett til embætta o. fl. En skyldurnar eru ekki að öllu leyti þær sömu. Þær hvíla meira á karlmönnum. Meiri hluti nefndarinnar lítur nú svo á, að rjett sje, að konur fái að halda þessum auknu rjettindum, sem þær hafa haft. Það er síður en svo, að hann vantreysti konum til þess að gegna þessum störfum; en hann lítur svo á, að starf kvennanna í þjóðfjelaginu sje að ýmsu leyti mikilsverðara en karlmanna, og því sanngjarnt og rjettmætt, að þær hafi aukin rjettindi fram yfir karlmenn. Jeg fjölyrði svo ekki frekar um þetta. Jeg geri ráð fyrir, að hv. deild verði í samræmi við sjálfa sig og samþykki þetta, því að hún hefir nýlega samþykt, að konur skuli hafa leyfi til þess að skorast undan kosningu í niðurjöfnunarnefnd.

Næsta brtt. meiri hluta nefndarinnar er við 11. gr. Þar er svo ákveðið, að skrá með nöfnum fulltrúanna, sem stungið er upp á, skuli afhendast oddvita kjörstjórnarinnar 2 sólarhringum fyrir kosningu. Nefndin hefir nú orðið sammála um að lengja frestinn upp í 14 daga. Fresturinn verður að vera lengri en tveir sólarhringar, ef það er vilji Alþingis að gefa kjósendum utan kjörstaðar rjett til þess að neyta kosningarrjettar síns, svo sem ræðir um í 36. gr. frv. Hv. deild ætti því að fallast á þessa brtt. 3. brtt. er við 17. gr. Þar eru talin upp þau einkenni á kjörseðli, sem ónýti hann. Í stjfrv. er orðalagið þannig, að það valdi ógildingu kjörseðils, ef einkenni sjeu á honum, sem geti gert hann þekkjanlegan. Meiri hluti nefndarinnar vill samræma þessi ákvæði við önnur nýrri kosningalög, þannig, að seðillinn verði ógildur, ef ætla megi, að auðkennin sjeu gerð viljandi. Jeg vænti þess, að hv. deild geti fallist á þessa breytingu.

4. brtt. allshn. er aðeins orðabreyting, og þarf jeg ekki að fjölyrða um hana.

5. brtt. er í samræmi við 3. brtt., og þarf jeg því ekki að fara frekar inn á hana.

Aðrar brtt. hefir meiri hluti allshn. ekki flutt, en minni hlutinn, hv. 2. þm. Reykv. (JBald), hefir flutt nokkrar víðtækari brtt., sem jeg vil víkja að nokkrum orðum.

1. brtt. hans er við 1. gr., um að rýmka kosningarrjettarskilyrðin. Hann vill færa aldurstakmarkið úr 25 árum niður í 21 og fella niður 6. skilyrðið, að sá skuli ekki hafa kosningarrjett, sem stendur í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Þessi kosningarrjettarskilyrði eru hin sömu og skilyrði fyrir kosningarrjetti til Alþingis, og jeg geri ráð fyrir, að menn sjeu sammála um það, að ekki sje síður þörf á að hafa tryggan útbúnað við kosningar í málefnum sveita og kaupstaða. Þegar krafist er 25 ára aldursskilyrðis, þá er það álitin trygging fyrir því, að kosnir sjeu færari menn, því að svo er talið, að því rosknari sem menn eru, því ráðsettari verði þeir og velji fulltrúa sína með því meiri gætni. Ef það er skoðun hv. deildar, að þetta ákvæði feli í sjer öryggi á þessu sviði, þá er sjálfsagt að halda því.

Það gæti verið meiri sanngirni í því að fella niður 6. skilyrðið. Það gæti verið rangt að svifta menn skilyrðislaust kosningarrjetti sakir þess, að þeir standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. En svo er þú um marga, að það er eingöngu vegna ómensku, leti eða óreglu, að þeir fara á sveitina, og er sjálfsagt að svifta slíka menn rjettinum. En eins og jeg gat um áður, þá getur þetta komið ranglátlega niður á suma. En jeg tel þú rjettara, að þetta yrði lagfært með fátækralagabreytingu þeirri, sem væntanlega verður gerð á næsta þingi. Því að þau lög liggja nú undir endurskoðun hjá hæstv. stjórn. Vænti jeg þess því, að hv. deild samþykki ekki þessa brtt. að þessu sinni.

Þá kem jeg að 2. brtt. hv. minni hl., um að 4. gr. falli burt. Í 4. gr. frv. er sagt, að kjörstjórnir skuli úrskurða um kjörgengi til bæjarstjórnar, borgarstjóra og hreppsnefnda. Mjer virðist það vera rjett að fela kjörstjórn það vald að úrskurða um kjörgengi. Því sje það ekki gert, þá getur það valdið mikilli truflun, ef úrskurðurinn kemur ekki fyr en kosning er um garð gengin, og verður þá ef til vill að kjósa af nýju. Það getur komið fyrir, að maður sje á lista, sem alveg er ugglaust ókjörgengur, og þá er það óneitanlega hart að leyfa ekki, að kjörstjórn úrskurði þann mann ókjörgengan þegar í upphafi. Jeg þykist þess fullviss, að hv. deild fallist á það að láta 4. gr. standa óhaggaða, því að það kemur í veg fyrir margskonar truflanir og aukinn kostnað, sem af því leiddi, ef kjósa þyrfti upp aftur.

3. brtt. minni hl. er við 5. gr. frv., þess efnis, að í stað þess, sem frv. gerir ráð fyrir, að tiltekinn hluti manna úr bæjarstjórn gangi úr á hverjum tveim árum, þannig, að allir hafi gengið úr eftir 6 ár, þá vill hv. minni hl., að á þriggja ára fresti fari helmingurinn frá. Jeg er nú satt að segja hálfundrandi yfir því, að það skuli vera hv. 2. þm. Reykv., sem flytur slíka till. Mjer hefir virst, að jafnaðarmenn vildu einmitt sem oftast leita úrskurðar kjósenda, en þessi brtt. fer fram á að skjóta því á lengri frest en frv. ætlast til, að kjósendum gefist færi á að segja sitt álit um málin með kosningu. Þykist jeg vita, að þetta sje vel meint hjá hv. 2. þm. Reykv. (JBald), m. a. sje það af sparnaðarástæðu, að hann flytur þessa brtt., því vitanlegt er, að kosning nú á dögum kostar æðimikið fje, einkum í Reykjavík. Jeg legg nú ekki mikið upp úr þessari till. og læt hv. deild um það, hvort hún vill samþykkja hana eða fella.

4. brtt. hv. 2. þm. Reykv. er einungis orðabreyting, sem óþarfi er að fjölyrða um. En 5. brtt. er rjéttmæt að mínum dómi, því svo er það að minsta kosti hjer í Reykjavík, að þess hefir ekki verið krafist um umboðsmenn lista, að þeir væru meðmælendur, heldur hafa aðrir haft þessi umboð.

Þá eru till. hv. minni hl. ekki fleiri. En þeir hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) og háttv. þm. Borgf. (PO) flytja hjer till. á þskj. 246, um að fella niður 29. gr. Þetta kom til orða í allshn., en meiri hluti nefndarinnar gat ekki fallist á það að taka burtu heimildina til hlutfallskosninga í hreppsnefndir. Það getur verið full ástæða til þess að tryggja rjett minni hlutans í sveitum eigi síður en í kaupstöðum, og því fullkomlega rjettmætt að setja þessa grein í lögin.

Jeg mun svo ekki fara um málið frekari orðum að sinni, en vænti þess, að hv. deild samþykki till. meiri hl. Till. minni hl. eru lítils virði að mínum dómi, nema sú 1., við 1. gr. En jeg vona, að hv. deild verði sjálfri sjer samkvæm og felli þá till.