20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Það, sem mig hefir greint á við hv. meiri hl. allshn., er, eins og tekið er fram í nál. mínu á þskj. 323, aðallega aldurstakmarkið eins og það er í 1. gr. frv., og olli það mestu um það, að leiðir okkar skildu. Jeg hefi aldrei heyrt neinar skiljanlegar eða skynsamlegar ástæður til þess að synja mönnum um kosningarrjett, er þeir hafa náð 21 árs aldri. Jeg hefi aldrei getað fundið ástæðu til þess, að slíkum mönnum væri síður trúandi til þess að velja sjer sæmilega fulltrúa í bæjar- eða hreppsnefnd en þeim, sem eru 4 árum eldri. Og þegar litið er á það, hvern rjett löggjöfin veitir þeim mönnum, sem náð hafa 21 árs aldri, þá sje jeg ekki, að það sje minna um vert heldur en hitt, að þeim sje leyft að kjósa fulltrúa í sveitarstjórn. Þannig er t. d. kennara, sem er 21 árs, leyft að taka börn og unglinga til kenslu, og ekkert á móti því, að hann geti verið stjórnandi stærsta barnaskóla landsins. Og þegar slíkum manni eru veitt svo mikil rjettindi, — hví skyldi þá ekki mega trúa honum til þess að velja fulltrúa í sveitarstjórn? Þá er mönnum 21 árs gömlum leyft að stofna hjúskap, sem ekki er talið þýðingarlítið. Einnig eru menn fjárráðir á þessum aldri og geta tekið að sjer hverskonar atvinnurekstur. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að 21 árs maður hefði með höndum yfirstjórn á öllum togaraflota landsins, og er það þó nokkru meira um vert en svari þessum rjettindum, að ráða yfir atvinnutækjum, sem mörg þúsund manna vinna við bæði á sjó og landi. Jeg hefi gripið þessi dæmi af handahófi. En það er kunnugt, að menn á þessum aldri hafa yfirleitt öll þau rjettindi, sem þjóðfjelagið hefir að bjóða, nema kosningarrjett til þings og í sveitar- og bæjarmálefnum, og ef til vill stöku embætta. Þessi rjettur hefir verið veittur í ýmsum löndum, sem lengra eru komin í menningu en við.

Hv. frsm. meiri hl. (JK) talaði um till. mínar í ræðu sinni áðan, og hefði þó vel getað beðið með það þangað til jeg hafði mælt fram með þeim. En úr því hann fór þannig að, þá mun jeg svara honum jafnframt og jeg tala um till. að öðru leyti. Hv. frsm. taldi meira öryggi í því, að menn fengju ekki kosningarrjett fyr en þeir væru 25 ára. Jeg hygg aftur, að menn á aldrinum frá 21–25 ára fari meir að málavöxtum og minna eftir hagsmunaástæðum og persónulegum áhrifum en hinir, sem eldri eru og hættir frekar við að hugsa um sjálfa sig og hagsmuni sína í sambandi við kosningarnar. Og af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú talið, álít jeg það, alveg sjálfsagt, að þessum mönnum sje veittur kosningarrjettur. Það er bæði, að menn á þessum aldri eru áhugasamari um almenn mál en síðar, enda hafa þeir þá yfirleitt fengið þá almennu mentun, sem menn annars fá undir lífsstarf sitt, og ættu þeir því að vera fullkomlega færir um það að dæma um, hvaða fulltrúa þeir eigi að velja og hvar þeir eigi að skipa sjer í flokk. Þegar almenn fræðsla er komin á það stig, sem hjer gerist, þá ætti það að vera alveg sjálfsagt að veita mönnum 21 árs rjett til þess að kjósa fulltrúa í sveitarstjórn. Þeir ættu líka að hafa kosningarrjett til Alþingis. Öll rök hníga í þá átt, að þetta sje rjett, og ef atkvæði falla um þetta atriði eftir rökum, þá verður till. mín samþykt.

2. brtt. mín, við 1. gr., er um það, að 6. liður 1. gr. falli burt. Eins og lög okkar eru nú, þá sviftir sveitarskuld menn kosningarrjetti. Hv. frsm. (JK) játaði, að þetta væri rangt í ýmsum tilfellum, en sagði þó, að þar sem svo væri komið fyrir mönnum, þá stafaði það oft af leti og ómensku. Jeg hygg nú, að þetta sje mjög hæpið, ef farið væri í skýrslur um fátækraframfærslu, að margir væru styrkþegar sökum leti og ómensku. Jeg þykist þess fullviss, að slíkt sjeu undantekningar heldur en hitt, og hafi hv. þm. (JK) sagt þetta í gáleysi, en ekki af því, að hann festi trúnað á það. Það er ákaflega auðvelt að slá slíku fram, en kannske dálítið örðugt að finna því stað. Það mun mjög lítill hluti af þeim mönnum, sem styrk þurfa að þiggja, gera það af þeim ástæðum, sem hv. þm. nefndi. Það má að vísu vera, að eitthvað sje af mönnum, sem sveitarstyrk þiggja vegna þess, að þeir hafa eyðilagt sig á margskonar óreglu, svo að þeir geti ekki sjeð fyrir heimilum sínum. Slíkt má vitanlega kalla ómensku, en hinsvegar ætti það ekki að verða þess valdandi að svifta alla rjettindum, sem af sveit hafa þegið. Þetta hafa menn líka viðurkent með því að telja þann styrk ekki til rjettindamissis, er menn verða að þiggja vegna sjúkrahúsvistar; eins má nefna berklavarnalögin o. fl. En svo eru fjöldamörg önnur atriði þessu lík, sem verða þess valdandi, að menn verða að þiggja sveitarstyrk, svo sem ýmiskonar heilsuleysi, atvinnubrestur, ómegð, en ekki síst elli. Það er mikill fjöldi til af gömlum mönnum, sem aldrei hafa efnast neitt, og svo þegar þeir gerast ófærir til að vinna fyrir sjer, þá verða þeir að fá styrk til að geta lifað. Það er fjöldi manna hjer í Reykjavík, sem þiggur styrk af þessum ástæðum. Hinir munu sárafáir, sem styrk þiggja vegna leti og ómensku, eins og hv. þm. komst að orði. Og þó til sje einstaka maður þannig, þá mætti ef til vill láta slíkt varða rjettindamissi, enda ofurauðvelt, þó till. mín yrði samþ. Ekki þarf annað en að svifta þessa menn fjárræði. Ef það er gert, þá skilst mjer, að þeir hafi ekki kosningarrjett samkvæmt 2. lið 1. gr. frv., svo þarna er hægt að ná til þessara manna, en láta hina halda sínum rjetti. (HK: Þetta er torveld leið). Hún er einmitt auðveld. Ekki er annað en að fá lögreglustjóra til þess að úrskurða um þetta. Jeg geri heldur ekki ráð fyrir, að sveitarstjórnir færu að fara af stað með slíkt nema þær hefðu sterkar sannanir í höndunum. Hv. frsm. (JK) játaði, að þetta væri ranglátt, en hann vildi ekki láta laga það á þessu þingi, heldur á næsta þingi. Það er ekkert óvenjulegt að heyra slíkt. Í síðastl. 5 ár hafa hv. þdm. haft tækifæri til þess að greiða atkvæði um ýmsar breytingar á fátækralöggjöfinni, og altaf hefir viðkvæðið verið þetta, að þeir vildu ekki greiða því atkvæði nú, heldur seinna. Þegar svo næsta tækifæri kemur, þá fá menn sjer til þá ástæðu að bíða eftir því, að hinn eða þessi lagabálkur verði endurskoðaður. Ef hv. frsm. og hv. þdm. álíta þetta ranglátt, þá eiga þeir að samþ. brtt. mínar nú þegar, en svæfa ekki lengur samviskuna með því að skjóta því enn á frest.

Jeg hefi nú rætt um brtt. mínar, sem snerta 1. gr.

Næst er svo till. mín að fella niður 4. gr. frv. Eins og hv. frsm. meiri hl. allshn. tók fram, þá eiga kjörstjórnir eftir frv. að úrskurða um kjörgengi. Þetta álít jeg mjög varhugavert. Þeim, sem börðust fyrir almennum kosningarrjetti, er kunnugt, að þáverandi íhaldsmenn, sem lengst reyndu að spyrna, á móti broddunum, reyndu allsskonar brellur til þess að halda mönnum frá því að njóta kjörgengis. Þeim var varpað í fangelsi fyrir tyllisakir, mál höfðuð gegn þeim af pólitískum andstæðingum, svo það kom fyrir, að menn voru kosnir aftur og aftur þótt þeir sætu í fangelsi af þessum sökum. Þetta endaði svo þannig, að það var tekið úr lögum að láta kjörstjórnir dæma um kjörgengi. Eftir kosningalögum Alþingis heyrir það undir þingið að skera úr því, hvort maður skuli kjörgengur eða ekki. Hv. þm. (JK) sagði, að það kæmi ekki fyrir, að reynt yrði að hindra mann ranglega frá kjörgengi. En það hefir komið fyrir og getur komið fyrir. Hv. frsm. talaði um óþægindin, sem stöfuðu af nýjum kosningum, og gerði ráð fyrir, að í slíkum tilfellum, er vafi væri á kjörgengi, þá væri þægilegra að hafa það eins og í frv. stendur. Menn bjóða ekki fram einhvern til bæjar- eða sveitarstjórnar, sem þeir eru vissir um, að hlýtur að verða dæmdur ókjörgengur. Það er svo ólíklegt, að flokkur, sem vill koma manni að, fari að „stilla upp“ manni, sem hann þykist viss um eða veit fyrirfram að muni verða synjað um sæti. En það er þá girt fyrir hitt, sem jeg hefi áður talað um, að óhlutvandir menn geti fundið upp einhverjar ástæður til þess að hindra það, að andstæðingur þeirra geti komist að. Þetta ákvæði hefir verið tekið inn í lög um alþingiskosningar, og þá er næsta skrefið, að það sje líka tekið inn í lög um bæjar- og sveitarstjórnarkosningar. En það vita hv. þm., að hefir ekki verið gert ennþá.

Þá á jeg eftir að ræða um þrjár brtt. mínar, og er þá fyrsta brtt. að láta kjósa á þriggja ára fresti, í stað þess að í frv. er ákveðið að láta kjósa 1/3 fulltrúanna á tveggja ára fresti. Hv. frsm. meiri hl. var að bera mig fyrir brjósti fyrir það, að jeg kæmist í ósamræmi við jafnaðarmannaflokkinn, af því að þeir vilja hafa kosningar sem oftast. En það er algerlega óþarft fyrir hv. frsm. að bera mig fyrir brjósti; jeg mun annast þau viðskifti mín sjálfur. Mjer finst það heppilegra fyrirkomulag, að kosið sje þriðja hvert ár og að helmingur bæjarstjórnar sje kosinn í einu; það kemur þá greinilega fram, hver flokkur er sterkastur í bæjarfjelaginu. Mönnum finst kannske, að það komi í sama stað niður, hvort er haft hjer, þar sem skift er um alla bæjarstjórnina á 6 árum, og kosið á tveggja ára fresti eftir frv., en á þriggja ára fresti eftir minni till. En það er líka rjett, að þegar einn flokkur er orðinn ríkjandi, þá taki hann við völdunum; en kannske líka háttv. frsm. meiri hl. vildi láta skifta um, þannig að helmingurinn væri kosinn á tveggja ára fresti, svo að skift yrði til fulls á fjórum árum? Það teldi jeg allra rjettast. En jeg hefi nú samt ekki borið fram till. um þetta, en jeg býst ef til vill við að gera það.

Þá er það eitt atriði, sem jeg hefi vikið að í nál., en ekki borið fram till. um, það er að hafa varamenn til bæjarstjórnar. Það er ákaflega mikilsvert fyrir bæjarfjelagið, þegar bæjarfulltrúi flytur burt úr bænum eða fellur frá, að þá þurfi ekki að setja alt þetta mikla kosningar-„apparat“ í gang, því að það kostar mikið fje og umstang; jeg álít því sjálfsagt, að flokkarnir fengju varamenn við kosningarnar, og tækju þeir þá sæti jafnóðum og þeir menn falla frá, sem kosnir voru af þeim sama lista, og þá þarf aldrei annað við burtför eða fráfall en að tilkynna það varamanni, og taki hann þá sæti hins jeg mundi telja það mikinn kost á frv., ef samþykt yrði að hafa varamenn til bæjarstjórnar.

Þá er 4. brtt. mín, við 11. gr., í samræmi við 4. gr., sem jeg hefi lagt til, að falli niður. Jeg hefi dregið úr greininni, af því að jeg vil ekki láta kjörstjórn dæma um kjörgengi manna, en hitt er annað mál, að kjörstjórn verður að vita, við hvern er átt, verður að vita, hvort maðurinn sje til eða ekki, og svo greinilega nafn hans, að ekki leiki vafi á, hver hann sje. Það er sjálfsagt, enda hlýtur að vera hvöt hjá hverjum, sem ber fram lista til kosningar, að gera hann svo úr garði, að ekki geti orðið ágreiningur um það, við hverja sje átt.

Þá er síðasta brtt. mín, við 15. gr., að í staðinn fyrir „meðmælendur“ komi „umboðsmenn“, og er það af ástæðum, sem komið hafa fyrir í Reykjavík og öðrum kaupstöðum landsins. Það er nefnilega ekki altaf hentugt, að þeir sjeu umboðsmenn í kjörstofunum, sem eru meðmælendur á lista, enda hefir það ekki verið gert í Reykjavík; það hefir verið haft svo, að það væru flokksmenn þeirra, en ekki endilega af þeim 15 mönnum, sem hafa áritað skjalið, enda er það heldur ekki nauðsynlegt, að það sje kjósandi; hentugast er, að það sje lipur skrifari, sem ekki þarf endilega að hafa náð kosningaaldri til þess að inna það verk af hendi svo að í lagi sje. Jeg vænti þess, af því að hv. meiri hl. nefndarinnar hefir ekkert haft við þessa, brtt. að athuga, að hún verði samþykt ágreiningslaust.

Jeg hefi þá lokið að tala um brtt. mínar. Vil jeg þá aðeins víkja að því, að það kann að vera, að 1. brtt. mín sje ónákvæmlega orðuð, þar sem sett er 21 ár í stað 25 ára, en ef hún verður samþ., þá vænti jeg, að það megi telja sjálfsagða leiðrjettingu að breyta megi „a“ í „s“ í orðinn „ára“. En hafi einhver eitthvað við það að athuga, þá gæti jeg líka komið með brtt., er sjálfsagt gæti verið prentuð áður en umr. um málið verður lokið.