20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. nefnd fyrir meðferð hennar á þessu máli, og þá sjerstaklega meiri hl. hennar, því að hans brtt. eru mjög litlar að efni til. Þær eru eiginlega ekki efnisbreytingar nema 1. og 2. brtt., og jeg álít, að 2. brtt. sje til bóta, og það er beinlínis af óaðgæslu í frv., hversu fresturinn er stuttur, og get jeg þess vegna með ánægju greitt atkv. með þessari brtt. hv. nefndar. Sama, er að segja um 3., 4. og 5. brtt. hennar. Um 1. brtt. er það að segja, að hún er líka efnisbreyting, og þar er lagt til, að fært sje í það horf, sem var í stjfrv., að rjett sje konum að skorast undan kosningu. Þetta atriði var felt burt í hv. Ed., eins og kunnugt er, og jeg þykist nú sjá, að það geti orðið talsverð togstreita milli deildanna út af þessu atriði, þó að jeg fyrir mitt leyti geti ekki sjeð, að það sje neitt verulegt atriði. Jeg mun þess vegna ekki að sinni taka neinn þátt í þessari togstreitu, en vel má vera, að frv. verði að fara í Sþ., ef hvorug deildin vill beygja sig. En ástæðan fyrir því, að þetta var tekið upp í stjfrv., var sú, að það er svo fyrirmælt í núgildandi lögum, að konur geti skorast undan kosningu.

Um brtt. hv. minni hl. er talsvert öðru máli að gegna: jeg get ekki gengið að neinni þeirra. Fyrst og fremst er þar brtt. um að færa niður aldur til kosningarrjettar, og verð jeg að segja það, að hv. frsm. minni hl. (JBald) sannfærði mig ekki um nauðsyn þess að færa niður aldurstakmarkið, því að þótt hv. þm. nefndi það, að menn, sem ekki eru nema 21 árs, gegni oft vandasömum stöðum, þá sannar það ekkert, því að það gera svo margir t. d. giftar konur, þótt yngri sjeu, og það er heldur ekki það, sem um er að ræða, heldur það, hvort hlutaðeigendur hafi haft vilja til að átta sig á þessum málum, svo að þeir sjeu færir um að leggja dóm á þau.

Þá vill minni hl. fella niður, að það sje skilyrði fyrir kosningarrjetti, að menn sjeu ekki í sveitarskuld; en þetta er sama deilumálið og áður hefir verið hjer, og hefir meðal annars leitt til þess, að farið verður að endurskoða fátækralöggjöfina. Um þetta hlýt jeg að segja það, að það er að minsta kosti ósanngjarnt, að allir, sem hafa þegið sveitarstyrk, hafi kosningarrjett, þar sem því verður ekki neitað, að einstaka menn verði sveitarþurfar vegna leti og ómensku. Og um það munu flestir sammála, að þeir eigi ekki að hafa kosningarrjett. Sá á ekki að stjórna annara málefnum, sem ekki getur stjórnað sínum eigin. En það, sem gæti komið til mála, er að þrengja þann flokk manna, sem talinn er þiggja sveitarstyrk, þó að hann geti ekki sjeð fyrir sjer sjálfur. Annars lái jeg ekki hv. flm. (JBald), þó að hann haldi þessu fram. Það er fullkomlega í samræmi við það, sem hann hefir haldið fram áður, þótt ekki sje það rjett.

2. brtt. hv. þm. (JBald) er við 4. gr., og er um að fella þá grein niður. Hv. þm. vill ekki, að kjörstjórn úrskurði um kjörgengi til bæjarstjórnar, borgarstjóra og hreppsnefnda. Byggir hann þetta á því, að kjörstjórn sje svo hlutdræg og órjettlát, að hún úrskurði þann mann óhæfan, sem er hæfur. Til dæmis nefndi hann það, að kjörstjórn gæti látið setja manninn í fangelsi, til þess að hann missi kjörgengi. Fyrst er það, að engin kjörstjórn getur sett nokkurn mann í fangelsi. Til þess hefir hún enga heimild. Annað er það, að þó að maðurinn væri settur í fangelsi, mundi hann fyrir því ekki missa kjörgengi, heldur þá fyrst er áfellisdómur er genginn. Þetta er því aðeins að búa til grýlu, sem enginn fótur er fyrir. Hv. þm. (JBald) vildi fóðra brtt. með því að segja, að þetta hefði komið fyrir. Jeg veit ekki til þess, og þætti mjer æskilegt, ef hv. þm. vildi nefna dæmi. Mjer finst eðlilegast, að kjörstjórn úrskurði um kjörgengi, því að annars getur svo farið, að af ásettu ráði sje boðinn fram ókjörgengur maður, til þess að gera kosninguna ónýta.

Þá kem jeg að 3. brtt. hv. þm., um að kosið sje í bæjarstjórn þriðja hvert ár. Með því fyrirkomulagi, sem hann vill hafa, skilst mjer, að oftar yrði skift um menn í bæjarstjórn en ella, en það ríður auðvitað mikið á því, að mennirnir fái fullkominn kunnugleika á þeim málum, sem þeir eiga að fást við, en þurfi ekki að fara frá, þegar þeir eru um það bil að komast inn í störfin.

4. brtt. er í sambandi við 2. brtt., og þarf jeg ekki að ræða hana sjerstaklega. Þá kem jeg að brtt. á þskj. 246, frá þeim hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) og hv. þm. Borgf. (PO), um að 29. grein falli niður. 29. gr. heimilar hlutfallskosningu, ef skrifleg krafa kemur um það frá svo mörgum kjósendum, sem þarf til þess að koma að einum manni. Jeg lít svo á, að þetta sje vernd fyrir minni hlutann, sem kann að vera beittur órjetti, og því rjettara að láta greinina standa. Annars snertir þessi brtt. ekki meginkjarna frv., svo að mjer er þetta ekkert kappsmál.