20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Jón Kjartansson):

Það dettur engum í hug að neita því, að til eru fjölda margir 21 árs gamlir menn, sem færir eru um að kjósa í hreppsnefnd og bæjarstjórn og gegna kjöri þar, en hinu neitar heldur enginn, að sá, ungi maður er þroskaðri, þegar hann er orðinn 25 ára, og finnur til meiri ábyrgðar. Það má lengi um það deila, hvort flestir eða allir 21 árs gamlir menn sjeu færir um þetta, en hitt dylst engum, að öryggið er meira, þegar maðurinn er orðinn 25 ára. Vitanlega er það hart að gengið gagnvart sumum mönnum að setja aldurstakmarkið svona hátt, en vegna hagsmuna þjóðarheildarinnar verður það best að hafa aldurstakmarkið þarna. Það er líka hart, að fulltrúar, sem eiga sæti á Alþingi, hafi ekki rjett til að kjósa í landskjörinu. En svona er það; sömu lög verða að ganga yfir þá og aðra, og lögin eru miðuð við það, hvað þjóðarheildinni er fyrir bestu. Jeg mundi finna ástæðu til að hafa takmarkið lægra við alþingiskosningarnar en sveitarstjórnarkosningarnar, af því að við alþingiskosningarnar er krafist framboðs af hálfu þess manns, sem fer með umboðið, en svo er ekki við sveitarstjórnarkosningarnar. Það er meira öryggi fyrir því, að fær maður fáist, þegar krafist er framboðs.

Hv. frsm. minni hl. (JBald) vildi halda því fram, að það væri í gáleysi mælt hjá mjer, að það mundu vera margir, sem þægju sveitarstyrk af leti og ómensku. En svo var ekki. Þegar jeg var fulltrúi hjá lögreglustjóra, voru margir, sem þrjóskuðust við að greiða meðlag með barni sínu, þó að þeir væru ungir og fullvinnandi. En þeir nentu ekki að vinna; þáðu ekki vinnu, þótt boðin væri, o. s. frv. Þessir menn ættu ekki að fá aukin rjettindi. En þar er jeg sammála hv. frsm. minni hl., að það er hart að láta það sama ganga út yfir alla, sem þiggja af sveit, og þetta þarf að athuga í sambandi við fátækralögin, sem nú er verið að endurskoða.

Jeg ætla ekki að ræða um fleiri brtt. hv. 2. þm. Reykv. og heldur ekki ætla jeg að fara mörgum orðum um hina riddaralegu ræðu hv. 1. þm. Árn. (MT) í garð kvenfólksins. Jeg hugsa, að hjer í háttv. deild sjeu fleiri en hann, sem vilja koma riddaralega fram gagnvart kvenfólkinu, og við erum enn riddaralegri, sem ekki viljum svifta þær þeim rjettindum, sem þær hafa haft að lögum. Og ekki kalla jeg það riddaralega framkomu að vilja kúga kvenfólkið, eins og háttv. þm. vill gera. Það var óviðeigandi hjá hv. 1. þm. Árn., er hann sagði, að hv. Ed. hefði í ýmsu komið kuldalega fram við þann eina fulltrúa kvenfólksins, sem þar á sæti. Þetta er ómakleg árás á háttv. þm. efri deildar. Og hafi einhver einstakur viljað koma þannig fram, þá hygg jeg, að margir í hv. Ed. hafi haft þrek til að taka í lurginn á honum. En viðvíkjandi brtt. meiri hlutans um að heimila konum að hafa áfram sinn rjett til að skorast undan kosningu, vil jeg minna háttv. deildarmenn á það ástand, sem nú er ríkjandi í sveitum landsins. Fá heimili hafa meiri vinnukraft en hjónin. Það er hart, þegar einyrkja húsbóndinn er kvaddur burtu af heimilinu til þess að vinna í þágu almennings, en enn harðara væri það, ef húsmæðurnar þyrftu þess. Jeg þykist vita, að hv. Ed. hiki ekki við að halda sínu fram nú eins og fyrir nokkrum dögum, þegar útsvarslöggjöfin var til umræðu. Jeg mæli fast með því, að hv. deild samþykki brtt. okkar meiri hl. og láti ekki undan að svo stöddu.

Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) taldi, að brtt. sú, sem hann flytur ásamt hv. þm. Borgf. (PO), væri til þess að koma í veg fyrir pólitískar kosningar í sveit. Það er náttúrlega ekki nema gott, að það sje gert, en jeg hygg, að ekki sje hægt að koma í veg fyrir þetta með því að fyrirmuna hlutfallskosningu, en ef pólitík annars er komin í þessar kosningar, þá er mesta fjarstæða að vilja útiloka minni hl., því það myndi einungis koma illu til leiðar.

Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta, en vænti þess, að brtt. meiri hlutans verði samþyktar.