10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Jón Kjartansson):

Eins og hv. deild er kunnugt, hefir staðið deila um það milli Ed. og Nd., hvort konur eigi að halda áfram þeim rjetti, er þær hafa haft og hafa nú til þess að skorast undan kosningu í málefnum sveita og bæja. Hv. Ed. heldur því fram, að þeim beri skylda til þess að taka við kosningu, en Nd. vill láta þær halda sama rjetti og þær hafa.

Meiri hl. allshn. hefir því komið fram með brtt. um það, að konur haldi þessum rjetti, því að það kom fram við atkvgr. hjer í hv. deild síðast, að mikill meiri hluti þm. var með þessu. Nú hefi jeg heyrt, að frv. sje hætta búin, ef meiri hl. allshn. heldur fast við brtt. sína. Jeg hefi átt tal um þetta við meðnefndarmenn mína, og þeir vilja halda fast við kröfuna, og sama býst jeg við að hv. deild geri. Það var svo mikill meiri hl. hv. þdm. með þessu um daginn, að hann á ekki að beygja sig fyrir nær jöfnum atkv. í hv. Ed.

Jeg skal ekki fjölyrða um þetta frekar, en hef hv. deild skera úr málinu.