29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

1. mál, fjárlög 1927

Sigurjón Jónsson:

Jeg hefði vel getað komist hjá að kveðja mjer hljóðs, því að jeg á enga brtt. við þennan kafla fjárlaganna. En það er ein brtt. frá fjvn., sem jeg get ekki látið fara alveg orðalaust framhjá mjer, af því að hún snertir mitt kjördæmi.

Breytingin, sem varð á fjárlögunum við 2. umr., var allmikil, — hægt er að segja í óhag þeim fjárlögum, sem við komum til að skila frá þinginu, — og hjer er ennþá farið fram á miklar breytingar í sömu átt; brtt. til hækkunar nema um 660 þús. kr. Af þeim mun 1/6 vera frá fjvn., eða 111 þús.

Af þeim brtt., sem hjer liggja fyrir, er aðeins ein brtt., sem fer fram á lækkun á þeim útgjaldaliðum, sem samþ. voru við 2. umr. Það er hv. fjvn., sem hefir fundið þessa hjálparhellu til þess að jafna upp þessar 660 þús. kr., sem farið er fram á að hækka útgjöldin um, eða að minsta kosti þessar 111 þús. háttv. fjvn. Það er með því að sníða af einni fjárveitingu til Ísafjarðar, sem samþ. var við 2. umr., 10 þús. kr. lokastyrkur til sjúkrahússins á Ísafirði. En hv. fjvn. fer fram á, að þessi styrkur lækki um liðlega 2 þús. kr., verði tæp 8 þús. Það er að vísu rjett hjá hv. frsm. (ÞórJ), að þetta er nákvæmlega sá hluti, sem ríkissjóður á eftir að greiða til þessarar sjúkraskýlisbyggingar, svo að nemi 1/3 af öllum kostnaðinum. Það kom skýrt fram í umr. um þennan lið við 2 umr., að það er farið fram á þennan styrk með tilliti til þess verðtolls, sem Ísfirðingar borguðu af sumu til þessarar sjúkrahúsbyggingar. Þegar þessi byggingarkostnaður var áætlaður og ráðist var í þessa framkvæmd af Ísafjarðarkaupstað, þá voru verðtollslögin ekki til. Og fyrir tollinn varð þessi bygging líklega góðum 3 þús. kr. dýrari en ella hefði orðið. Af þessum 3 þús. hefir Ísafjörður borgað sín 2 þús. Jeg fór fram á, að ríkissjóður gæfi eftir þetta gjald, sem lagðist á kaupstaðinn vegna sjúkrahússins eftir að áætlun var gerð. Þetta var felt hjer í fyrra. Nú er það samþykt við 2. umr. fjárlaganna. Og þótt það sje formlegt að lækka þetta nú við 3. umr., þá finst mjer það fyrst og fremst lítil hjálp vera við allri þeirri hækkun á fjárlögum. Þó væri rjett að gera þetta, ef öll sanngirni mælti með því. En það er skrítið af hv. fjvn. að álíta, að þeir háttv. deildarmenn, sem greiddu þessu atkv. við 2. umr., muni ekki gera slíka hið sama við 3. umr.

Þessi brtt. var ástæðan til þess, að jeg kvaddi mjer hljóðs, því að hún snertir mitt kjördæmi og er eina brtt., sem miðar að því að lækka útgjöldin, innan um þennan fjölda af hækkunartill., sem liggja fyrir.