26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

126. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þetta mál hefir nú verið nokkuð lengi í höndum háttv. nefndar, en þegar það nú loks kemur frá henni, get jeg ekki annað sagt en að jeg sje ánægður með meðferð hennar á því. Sú aðalbreyting, sem hv. frsm. (MJ) lýsti, að lækka tollinn alment niður í 10%, en taka aftur upp þær vefnaðarvörutegundir, sem tollfrjálsar hafa verið, er til mikilla bóta að því er snertir möguleikana fyrir rjettlátri framkvæmd laganna.

Að þessu er líka vikið nokkuð í aths. fyrir stjfrv., og hv. nefnd gat því fyrirfram vitað, að jeg mundi geta fallist á þetta. Það skiftir miklu, að löggjöfin sje svo úr garði gerð, að hún sje vel framkvæmanleg. Það hefir verið viðurkent frá því fyrsta, þegar talað hefir verið um þungatoll og verðtoll, að höfuðannmarkar verðtollsins liggja í erfiðleikum á framkvæmd hans, en hjer af leiðir, að í löggjöfinni verður að reyna að sneiða hjá mestu annmörkunum. Jeg held, að brtt. nefndarinnar muni, ef samþ. verða, samfara þeirri reynslu, sem fengin er, stuðla að því að koma meiri festu á framkvæmd laganna, og að þegar alt kemur til alls, muni þessi lög með þessum breytingum verða vinsælli en ella. Það hafa margir komið auga á annmarkana á því að aðgreina verðtollskylda og tollfrjálsa vefnaðarvöru. Þessir erfiðleikar liggja einkum í því, að nöfnin á vörunni eru svo ákaflega margvísleg og breytileg á hinum ýmsu erlendu málum. Það má næstum heita svo, að hver verksmiðja hafi sitt sjerstaka heiti yfir hverja einstaka vefnaðarvörutegund. Til þess að geta áttað sig fullkomlega á þessu, þyrfti helst að hafa sjerfróðan mann í þessu efni. Af þessu leiðir, að ekki er hægt að byggja á því eingöngu að skoða reikningana, þó að þeir sjeu alveg rjettir. Jeg vil þess vegna mæla hið besta með því, að brtt. nefndarinnar A. og C. á þskj. 408, sem heyra saman, verði samþyktar.

Hvað snertir B-liðinn skiftir það í raun og veru mjög litlu máli í mínum augum, nema leiðrjettingin um skófatnaðinn, sem er sjálfsögð. Jeg vil aðeins segja það, að nauðsynjar við listmálningu og skólanauðsynjar eru í rauninni mjög óákveðin hugtök og gætu valdið örðugleikum í framkvæmdinni. En af því að hjer er um smávægilegt atriði að ræða, geri jeg það ekki að kappsmáli, með því að mjer líka till. nefndarinnar yfir höfuð vel.

Hvað snertir sjerstöðu hv. 1. þm. N.-M. (HStef) skil jeg það vel, og það er eðlilegt, að þegar verðtollurinn er gerður að áframhaldandi skattstofni, komi fram óskir um það, að ljett sje tolli af öðrum vörum, svo sem nauðsynjavörum.

Hvað snertir kornvörutollinn hefi jeg ekki athugað það neitt. Jeg hefi ekki orðið þess var, að brtt. væru fram komnar um það. Jeg læt það bíða að segja nokkuð um þetta atriði, en það mun heldur fátítt, að tollur sje lagður á slíkar óhjákvæmilegar lífsnauðsynjar, og það er ekki nema eðlilegt, að talað sje um að afnema þennan toll, ef farið er að gera einhverja leiðrjettingu á tolllöggjöf vorri.