26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

126. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Mjer finst það næsta undarleg kenning hjá hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. frsm. fjhn. (MJ), að vara hækki ekki í verði, þó á hana sje lagður 10% verðtollur. Þeir forsvara þessa kenningu sína með því, að kaupmenn hafi dreift tollinum á allar vörutegundirnar. Jeg hefi nú grun um það, að kaupmenn leggi sjerstaklega á hverja vöru. Það væri undarlegt, ef þeir rugluðu öllu saman. Um þessar ódýrari vörur hygg jeg, að sje mikil samkepni að koma þeim út, og er því eðlilegt, að kaupmenn leggi á það verð, sem þeir þurfa að gefa fyrir þær, en bæti ekki á það tolli af öðrum vörutegundum. Jeg held, að það sje öfug röksemdafærsla, að vörurnar hækki ekki í verði við þennan toll.

Það, sem hæstv. fjrh. sagði alment um tolla, skal jeg ekki tala um. En jeg álít, að það væri betra, að það yrðu einhverjir aðrir en hæstv. stjórn, sem gæfu sig í það að semja nýja skattalöggjöf. Jeg átti ekki einungis við það, að það þyrfti að samræma skattalöggjöfina, heldur athuga, hvernig skattamálunum yrði yfirleitt komið í betra horf en nú er. Það er enginn vandi að taka lögin og samræma þau, en hitt þarf vel að athuga, hvernig hægt er að ná tekjum í ríkissjóðinn á rjettlátan hátt. Hæstv. fjrh. sagði, að það væri fullkomið eftirlit með vörutollslögunum. Það kann að vera um þær vörur, sem flytjast hingað með millilandaskipunum. En úti um land, þar sem flutningaskipin koma og enginn lögreglustjóri eða embættismaður er til hugsa jeg, að eftirlitið sje ekki mikið. Jeg er sannfærður um það, og hygg, að hæstv. fjrh. muni kannast við það, að það er ekki lítið af vörum, sem fer fram hjá tolleftirlitinu inn í landið.

Hv. frsm. fjhn. vítti mig fyrir það að tala hjer um málið alment. En jeg hygg, að það sje leyfilegt að ræða nál., en það er það, sem jeg hefi gert. Það er ekki óeðlilegt, að minst sje á það, sem stendur í nál., við 2. umr., um leið og minst er á einstök atriði frv.

Hv. frsm. fjhn. vildi sannfæra mig um, að jeg ætti að vera með verðtolli, því að hann kæmi svo rjettlátlega niður. En það er nú svo, að það eru margir nauðsynlegir hlutir, sem verðtollur er lagður á, og nefndin leggur til, að þeim verði fjölgað. Undir verðtollinn falla ýmsir hlutir, sem enginn getur án verið. Það kynni að vera rjettlátt að taka þennan verðtoll af hinum allra fínustu og dýrustu tegundum, því það kæmi niður á þeim, er þær dýrari vörur kaupa; en hjer eru bæði hinar dýrari og hinar ódýrari vefnaðarvörur tollaðar. Jeg álít ekki rjett að taka skatt af óhjákvæmilegum lífsnauðsynjum, svo sem fatnaði. Jeg er því hjer í fullu samræmi við það, sem jeg hefi ávalt haldið fram, og hv. frsm. veit það vel, þótt hann segi nú annað.