28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

126. mál, verðtollur

Frsm. (Magnús Jónsson):

Það er náttúrlega svo, að fjhn. hefir ekki borið sig saman m þær brtt., sem útbýtt hefir verið hjer á fundinum. En um þá brtt., sem hjer hefir verið talað fyrir, held jeg, að mjer sje óhætt að segja, að fjhn. sje á móti henni, því að hún hefir „positivt“ afgreitt málið á annan hátt, og meira að segja sýnt með því að bera fram breytingar á vörutollslögunum, að hún vill ljetta sköttum annarsstaðar en hjer.

Það var eitt atriði, sem jeg var mintur á, að komið hefði til umræðu í nefndinni, en sem jeg ekki hefði minst á við 2. umr. Það var sem sje verið að tala um það í nefndinni, að það væri óþarft að greiða innheimtulaun fyrir það stimpilgjald, er stafar frá verðtollslögunum, þeim innheimtumönnum, sem annars fá skrifstofukostnað sinn greiddan eftir reikningi, og vildi jeg því beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh. (JÞ), hvort ekki væri hægt að komast hjá því að greiða þeim innheimtumönnum, sem jeg nú hefi nefnt, innheimtulaun fyrir innheimtu verðtolls, því að það sýnist í raun og veru ákaflega mikil fjarstæða að borga fyrst úr ríkissjóði þeim mönnum, sem þarf að hafa í skrifstofu til að framkvæma þessa innheimtu, og svo prósentugjald fyrir innheimtuna, og tel jeg, að það geti í vissu falli skoðast sem yfirsjón, að ekki hefir verið neitt sjeð við þessu fyr. Jeg vil þá beina þessari fyrirspurn til hæstv. ráðh. (JÞ), en um brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) skal jeg ekkert frekar segja. Það er ein af þeim undantekningum, sem háttv. deildarmenn verða að skera úr með atkv. sínu, því að jeg get engu skilað frá nefndinni um það.