29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

1. mál, fjárlög 1927

Magnús Torfason:

Jeg ætla ekki að „tefja umræðurnar“, eins og hagyrðingur deildarinnar komst að orði, af því að jeg eigi hjer brtt. En jeg vil, að mjer sje leyft að snúa mjer að og gera fyrirspurnir til hæstv. fjrh. viðvíkjandi sjerstöku málefni. Vil þó fyrst aðeins víkja að því í ræðu hv. frsm. (ÞórJ), þar sem hann nefndi mitt heiðraða nafn, og var á honum að skilja, að jeg liti svo á, að skrifstofufje mitt væri fullnóg. Jeg vil þakka hv. frsm. fyrir þetta hrós, þó að jeg eigi það ekki fyllilega skilið. Jeg hefi líklega ekki tekið fram nógu greinilega mína aðstöðu í þessu máli, en hún er sú, að jeg mun hlíta forsjá dómsmálaráðherra míns í þessu efni. Annað sagði jeg ekki. En hinsvegar, hvað snertir mitt sjerstaka skrifstofufje, vil jeg geta þess, að jeg hefi aldrei ætlað að koma hjer inn á þing, og því síður í fjvn., til að skera mjer þar sneiðar.

Þegar jeg sótti um Árnessýslu, var skrifstofufjeð 5000 kr., en svo var það sett niður í 2890 krónur. Efa jeg ekki, að þetta hafi verið fullkomlega rjett hjá hæstv. dómsmálaráðherra, og lít jeg svo á, að jeg muni ekki hafa átt meira skilið á móts við fyrirrennara mína og að jeg muni ekki hafa gegnt mínu embætti eins vel og þeir.

Þá var það eitt mál sjerstaklega, sem jeg vildi gera að umtalsefni í þessari hv. deild, en það er járabrautarmálið, með leyfi hæstv. forseta þó, ef mál þetta er ekki orðin bannvara hjer í deild. Jeg skal, áður en jeg tala um fjárhagslega hlið málsins, geta þess, að jeg vil, að það sjáist í þingtíðindunum, að höf. frv. er hæstv. fjrh. (JÞ), og sje jeg enga ástæðu til að dylja það. Segi jeg honum þetta auðvitað til hróss, en þá verð jeg líka að líta svo á, að hæstv. fjrh. beri ábyrgð á, hvernig málið er fram borið.

Þegar járnbrautarmálið var flutt hjer 1913, þá fylgdi því annað frv., sem kallað var verðhækkunarskatturinn, en hvorki frá flm. frv. nje frá hæstv. fjrh. hefir heyrst neitt um, hvort ætlast er til, að slíkar tillögur þeirra manna, sem eru með járnbrautarmálinu, verði heimtaðar eða ekki. Jeg hefi ætíð gengið út frá því sem sjálfsögðu, og það virtist mjer á ræðu hæstv. fjrh. hann gera líka, að Sunnlendingar yrðu að leggja fram eitthvað af mörkum. Að því er verðhækkunarskattinn snertir, þá höfum við síðan 1913 fengið nýtt fasteignamat og nýjan fasteignaskatt, svo að nú er hægra um vik að koma slíku á, og vek jeg máls á þessu nú til þess, að hæstv. stjórn geti svarað þessu með nægilegum undirbúningi, ef járnbrautarmálið skyldi koma aftur til umræðu hjer. Býst jeg við, að það þyki hlýða, að hafður sje nægilegur undirbúningur undir slíkan skatt, því að þó að 72. gr. sveitarstjórnarlaganna kveði svo á, að ekki skuli neinu máli, er varði einhverja sýslu sjerstaklega, til lykta ráðið fyr en álits sýslunefndar þar hafi verið leitað um það, þá stappar það svo nærri, að ekki sje eðlilegt að leggja skatt á Sunnlendinga út af járnbrautinni að þeim fornspurðum. Að jeg bryddi á þessu hjer, er meðfram af því, að mjer skilst á þeim brtt., sem komnar eru fram við fjárlögin, að hafið sje kapphlaup um að gæta þess vandlega, að enginn eyrir verði eftir í ríkissjóði handa járnbrautinni. Mjer þykir það ekki svo ósennilegt, að sumir menn hugsi, að best sje að skara eld að sinni köku, áður en þingið veiti fje til járnbrautarinnar, því að það hefir heyrst á greindum mönnum, vel mentuðum og víðsýnum, að þetta sje eitthvert hið mesta glæfrafyrirtæki, sem átt hafi sjer stað í fjármálasögu þessa lands, þó verið geti, að afturgöngurnar í Tobbukoti hafi ef til vill vilt sumum sýn.

Menn ganga út frá því, að járnbrautin muni þurausa ríkissjóð og sökkva landinu í botnlansar skuldir, en þessu verð jeg að mótmæla. Þessi skoðun manna hefir myndast af ónógri þekkingu á samgöngumálum hjer sunnanlands. Jeg lít svo á, að járnbrautin sje einhver hinn mesti búhnykkur fyrir þetta land og Suðurlandsundirlendið sjerstaklega. Þess var getið, mig minnir af hæstv. atvrh. (MG), að sæmilegur vegur austur yfir fjall muni kosta 3½ miljón króna, og er þar reiknað með þeirri breidd, sem nú er á veginum. En það er frá því að segja, að slík breidd mundi ekki vera sæmileg eða jafnvel forsvaranleg. Það er enginn vafi á því, að hinn nýi vegur verður að minsta kosti að vera 9 álna breiður, sakir væntanlegs heyflutnings. Kemst þá þessi áætlun hæstv. atvrh. upp í rúmar 5 miljónir króna, og þykir mjer það þá fara að nálgast járnbrautarverðið. Það, sem gerir það að verkum, að vegurinn verður að vera þetta breiður, er Flóaáveitan, með hliðsjón af því, að flytja þurfi hey eftir honum. Það er víst, að þegar mest er umferð á veginum, sem nú er, eru menn hálfu lengur að komast leiðar sinnar en snemma á morgnana eða á kvöldin, þegar þeir geta haldið stanslaust áfram. En við þetta bætist, að slíkur vegur sem þessi heimtar mikið viðhald, og eftir því sem fróðir menn hafa sagt mjer, mundi ekki veita af 10% í viðhaldskostnað á ári, eftir því sem umferðin er nú, en hann mundi auðvitað aukast á hverju ári, eftir því, sem samgönguþörfin ykist. Til þess að sýna mönnum, að þetta er ekki sagt út í bláinn, skal jeg geta þess, að Flóavegurinn, sem kostaði 180 þúsund krónur og var gerður upp fyrir 3–4 árum, er nú kominn niður í möl sumstaðar. Annars eru Reykjavíkurvegirnir gott dæmi upp á það, hvernig vegirnir duga. Eftir 1–2 ár eru malbikaðir vegir orðnir að hrauni. Af öllu þessu dreg jeg það, að járnbraut sje einmitt nauðsynleg til þess að losa ríkissjóð við tilfinnanlega viðhaldsbyrði. Auðvitað geng jeg út frá því, að vegurinn austan að til Reykjavíkur verði að vera sæmilegur, því að það er nú svo, að Reykjavík er hafnarbær Suðurlandsundirlendisins. En það er líka frá öðru sjónarmiði, sem járnbraut er nauðsynleg. Hún er nauðsynleg sem tryggingarráðstöfun fyrir landið. Þeir, sem taka eftir því, hvað er að gerast hjer, sjá, að þetta er rjett. Það er verið að rýja landið síðustu hlunnindum þess, fiskimiðunum. Hin síðustu árin hefir útgerðin lifað á nýjum miðum. Fyrst kom Hvalbakur og hjálpaði um stundarsakir; svo kom Halinn, en nú ber flestum sjómönnum saman um, að þessi mið sjeu að verða þurausin, svo að það borgi sig ekki lengur fyrir togara að fara þangað vestur, en þetta þýðir það, að sá dagur er ekki langt undan, að ekki borgar sig fyrir togara að fara á saltfiski. En það er það eina, sem okkar togaraútvegur hefir haft fram yfir útlenda togaraútgerð. Að því er snertir ísfiskið stöndum við ver að vígi en aðrir, nema að því leyti, að okkar sjómenn eru fult eins góðir fiskimenn og sjómenn annara þjóða. Þess vegna er það sýnt áður en langt um líður, þegar togaraútgerðin stöðvast og þar með kemur óumflýjanleg kyrstaða og afturkippur í sjávarútveginn, þá kemur að því, að spurt verður: Hvert á fólkið að flýja? Jeg sje ekki annað framundan en að fólkið verði að flýja úr landi, nýjar Vesturheimsferðir hefjast, þ. e. a. s. ef ekkert er gert til að stemma stigu fyrir því áður en það er um seinan.

Mjer blandast ekki hugur um það, að eina og besta ráðið til þess að bjarga atvinnulífi þjóðarinnar, þegar stórútgerðina rekur upp á sker, sje ræktun landsins, og þó einkum Suðurlandsundirlendisins. Þar og hvergi annarsstaðar á landinu hagar svo til, að hægt sje að hefjast handa um ræktun í stórum stíl. Og aðallyftistöngin og undirstaða sú, er slík ræktun verður að byggjast á, er járnbraut hjeðan og austur yfir fjall. Með því að fylgja járnbrautarmálinu fram til sigurs erum við því að búa þjóðinni stað.

Í sambandi við þetta járnbrautarmál, sem jeg ætla þó ekki að fara fleiri orðum um við þessa umr., langar mig til að minnast á það atriðið, sem skrafdrjúgast hefir orðið um, og haldið fram járnbrautinni til hnekkis, sem sje það, að alt sje farið í kaldakol þarna austur frá. Þar, í sveitunum austanfjalls, hafi meira verið gert en á nokkrum öðrum stað í landinu, ríkissjóður hafi lagt ógrynni fjár til viðreisnar sveitunum, einkum á láglendinu, en þó sjái þess hvergi stað. Um þetta hefir verið sífeldur söngur, ekki aðeins í umr. um járnbrautarmálið, heldur heyrðist hann og þegar fjárlögin voru til 2. umr. Og hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú sett sinn stimpil á þennan sultarsöng, svo að heita má að hann sje orðinn að trúaratriði.

Það er aðallega tvent, sem menn hengja hatt sinn á í þessu efni. Í fyrsta lagi vitna menn í það, að Skeiðaáveitan hafi fengið eftirgjöf á láni og vaxtagreiðslum. En jeg neita því, að hægt sje að draga neina ályktun af því um afkomu manna þar eystra. Þarna er um fyrsta stóra áveitufyrirtækið að ræða, sem ráðist hefir verið í hjer á landi. Skeiðamenn notaðir eins og nokkurskonar tilraunadýr ríkissjóðs, sem urðu að bera öll slysin, sem upp á komu í framkvæmdinni, og þau voru mörg. Mætti í því sambandi minna á „óbilgjörnu klöppina“, er svo hefir verið nefnd og verkfræðingana óraði ekkert fyrir, en hún ein hefir kostað meira en höfuðstól þeirra vaxta, sem eftir voru gefnir.

Önnur ástæðan, sem haldið er fram um vandræðin austan fjalls, er sú, að útibú Landsbankans á Selfossi hafi tapað stórfje á undanfarandi árum. Hæstv. fjrh. hefir ljeð þeirri skoðun stuðning sinn, svo það er ekki nema eðlilegt, að þeir, sem ókunnugir eru þar eystra, festi trúnað á slíkt, þegar það kemur úr ráðherrastól. Þessi skoðun hefir og styrkst við það og fengið traustari fætur að ganga á, er vitað var, að 3–4 menn hafa með stuttu millibili verið sendir út af örkinni til að rannsaka hag útihúsins á Selfossi, og þegar svoleiðis sendimenn eru á ferðinni, er ekki að furða, þó ókunnugir hugsi á þá leið, að hjer sje voði fyrir dyrum. Sjerstaklega er ástæða til, að slík skoðun fái byr undir báða vængi, þegar þess er gætt, að engir menn hafa verið sendir til að rannsaka sum önnur útibú, og þó er vitanlegt, að þau hafa á þessum árum tapað svo miljónum króna skiftir.

Hvað hafa menn nú fyrir sjer í þessu? Því er fljótsvarað: Ekki nokkurn skapaðan hlut. Alt, sem sagt er útibúinu á Selfossi til hnekkis, er gripið úr lausu lofti, eins og jeg mun færa rök fyrir.

Útibúið er stofnað um haustið 1918, og fyrst í ár, eða nú í vetur, eru afskrifaðar skuldir, og nemur sú upphæð aðeins 77 þús. kr. Það var ekki hægt að skrifa af meira. Töpin voru ekki meiri.

Sjálfur hefi jeg haft tækifæri til þess að athuga rekstur útibúsins, var settur útibússtjóri þess 3 mánaða skeið, og jeg komst að þeirri niðurstöðu og er sannfærður um það með sjálfum mjer, að bankinn gæti aldrei tapað meiru en 10% af því fje, sem það á útistandandi. Og sú skoðun er staðfest af öðrum, sem rannsakað hafa bankann og lánveitingar hans, og þó sjerstaklega af einum manni, sem hefir svo að segja daglegt eftirlit með rekstri hana. Öll forstjórn bankans hefir gengið út á það að tryggja hann sem best, en jafnframt því minkar þó skuldin við Landsbankann. Hefir nú verið greiddur 1/3 af henni frá því að hún komst hæst, en það var árið 1922.

Það er ekki hægt að draga neina ályktun út frá því, að útibúið hafi tapað nokkrum þúsundum króna, og kunni ef til vill að tapa einhverju enn. En það, sem gefur upplýsingar í þessu máli, er samanburður við önnur útibú og banka, og leyti jeg mjer þá að fullyrða, að bankarnir hafi tapað miklu meira en 10% og sum útibúin ógrynni fjár; t. d. hefir eitt þeirra, að því er jeg best veit, tapað upp undir 50%. Og víst er um það, að útibúið á Eskifirði, sem byrjaði um sama leyti og Selfossbúið, tapaði stórfje. Þess vegna þótti mjer það hart, þegar austanvjerinn fór að tala um það hjer á dögunum, að alt væri sokkið í skuldum í Árnessýslu. Jeg vil ekki segja, að útibúið á Eskifirði hafi tapað 10 sinnum meira en útibúið á Selfossi, en sennilegt þykir mjer, að það fari ekki langt frá því.

Útibúið á Selfossi var stofnað þegar hart var í ári, og þar við bættist, að afleit ár fylgdu þá strax á eftir. Fór og samhliða, að eftir að bankinn hafði lánað út alt fje sitt, fór verðlag lækkandi. Mestu af þessu lánsfje var varið til þess að bændum tækist að halda bústofni sínum nokkurn veginn óskertum, en við það jukust skuldirnar. Nú á eftir geta menn sjeð, að bændum hefði verið betra að selja skepnur sínar á meðan verðið var hátt.

En af því að útibúið tók til starfa á þessum árum, hættu margir hinna eldri bænda að búa og seldu jarðir sínar og áhöfn í hendur yngri mönnum. Á þennan hátt losnuðu margar jarðir úr ábúð, enda studdi útibúið unga menn til að ná í jarðnæði og reisa bú. Það eru þessir ungu bændur, sem með lækkandi verðlagi afurða búanna eiga nú erfiðast uppdráttar. Og það er um þessa menn — sem þrátt fyrir alla erfiðleikana hafa staðið svo vel í stykkinu um greiðslur sínar, að útibúið hefir enn sem komið er ekki tapað nema nokkrum þúsundum króna, — að hæstv. fjrh. talaði hlýlegast (!) hjerna á dögunum, þegar hann var að lýsa ástandinu austanfjalls og fullyrti, að alt væri þar í kaldakoli.

Það er ekki rjett, að ástandið fyrir austan sje svo, að af því megi draga þá ályktun, að búskapur beri sig þar ekki með aukinni ræktun eða annari framtakssemi. Og til þess að herða betur að, þá vil jeg segja það, að jeg, efast um, að nokkur sýsla á landinu, önnur en Árnessýsla, hefði staðist þær raunir, sem hún hefir orðið að þola undanfarið. Til þess er ein ástæða, og hún er líka nóg: „Láglendingarnir“, sem svo hafa verið nefndir, eru allra manna sparsamastir og engir menn þrælka sig sem þeir. Það sýnir dagsverkatala þeirra í jarðabótum um langt skeið. Á síðasta mannsaldri telst svo til, að Árnessýsla ein hafi látið vinna að jarðabótum um 455 þús. dagsverk, og Rangárvallasýsla um 235 þús., en þessar sýslur eru efstar á blaði, þegar aðrar sýslur eru teknar til samanburðar, og Árnessýsla þó langsamlega hæst.

Með þessu, sem jeg hefi nú sagt, vona jeg að hafa kveðið þann draug niður, sem hjer hefir verið vakinn upp: að engin von sje til þess, að hjeruðin austan fjalls geti blómgast, þó að þeim sje hjálpað á veg og eitthvað hlynt að þeim umfram það, sem verið hefir.

Þá hjó jeg eftir einu atriði í ræðu hæstv. fjrh. í dag, sem jeg vildi gera að umtalsefni. Hann var að lýsa fjárhagshorfunum og mæltist til, að Alþingi færi hóflega í það að auka útgjöldin að þessu sinni, vegna þess, eins og hann komst að orði, að það „mundi slæmt útlit um afkomu ársins 1927.“ Þessi orð á víst að skilja á þá leið, að þeirri kreppu, sem nú er byrjuð, á ekki að vera lokið um næstu áramót, heldur á hún að lifa góðu lífi, en til tjóns atvinnuvegum þjóðarinnar, eitthvað fram eftir árinu 1927. M. ö. o. eins og hæstv. ráðherra fórust orð, þá megum við eiga von á minst 2 ára kreppu. Og því miður held jeg, að hrakspár hæstv. fjrh. sjeu annað og meira en grýla framan í okkur þm. meðan á umr. fjárlaganna stendur, og dreg jeg það af því, að einn hv. þdm. og flokksbróðir hæstv. ráðherra reyndi fyrir sitt leyti að taka í sama streng.

Annars verð jeg að segja það, að jeg hafði ekki búist við, að hæstv. fjrh. gerði ráð fyrir því, að kreppan mundi vara svona lengi. Og síst átti jeg von á slíku frá þeim manni, sem píndi krónuna upp úr öllu valdi síðastl. haust, þvert ofan í vilja þann og alvarlegar raddir, sem bárust utan af landi um að halda krónunni niðri.

Og enn síður átti jeg von á því frá þeim manni, sem berst fyrir því að halda krónunni í því gengi, sem hún er nú, og sækir fast að varið sje stórfje úr viðlagasjóði til þess að halda því verði uppi, sem krónan er reiknuð nú. (Atvrh. MG: Úr viðlagasjóði?). Já, ætli það lendi ekki á viðlagasjóði að greiða það tap, sem ríkissjóði verður bakað með þessu? (Fjrh. JÞ: Og það er jafnmikill skáldskapur samt!). Nei, þetta er enginn skáldskapur, eins og jeg mun sýna, verði ekkert aðhafst.

En það var sagt hjerna á dögunum, að búin hefði verið til svikamylla í þessu gengismáli, og hefði hæstv. fjrh. ekki hjálpað til og lagst þar á með öllu sínu valdi, þá hefði krónan fallið hjer á dögunum.

Jeg man ekki eftir í svip, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi gert neina ráðstöfun til þess að fyrirhyggja þessa kreppu, og stendur honum það þó nær en nokkrum öðrum. Hinsvegar hefir hann hvað eftir annað gefið ávísun á tímann: Það sje eina huggunin, að alt eigi eftir að jafna sig og rjetta við, þ. e. a. s. með tíð og tíma. Jú. „það grær áður en þú giftist,“ eins og sagt er við börnin, þegar þau meiða sig.

Þess vegna verður mjer að spyrja: Ætlar hæstv. fjrh. að spyrna við broddum og halda þá leið, sem hann hefir farið um stund, að halda krónunni uppi og í því verði, sem hún er skráð nú, þrátt fyrir það, þó að útlitið um afkomu atvinnuveganna versni viku eftir viku og dag frá degi? Mig furðar satt að segja á því, að fjrh. landsins skuli ekki koma auga á það eina rjetta í þessu gengismáli, því að það getur ekki verið um aðra leið að ræða til að bjarga atvinnulífi þjóðarinnar en að láta krónuna nálgast sitt raunverulega kaupmætti.

Nú segi jeg ekki þetta vegna þess, að jeg sje lággengismaður, því að það er jeg ekki og hefi aldrei verið. Og svo jeg segi frómt frá, þá var það skömmu eftir að jeg kom austur í Árnessýslu og menn voru að tala við mig um járnbraut og aðrar framtíðarhorfur þar austanfjalls, að jeg hjelt því fram og sagði við bændur: „Járnbraut getið þið varla búist við að fá, fyr en krónan hefir náð gullgildi.“

Aftur á móti held jeg því fram, að gengissveiflur eigi að vera sem minstar. En svo hefir ekki orðið; þær hafa skollið yfir með miklum krafti, og það eru þær, sem drepið hafa verslunina austanfjalls og gert bændum þyngstar búsifjar, og það af þeim ástæðum, að vegna samgönguerfiðleikanna geta þeir ekki fengið nauðsynjar sínar nema einu sinni á ári. En það segi jeg sem mína skoðun á þessu máli, að krónunni á ekki að halda uppi á kostnað atvinnuveganna.

Hvað gengismálið snertir, þá er það bygt á trú, og verð jeg þá að segja fyrir mig, að mín trú er sú, að ekki muni takast að halda krónunni í sama verði og hún hefir nú um næstu tvö ár, ef kreppan varir svo lengi. Og í áframhaldi af því verð jeg að segja, að mín skoðun er, að því seinna sem krónan verður fest, því meira verði hrunið, eins og kom á daginn hjerna, um árið, þegar henni var haldið uppi þvert á móti öllum peningalögum og reynslu annara þjóða í því efni. Af sjerstökum ástæðum hefi jeg álitið rjett að taka þetta fram nú þegar. Enda vildi jeg láta sjást, hver skoðun mín sje á þessu máli.

Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) var ekki viðstaddur er jeg hóf mál mitt, en það var eitt atriði í ræðu hans, sem jeg vildi leyfa mjer að gera aths. við. Jeg get ekki skrifað undir það, sem hann sagði, eða fórust orð eitthvað á þá leið, að fjvn. væri skylt að taka óskir annara nefnda til greina. Þetta hefir ekki við nein rök að styðjast. Að vísu skal það játað, að sjálfsagt sje, að hún taki meira tillit til nefnda en einstakra þm. En að hún sje skyld að taka til greina alt það, sem aðrar nefndir bera fram, getur ekki náð neinni átt. Það vill nú svo vel til, að þingsköp Alþingis skera úr í þessu efni. Í 32. gr. þingskapanna segir berum orðum, að ef öll fjvn. legst á móti einhverri fjárveiting með nafnakalli, þá þarf 2/3 greiddra deildaratkvæða til að koma því í gegn. Og þetta er áreiðanlega ekki sett ófyrirsynju í þingsköpin, enda vill það nú svo verða, að hver nefnd oti fram sínum tota: landbn. sínum, sjútvn. sínum, og svo koll af kolli. En fjvn. á að vera óhlutdræg og miðla málum. Þess vegna er það rangt hjá hv. 2. þm. Rang. eða bygt á einhverjum misskilningi, að fjvn. hafi ætlað að sýna samgmn. óvirðingu með því að fallast ekki á allar till. hennar. Fjvn. hefir tekið fult tillit til þessarar systur sinnar og stutt þær till. hennar, sem hún telur á rökum bygðar.