28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

126. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er ekki á valdi stjórnarinnar að gera breytingar á þóknun þeirri, sem greidd er fyrir innheimtu verðtollsins. Innheimtumenn fá 2% í innheimtulaun; það er af því að það er lögákveðið. Í lögunum um stimpilgjald frá 27. júní 1921 er svo ákveðið, að þeir, sem trúað er fyrir þessum stimpilmerkjum, skuli bera ábyrgð á þeim og svara til þeirra merkja, sem þeir taka við, en fá 2% af upphæðinni í innheimtu- eða ómakslaun, eða hvað menn vilja kalla það. Og þegar nú svo er ákveðið í verðtollslögunum, að stimpla skuli reikninga með þessum merkjum, þá er það ekki efamál, að um þau merki, sem notuð eru á reikningana, verða að gilda sömu reglur og um önnur stimpilmerki. Það kann nú að vera svo, að þessi þóknun hafi orðið óþarflega há hjer í Reykjavík, þar sem mest af tollinum hefir verið innheimt, en þó verð jeg að segja það, að jeg held, að það fylgi þessari stimpilmerkjanotkun allmikil áhætta fyrir notandann, því að þegar þarf að líma mörg merki á sama reikning, þá er hætt við, að menn geti mistalið og látið of mörg merki á reikninginn, samanborið við þá peninga, sem tekið er við fyrir þau. Nú lækkar þessi tollur mjög mikið, svo að jeg er ekki viss um, að ástæða sje til að fara að gera sjerstakar ráðstafanir út af því, en jeg skal ekkert segja um hitt, hvort hægt er að fara þá leið að leggja nokkuð af skrifstofukostnaðinum á embættismanninn, af því að hann hefir þetta gjald að lögum, en eins og þetta frv. er úr garði gert, þá verður ekki hjá því komist, að reikningshaldaranum ber að halda eftir 2% af upphæð stimpilgjaldsins, sem hann tekur við.

Þá vil jeg aðeins minnast á brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald), á þskj. 444, sem fer fram á tímatakmörkun á gildi þessara laga, þannig, að þau falli úr gildi 1. maí 1927. Jeg get ekki fallist á þetta, af því að með frv. er verið að sjá ríkissjóði fyrir tekjustofni fyrir árið 1927. Og jeg verð að telja það skyldu þessa þings, sem á að sjá um afgreiðslu fjárlaganna fyrir árið 1927, að búa svo um hnútana, að hægt sje að innheimta þessar tekjur samkv. landslögum alt árið 1927. Þessu er ekki hægt að skjóta til næsta þings, af þeirri einföldu ástæðu, að það þing á ekki að sjáum fjárlögin fyrir árið 1927. Stjórnin hefir reynt að ganga svo frá þessum tekjustofni, að hann sje ekki lengur bráðabirgðaráðstöfun, heldur í fullu samræmi við aðra skattalöggjöf, er fella þurfi þá niður eins og önnur lög, þegar tími þykir til þess kominn.