28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

126. mál, verðtollur

Frsm. (Magnús Jónsson):

Það var náttúrlega mjög fjarri, að jeg væri að skila því frá fjhn., að hún amaðist við endurskoðun þessara laga svo fljótt, sem verða vildi. Hinsvegar þóttist jeg geta ráðið af því, að nefndin hefir einhuga lagt til að samþykkja stjfrv., að jeg hefði óbeinlínis umboð frá henni til þess að lýsa því yfir, að hún væri á móti brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald), enda skildist mjer, að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) væri henni mótfallinn.

Hafði jeg 1itið svo á, að hv. þm. V.-Ísf. ætti við hitt frv., því þar eru nefndarmenn ekki sammála að öllu, þótt þeir hinsvegar álitu rjett að bera fram frv. um lækkun á nokkrum vörutegundum. Nefndin leit svo á, að ef lækka ætti tolla á annað borð, þá yrði að bera annarsstaðar niður. En hvaða hugsun hreyfi sjer í brjósti ýmsra nefndarmanna, um það ætla jeg ekki að skila neinu nje gera það að umtalsefni.

Jeg býst við, að það sje rjett hjá hæstv. fjrh., að eins og lögin eru orðuð, þá sje ekki hægt að komast hjá að greiða þetta hundraðsgjald fyrir innheimtu tollsins. En hitt verður aldrei út skafið, að í þessu er ekkert jafnrjetti milli lögreglustjórans í Reykjavík og annara tollheimtumanna ríkisins. Þetta innheimtugjald er tvennskonar eða í tveimur liðum. Í fyrsta lagi má skoða það sem mistalningarfje, því áhætta og ábyrgð fylgir því að sjá um stimpilmerkin, en fyrst og fremst er það þó til þess að bæta upp kostnaðinn við innheimtuna, því hann er ekkert smáræði, þegar alt er reiknað með. Lögreglustjóra eru settar aðrar reglur en öðrum embættismönnum landsins. Hann hefir þá sjerstöðu, að hann fær skrifstofukostnað sinn greiddan eftir reikningi. Jeg er að vísu ekki kunnugur því, hvernig þessum framkvæmdum er háttað annarsstaðar, þar sem sýslumönnum er ætlað skrifstofufje. En oft hefi jeg heyrt umkvartanir frá sýslumönnum út af þessum skrifstofukostnaði, sem þeim er ákveðinn. Og að þetta eru vitanlega mikil fríðindi, má sjá af því, að lögreglustjórinn kaus ekki að ganga undir launalögin, heldur er hann undir gömlu lögunum, sem voru sett þegar bæjarfógetaembættinu var skift, og nýtur því engrar dýrtíðaruppbótar. Það getur verið, að það sje besta leiðin að láta gjaldið halda sjer fyrir innheimtuna; en þá væri fróðlegt að vita, hvað mikið hann ber úr býtum fyrir innheimtuna, og mætti svo draga frá kostnaðinn af auknu mannahaldi vegna þessarar innheimtu.