29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

126. mál, verðtollur

Jakob Möller:

Jeg hefi í raun og veru ekkert um þetta atriði að segja af hálfu nefndarinnar. Jeg er hvorki frsm. nefndarinnar nje hún enn tekið afstöðu til þessarar brtt., því að hún hefir ekki komið saman síðan þessi brtt. kom fram.

Mjer finst það ekki skifta miklu máli, hvort brtt. á þskj. 445, frá hv. samþ. mínum, 2. þm. Reykv. (JBald), verður samþykt eða ekki. Í henni er svo ákveðið, að lögin skuli gilda til 1. maí 1928, en á tímabilinu þangað til koma ný þing saman, og geta þau þá tekið afstöðu til þessa atriðis.

En þar sem hv. samþm. minn talaði um það, að það væru svik við þjóðina að fella ekki þennan toll niður, þá vil jeg geta þess, að það kom fram í umr. 1924, að hvað sem þessum tolli liði, myndi í framtíðinni verða tekinn upp verðtollur á einhverjum vörum, og þótt þetta tímatakmark hafi verið sett, þá verður þó aldrei horfið frá verðtolli í einhverri mynd. Enda hafa lengi verið uppi raddir um það, að verðtollurinn sje miklu sanngjarnari en þungatollurinn; en það hefir fælt menn langmest frá verðtollinum, hve erfitt var álitið að framkvæma hann. En nú hefir hann verið reyndur og nú hygg jeg, að það fæli enga frá, hve hann sje erfiður í meðförum.

Ef til vill væri rjett að fara hjer einhverja sanngjarnari leið, hafa báða þessa tolla jöfnum höndum og miða bæði við þunga og verð.

Út af brtt. minni á þskj. 442, þar sem jeg legg til, að aftan við 1. gr. B. bætist „þvottaefni“, vil jeg taka það fram, þar sem hæstv. fjrh. lagði á móti henni, að mjer er hún ekkert mikið kappsmál. Þvottaefni er komið niður í 5%, og eftir því sem það var flokkað í fyrra., þá er sanngjarnt, að það fjelli alveg niður núna. Það var sett í 10% flokk þá, þó að eftir væru aðrar hreinlætisvörur í hærri flokknum, svo sem handsápa. Hvað nafnið á þessu þvottaefni snertir, þá skal jeg játa, að það er óákveðið, en það er þó hið sama og í fyrra.