29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

126. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg var fyr í umr. búinn að færa ástæður fyrir því, hvers vegna jeg væri á móti aðaltill. hv. 2. þm. Reykv. á þskj. 444, og þarf jeg því ekki að endurtaka það. En viðvíkjandi hinni till. vil jeg bæta því við, að jeg hygg, að það sje misskilningur hjá þm. 2. og 3. þm. Reykv. (JBald og JakM), að ef þessi till. verði samþykt, þurfi ekki að taka upp þetta mál fyr en 1928. Því eftir varatill. verður að taka málið upp þegar á næsta þingi, þar sem þá á að setja fjárlögin fyrir árið 1928, og er alls ekki hægt að ganga frá því með alveg óvissa tekjustofna. Jeg álít, að engin ástæða sje til að fara að neyða næsta þing til þess að taka upp umr. um tollstofna þessa. En það er öldungis víst, að án þeirra má ekki vera. Þó ekki liggi nú fyrir það, sem hv. þm. sagði um að skipuð yrði milliþinganefnd til þess að rannsaka og undirbúa nýja tolllöggjöf fyrir næsta þing, þá verð jeg að segja, að ef slík uppástunga kæmi nú fram, væri hún algerlega ótímabær. Því að meðan gildi peninganna er á reiki, er ekki hægt að festa tolllöggjöfina. Má búast við, að altaf þurfi að gera meiri og minni breytingar á henni, eftir því, hvernig fjárhagsástæður eru. Er það þá aðeins fyrir gíg, þó að milliþinganefnd sæti á rökstólum um tollalöggjöf. Það verður því að byggja á breytilegri útgjaldaþörf ríkissjóðs, meðan ekki er hægt að vita um verð krónunnar, sem útgjöldin eiga að greiðast í.