10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

126. mál, verðtollur

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat þess, að hann væri ekki nema að sumu leyti ánægður með gerðir fjhn. Jeg skal nú ekki segja um það, hvað nefndin gerir, en jeg býst við því, að flestir nefndarmenn telji sig hafa óbundnar hendur um till. hæstv. fjrh. En jeg skal geta þess, að nefndin setti þetta tímatakmark af því, að hún vildi ekki festa verðtollinn til frambúðar í því formi, sem hann nú hefir sem fastur tekjustofn fyrir ríkið. Og ef verðtollurinn verður festur, þá verður að semja þau lög að nýju með aðstoð sjerfróðra manna, og helst á milli þinga. Því að það er ekki góð aðstaða til þess að semja slík lög hjer á þingi, svo að viðunandi sje til frambúðar. Að vísu hefir verðtollurinn þann kost, að hann er hæstur af dýrum vörum. En hann hefir líka ýmsa ókosti, sem þyngdartollur hefir ekki, einkum vegna þess, að erfitt er að gæta þess, að ekki beri út af með það, að honum sje framfylgt, þar sem svo erfitt er um tollgæslu alla eins og hjer gerist.