24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hjer hafa nú farið fram langar umræður um bankamál og skiftar skoðanir komið í ljós. Jeg vona þó, að ekki þurfi langa framsöguræðu í þessu máli, því að allir geta víst orðið sammála um þetta frv. Báðir hlutar milliþinganefndarinnar í bankamálum hafa látið í ljós það álit, að æskilegt væri, að nýr einkabanki kæmist hjer á laggirnar. Ástæðurnar eru öllum ljósar. Í atvinnureksturinn við sjóinn hefir hlaupið slíkur vöxtur, að þessir tveir bankar, sem fyrir eru, geta ekki lagt fram nægilegt rekstrarfje. Þetta frv. er tilraun í þá átt að bæta úr þessu, þó að því miður sje óvíst um árangur. Frv. er gamall kunningi deildarinnar, því að það er að mestu óbreytt eftir frv., sem hjer var til meðferðar fyrir tveimur árum og var þá afgreitt og náði staðfestingu, en komst ekki til framkvæmda.

Jeg leyfi mjer að óska, að frv. verði vísað til fjhn.