23.04.1926
Neðri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg get verið þakklátur háttv. meiri hl. fjhn. fyrir góðar undirtektir undir þetta mál. Hann hefir, eftir því sem hv. frsm. (JakM) sagði, sýnt fullan skilning á þeirri miklu nauðsyn, sem er á því að útvega meira fjármagn til atvinnuveganna en verið hefir hingað til. Jeg þarf í raun og veru ekki að færa nein rök fyrir þeirri skoðun, sem hv. meiri hl. hefir fallist á, og eru aðalatriðin tekin fram í nál. hans á þskj. 276, sem er það tvent, að vöxtur atvinnuvega landsins útheimti meiri aukningu rekstrarfjár en áður hefir verið komist af með, og að þessi aukning, sjerstaklega frá stríðslokum, sje svo stórkostleg, ef skoðuð er í heild, að engin von sje til þess, að tveir bankar geti annað henni nema fjárhagur þeirra hefði eflst til mikilla muna. En nú hefir einmitt hið gagnstæða átt sjer stað; þeir hafa báðir tapað; geta þeirra hefir minkað, en ekki vaxið. Jeg verð að segja, að þetta sje svona, án tillits til hins, hversu ráðið verður fram úr seðlaútgáfunni, en þó er því ekki að neita, að verði einhver bönd lögð á útlán úr Landsbankanum með því að fela honum seðlaútgáfuna, þá er enn ein ástæðan fyrir hendi til þess að útvega meira rekstrarfje.

Jeg gat því miður ekki heyrt alla ræðu hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), sem er í minni hluta um þetta mál. En jeg heyrði hann færa fram tvær ástæður sjerstaklega móti þessu máli.

Önnur er sú, að fyrst þyrfti að ljúka undirbúningi undir almenna bankalöggjöf, áður en þessi banki yrði stofnaður. Jeg veit ekki við hvað hann á, en get þess til og hugsa mjer það, að hann eigi við það, að milliþinganefndin í bankamálum eigi eftir að ljúka þeim störfum. En jeg lít svo á, að nefndin hafi lokið störfum sínum, nema þetta þing vilji vekja hana upp aftur. Jeg tók það fram á síðasta þingi, að jeg hefði enga ástæðu til þess að vera á móti nefndarskipuninni, ef hún væri gerð með því fororði, að undirbúa lög um seðlaútgáfuna og koma fram með till. um fyrirkomulag veðlánastarfseminnar í landinu til næsta þings, en svo væri óbundið, hvort hún hjeldi áfram störfum eftir að þetta þing væri úti, og fjellust allir, þegar til kom, á þennan skilning, að því er jeg best veit. Og jeg verð að segja það, sem jeg sagði þá, að jeg fæ ekki sjeð, að þörf sje fyrir slíka löggjöf í bráð, meðan leyfistíma Íslandsbanka er ekki lokið.

Það má ekki ætla, að það henti að útbúa slíka löggjöf löngu áður en hún á að verka, því að hún yrði orðin úrelt, þegar til framkvæmdanna kæmi. Get jeg þess vegna ekki fallist á þessa mótbáru hv. þm.

Hin mótbára hv. þm. er sú, að meðan óráðið sje um framtíð íslensku krónunnar, sje ekki rjett að veita erlendu fjármagni í atvinnufyrirtæki þessa lands. Jeg held nú, að fáir verði hv. þm. sammála um þetta. Jeg held, að allir verði að vera sammála um það, að hvað sem verður um gildi peninganna í framtíðinni, þá sje það langæskilegast, að atvinnuvegirnir stöðvist ekki vegna skorts á rekstrarfje. Við höfum nú einmitt sjeð framan í þann möguleika nú í vetur, að jeg get ekki skilið, að mönnum yfirleitt, hvort sem þeir eru hækkunarmenn eða stýfingarmenn, þyki það nokkur búhnykkur fyrir okkur.

Jeg held, að hv. þm. hafi blandað þessu saman við hitt, að það er ekki ráðlegt fyrir einstaka menn, þegar gengisóvissa er framundan, að taka lán til að festa um lengri tíma í fyrirtækjum, sem tvísýnt er um, hvort beri mikinn og fljótan arð. En hitt er annað, að vilja koma í veg fyrir, að kostur sje á rekstrarfje til atvinnufyrirtækja, sem skila aftur á sama ári fje því, er þau hafa tekið að láni. Jeg verð að álíta, að það sje a. m. k. bein skylda löggjafarvaldsins að stuðla að því, að atvinnuvegirnir geti haft aðgang að nauðsynlegu rekstrarfje.

Jeg ætla svo, þótt hv. tillögumenn, sem komið hafa hjer fram með brtt., hafi ekki talað fyrir þeim, að lýsa strax afstöðu minni til þeirra.

Þrír menn úr fjhn. bera fram 3 brtt. á þskj. 330, sem eru í raun og veru aðeins 2 að efni til. Þessar brtt. eru um skilmála þá, sem fjalla um þá kosti og kvaðir, sem á að vera heimilt að bjóða þeim mönnum, sem kunna að leita fyrir sjer um fjárframlög til stofnunar bankans. Um a.-liðinn er það að segja, að það er alveg eins gott að fella frv. eins og að samþykkja þessa till., því að jeg tel enga von um það, að nokkur vilji leggja fram fje í bankann, ef till. verður samþykt. Háttv. flm. virðast hafa litið á það eitt, að ekki sje allskostar eðlilegur sá stigi, sem frv. fer fram á að lögleiddur verði. Þeir líta á það, að afgjaldskvöðin eftir frv. er heldur þyngri á stórum banka en litlum og afgjaldið verður að tiltölu við hlutafje hærra í stórum en í litlum banka. Háttv. flm. geta að vísu vísað til þeirrar grundvallarreglu, sem fylgt er í tekjuskattslöggjöfinni, þar sem afgjaldið er miðað við hundraðshluta, hærri á háum tekjum, en lægri á lágum. En þessi stigi hefir einmitt gefist illa, hann leiðir til þess, að litlum fyrirtækjum hefir verið sýnd harðdrægni. En reglan, sem tekin hefir verið upp í stjfrv., fer meðalveg í þessu.

Ef mikið hlutafje fæst, ber það vott um, að mönnum þyki fyrirtækið ekki óálitlegt og þyki gott að leggja fje í það, og væri þá ekkert óeðlilegt, þótt gerðar væru harðari kröfur um framlag í ríkissjóð, þegar hlutafjeð er mikið. — Hinsvegar verður rekstrarkostnaður fyrirtækisins tiltölulega minni, ef það er stórt, og vegur það á móti.

Jeg hefði nú ekkert á móti því að víkja við grundvallarreglunni, ef ekki væri munurinn eins mikill frá því, sem stjfrv. fer fram á. Ef t. d. verður byrjað með 2 milj., sem er langsennilegast — og getur gengið erfiðlega að útvega það — þá fer það svo, að till. gerir meira en að þrefalda árgjaldið. Ef afkoman væri svo ljeleg, að ríkissjóður ætti ekki að fá nema 5 þús. kr. árgjald eftir stjfrv., fengi hann 14 þús. samkv. till.; ætti hann að fá 15 þús. eftir stjfrv., fengi hann 50 þús. Og svo langt er gengið, að þegar arðurinn er orðinn yfir 13% af hlutafjenu, er heimtað 50% af honum í ríkissjóð. Þetta má nú alls ekki skoða sem neina ívilnun, heldur eru þetta miklu harðari kostir en nokkurntíma er beitt í skattlagningu hlutafjelaga samkvæmt tekjuskattslögunum, og eru þeir þó afarharðir.

Væri þetta símað erlendum fjármálamönnum, myndu þeir skoða þetta sem vott um andstæðan hugsunarhátt hinna íslensku löggjafa og alveg hætta við að leggja eyrisvirði í fyrirtækið. Annars liggur næst að bera þetta saman við kjör þau, sem Íslandsbanki fjekk, eða við skattalöggjöfina. Í henni er það svo, að af því, sem er næst fyrir ofan 13%, á að greiða 20% í ríkissjóð, en hjer er farið fram á 50% og þótt nokkuð sje ætlað fyrir útsvörum o. fl. þess háttar, þá er alls ekki um neina ívilnun að ræða, móts við önnur hlutafjelög. Í Íslandsbanka er það svo, að af því, sem er yfir 4% af arði, fær ríkissjóður 10%, svo að þau kjör, sem farið er fram á í stjfrv. til handa nýjum banka, eru að mun óhagstæðari en kjör þau, sem Íslandsbanki hefir. Væri í raun og veru eðlilegast að fara fram á sömu afgjaldsskilmála og þá, er sá banki hefir.

Jeg er alveg viss um það, að þessi till. er ekki til þess, að ríkissjóður fái meira fje af þessu fyrirtæki, heldur til þess, að það komist alls ekki á fót, og það er meira að segja engin vissa fyrir því, að þetta fyrirtæki komist á stofn eftir þeim uppástungum um væntanleg kjör þess, sem gerðar hafa verið í stjfrv.

Aftur á móti eru b.- og c.-liðirnir til bóta. Í þeim felst trygging fyrir þá menn, sem leggja fje í fyrirtækið, að þeir að leyfistíma Íslandsbanka loknum njóti hinna bestu kjara, sem veitt kunna að verða einkabanka. Verður þá væntanlega sett almenn bankalöggjöf, sem Íslandsbanki og aðrir bankar koma undir. En hitt má skoða sem tryggingu fyrir því, að ekki verði of mikið lagt á þetta fyrirtæki.

Þá eru hjer till. frá hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. þm. S.-Þ. (IngB) á þskj. 380. Við þær hefi jeg ekkert að athuga, og fyrri till., að eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum skuli samþykkja afskriftirnar, fælir ekki frá.

Hin till., að Alþingi kjósi tvo af þrem endurskoðendum bankans, er meinlaus í mínum augum. En jeg held, að hún sje ekki annað en útvegun á tveim bitlingum til handa alþingismönnum, og það gæti verið til sú stjórn, sem nota kynni þetta á svipaðan hátt. En jeg geri engan ágreining út af þessari till., því að jeg held, að hún muni varla koma til að spilla fyrir frv. Aðalatriðið er, að málið fái framgang, ekki aðeins á Alþingi, heldur og í reyndinni.