29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

1. mál, fjárlög 1927

Pjetur Ottesen:

Á öndverðu þessu þingi sendi jeg til hv. samgmn. rökstutt erindi um það, að styrkur sá, sem nú er veittur til Hvalfjarðarbátsins, er allsendis ónógur til þess að hægt sje að halda þessum ferðum uppi, og fór jafnframt fram á það, að nefndin legði til, að þessi styrkur yrði hækkaður lítilsháttar. Styrkurinn er nú 1000 kr., en jeg hefi farið fram á það, að hann verði hækkaður upp í 1500 kr. Ástæðurnar til þessa eru þær, að það hefir verið mjög erfitt undanfarið að fá nokkurn til að halda þessum ferðum uppi fyrir svona lítið. Til þess að ferðir þessar komi að notum, er óhjákvæmilegt að hafa afgreiðslu hjer í Reykjavík og leigja húsrúm til þess, og þessi styrkur, sem nú er veittur, er ekki meiri en svo, að hann rjett hrekkur fyrir þessum kostnaði, og eru ferðirnar þá sama sem styrklausar.

Þessi upphæð, sem hjer er farið fram á, er miðuð við það lægsta tilboð, sem fengist hefir í þessar ferðir. — Jeg held, að í erindi því, sem jeg sendi hv. samgmn., hafi komið svo skýrt fram þörf hjeraðsbúa fyrir þessar ferðir, og hinsvegar örðugleikarnir á þeim, að mig undrar það, einkum ef þessi till. mín er borin saman við sumar till. hv. nefndar, að nefndin skuli ekki hafa sjeð sjer fært að taka hana til greina. Vitanlega hafa tveir hv. nefndarmenn lýst því yfir við mig síðan nefndin skilaði áliti sínu, að þeir væru þessari till. minni hlyntir, og það spáir góðu um það, að þessi till. mín fái góðan byr í hv. deild, þó að hv. samgmn. hafi ekki tekið hana upp í till. sínar.

Það eru aðeins 500 kr., sem jeg hefi farið fram á að þessi styrkur væri hækkaður um, en þeir eru margir, sem hafa not af þessum ferðum, eins og mörgum hv. þm. mun vera kunnugt um. — Hv. þm. Mýr. (PÞ) gat þess, þegar hann talaði fyrir brtt. sinni um að hækka styrkinn til Mýrabátsins, að það væri ekki ósanngjarnt, að Mýrabáturinn nyti sama styrks og Hvalfjarðarbáturinn. Jeg vil nú benda hv. þm. á það, að hvað það snertir, hve margir njóta ferðanna á hvorum staðnum fyrir sig, þá liggur hjer mikið á milli. Hvalfjarðarferðanna njóta 4 stórir hreppar og hlutar af 2, en mjer skilst, að aðeins nokkur hluti tveggja hreppa hafi gagn af ferðum Mýrabátsins. Jeg ætla alls ekki að mæla á móti þessum styrk til Mýrabátsins, en jeg vil aðeins benda á, að hjer er um tvent ósambærilegt að ræða. Jeg skal svo ekki ræða frekar um þessa till. mína og vænti þess, að hún verði samþykt.

Háttv. 2. þm. Rang. gerði að umtalsefni till. um nýja símalínu yfir Stafholtstungur að Hvítárbakka, og kom mjer undarlega fyrir, að hann skyldi ráðast þannig á þessa línu, af tveim ástæðum. Fyrri ástæðan er sú, að þessi háttv. þm. er yfir höfuð laus við að hafa tilhneigingu til að ráðast á menn og málefni að ástæðulausu, og hin ástæðan er sú, að 2 till. hafa komið fram og verið samþyktar, sem eins stóð á með eins og þessa, og greiddi hv. þm. þeim báðum atkv. sitt. Í báðum þessum tilfellum stóð eins á og hjer, og var sá einn munur, að í þeim tilfellum átti ríkið að greiða 4/5, en í þessu tilfelli aðeins kostnaðar. Það er því enn óskiljanlegra, að hv. þm. skuli leggjast á móti þessu.

Hvítárbakkaskólinn mun nú vera eini alþýðuskólinn, sem ekki hefir fengið símasamband, og er það vitanlega hin mesta nauðsyn fyrir hann að fá það. Það er líka með santþykki símastjóra að þessi till. er komin fram. Hann sjer, að það væri til mikilla þæginda fyrir skólann og hjeraðið í kring, og má búast við töluverðum tekjum af honum í samanburði við kostnaðinn, sem ekki er mikill, þar sem hjeraðið leggur meira til heldur en venja er til með slíkar línur, sem jafnvel hv. 2. þm. Rang. hefir áður greitt atkvæði sitt. Jeg læt svo staðar numið, en vænti þess, að þessi liður verði samþyktur.