23.04.1926
Neðri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Halldór Stefánsson:

Það, sem ber á milli við hv. frsm. meiri hl. (JakM) og hæstv. fjrh. (JÞ), er skiftingin á gróða bankans; munurinn er þó ekki stórvægilegur, þegar krufið er til mergjar. En á hinn bóginn er gert mikið úr því, að ekki muni fást það fje, er menn telja þurfa, ef gengið er að till. okkar hv. þm. Ak. um ágóðaskiftinguna á milli bankans og ríkisins. Jeg álít, að hægt sje að vinna of mikið til að biðja um slíkt fje eða veita því inn í landið.

Jeg fæ ekki skilið, hvernig hægt er að setja brtt. okkar á þskj. 330 í samband við tekjuskattslögin. Hæstv. fjrh. sagði áður, að þetta frv. ætti að vera samningsgrundvöllur, og það er rjett. Og það er alveg eins samningsgrundvöllur, þótt brtt. okkar nái fram að ganga. Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. (JakM) talaði um, að hjer væri um verri kjör að ræða en samkvæmt tekjuskattslögunum, þá er það að vísu rjett, ef miðað er við þetta eingöngu. En banki þessi á að vera undanþeginn öllum opinberum sköttum og gjöldum og einnig útsvarafrjáls, en svo er ekki um innlend atvinnufyrirtæki, því að þau eru hlaðin sköttum, bæði beint og óbeint.

Jeg skal viðurkenna, að það er rjett, sem hæstv. fjrh. sagði, að bankinn fengi ekki óskert þessi fyrstu 13%. Af þeim á ríkið að fá 1½%, en bankinn 11½%; en það gerir ekki stóran mun og skiftir ekki verulegu máli.

Því hefir verið haldið fram, að ekki sje álitlegt að leggja fje í banka hjer, vegna þess hvað atvinnuvegirnir sjeu áhættusamir. Það er að vísu rjett, að atvinnuvegirnir eru áhætttusamir, en atvinnuvegirnir geta þó hinsvegar verið svo blómlegir, sem raun hefir borið vitni um nú nýlega og vegur það nokkuð á móti, og svo ber þess að gæta, að bankinn á ekki að greiða ríkissjóði neitt fyr en hann er sæmilega trygður og hefir fengið lágmarkságóða af hlutafjenu.