23.04.1926
Neðri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg þarf að svara nokkrum atriðum, sem komu fram í fyrri ræðu hæstv. Hæstv. fjrh. sagði, að bankanefndin væri nú hætt störfum, en jeg hefi ekki skilið formann nefndarinnar svo að hann líti þannig á. (Fjrh. JÞ: Formaður bankanefndarinnar var hjer áðan og jeg spurði hann að því). Jeg hefi spurt formann nefndarinnar um, hvernig haga ætti störfum nefndarinnar á næstunni, og skildist mjer, að það væri meiningin að vinna að hinni almennu bankalöggjöf, sem svo oft hefir verið talað um.

Hæstv. ráðh. (JÞ) sagði, að okkur væri skyldast að sjá atvinnuvegunum fyrir fje. Jeg er enn á sömu skoðun og þegar bankanefndin skrifaði hæstv. fjrh. síðasta brjef sitt, að það sje meiri þörf að setja almenn bankalög en að koma á fót einkabanka og var nefndin því þess vegna mótfallin að setja heimildarlög um þetta. Jeg er enn á sömu skoðun og vil bæta þeirri röksemd við, að innfluttur gjaldeyrir kemur ekki að gagni nema atvinnuvegirnir sjeu í góðu lagi og gengið sæmilega stöðugt. Jeg held, að menn megi fara að efast um, að þeir skilji sjálfa sig rjett, þegar formaður bankanefndarinnar er skilinn á svona marga vegu. — Hæstv. ráðh. sagði, að gengið hefði á 2 árum hækkað úr 48 aur. upp í 82 aura. Jeg lít nú svo á, að þessi mikla hækkun sje aðeins á pappírnum; hún hefir í rauninni orðið miklu minni. Að atvinnuvegirnir þoldu þessa öru hækkun, er mest að þakka góðærinu 1924, og þá, á því ári, hefði sjálfsagt mátt knýja fram meiri hækkun, en því var hæstv. fjrh. á móti. Hinsvegar hefir hann nú framkvæmt mjög skaðlega hækkun á síðasta ári. Ef það hefir verið mögulegt að hækka krónuna meira, þá held jeg, að sá möguleiki sje nú um garð genginn. Og þá trú mína byggi jeg meðal annars á þeim spádómi, sem hæstv. fjrh. flutti hjer í deildinni um hallæri í sambandi við fjárl. og þrengingar á næstu árum. Jeg hefi það úr bókum, að það sje varla hægt án tjóns að hækka gengið um meira en 10%. Jeg held, að það geti verið rjett, þó að það standi í bókum. Ef það er rjett. verður það ekki vitlaust, þó að það sje prentað. Það er nú svo um okkur marga, að við verðum að hafa vitið úr bókum á þeim málum, sem við höfum ekki sjerþekkingu á. Þegar um ný viðfangsefni er að ræða, verða menn að reyna að setja sig inn í þau, en það verður vitanlega stundum vanþakklátara en að gera alls ekki tilraun til þess.

Hæstv. ráðh. sagði, að jeg hefði haft rangt eftir sjer. Hann sagðist hafa sagt, að það vofi yfir atvinnuvegunum hætta, vegna skorts á veltufje.

Hæstv. ráðh. leggur mikla áherslu á þá þrenging, sem atvinnuvegirnir eigi við að búa. En af hverju stafar þessi þrenging? Auðvitað af því, að reksturinn ber sig ekki og úr því er ekki hægt að bæta með nýju lánsfje. Hjer ruglar hæstv. ráðh. saman tvennu, sem ekki er rjett að rugla saman, heldur á að greina í sundur. Hækkunarmenn í öðrum löndum hika ekki við að viðurkenna, að það er ekki hægt að framkvæma gengishækkun og hafa blómlega atvinnuvegi um leið. Við festingarmenn höldum því fram, að verðfesting krónunnar styðji að velgengni atvinnuveganna. Hæstv. ráðh. segir, að efling atvinnuveganna styðji að hækkun krónunnar. Það er þá bara sá munnur, að hæstv. fjrh. álítur, að atvinnuvegirnir sjeu til vegna krónunnar, en við álítum, að krónan sje til vegna atvinnuveganna.