12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg fæ ekki sjeð, að fram hafi komið svo mikil rök hjá þeim, er talað hafa gegn málinu, að ástæða sje að ætla, að hv. þdm. hafi sannfærst af þeim.

Jeg skal játa það með hv. 2. þm. S.-M. (IP), að það væri heppilegra að öllu leyti, ef endanlegt fyrirkomulag eða niðurstaða yrði á seðlaútgáfunni. En þótt ekki sje búið að binda enda á það mál enn, sýnist það ekki næg ástæða til þess að vera á móti nýjum banka. Hitt, að nýr banki gæti enga viðskiftamenn fengið nema þá, er nú njóta trausts í hinum bönkunum, eða hina, er enginn vildi lána, þá er það að vissu leyti ofmælt og engin ástæða til þess að vera á móti málinu. Það er kunnugt, að þótt menn njóti trausts bankanna, sem nú eru, þá telja bankarnir sig ekki altaf geta lánað fje, enda þótt það sje til góðra fyrirtækja. Og það er sýnilegt, að veltufje verður ekki aukið í landinu nema því aðeins, að nýtt fjármagn fáist. Og þrátt fyrir ýmislegt, sem fundið er að Íslandsbanka, þá getur enginn neitað því, að hann hefir að mörgu leyti verið lyftistöng framfara í landinu. Það hafa orðið stórkostlegar framfarir hjer síðan hann kom með nýtt fje inn í landið og lánaði það til atvinnufyrirtækja. Líkt hygg jeg að fara muni, ef þessi nýi banki kemur.

Jeg leyfi mjer svo fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar að ítreka tilmæli mín til hv. deildar um að samþykkja frv.