12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Jónas Jónsson:

Hæstv. fjrh. hefir svarað nokkrum af þeim beinu og óbeinu spurningum, sem jeg beindi til hans.

Hæstv. fjrh. segist ekki álíta, að sjálfstæði okkar sje nein hætta búin af því, þótt nýtt útlent fjármagn komi inn í landið. Þetta er nú frekar trú en skoðun, því að hann reyndi ekki að rökstyðja þetta. Það vita allir, að nú á tímum er það svo, að þegar stórþjóð vill ná áhrifum hjá smærri þjóð, þá er fyrst byrjað með peningum.

Jeg skal benda á t. d. eitt voldugt fjármálafyrirtæki Standard Oil. Bandaríkjastjórn hefir reynt að kljúfa það í smáfjelög, en það hefir reynst ómögulegt, hvernig sem að hefir verið farið. Þetta er dæmi þess, hvað fjármagnið er sterkt. Og annað dæmi um það, hvernig fjármagn getur tekið á sig hljóðlega mynd, er það, að Standard Oil hefir gerst danskt fjelag í Danmörku og síðan íslenskt fjelag á Íslandi.

Þá sagði hæstv. fjrh., að hann mundi ekki bjóða heimildina um bankastofnun út opinberlega, heldur í kyrþey. Þetta er nú gott að heyra, því að hann mun þá ætla að setja bankanum sína kosti. En af þessum ummælum er ljóst, að enginn ákveðinn aðili er á bak við, og því er frv. þetta lít í loftið, eins og jeg sagði áður.

Jeg mótmæli því, að bankarnir hjer sjeu venjulega fúsir til að lána út á fasteignir. Það má sjá það í efnahagsreikningi Íslandsbanka, að hann hefir lítið af fasteignaveðlánum, enda hefir hann leitast við að reka aðra lánastarfsemi, til verslunar og útgerðar. Og sama yrði ofan á, þótt nýr banki af sama tægi kæmi.

Jeg held, að það sjeu ekki miklar líkur til þess, að þetta frv. hafi nein áhrif til góðs, þótt samþ. verði. Það er ólíklegt, að erlendir fjármálafræðingar vildu hætta fje sínu hjer, þar sem peningar eru svo mjög á reiki. Það er ólíku saman að jafna að koma hingað með fje nú eða þá er Íslandsbanki var stofnaður. Það má að vísu vera, að krónan nái gullgildi, en hún getur líka fallið, og þess vegna er það stórhættulegt fyrir útlendinga að flytja fje sitt hingað.

Jeg vil koma með eina skýringu við það, sem hv. 2. þm. S.-M. (IP) sagði um útibúið í Árnesýslu. Jeg hygg, að honum hafi fallið þannig orð vegna ókunnugleika og að hann hafi farið eftir þeim orðróm, sem hjer gengur um útibúið. En jeg get sagt það — og byggi þar á samtali við bankaeftirlitsmanninn, er hefir kynt sjer hag útibúsins — að þar er ekki búist við miklum töpum. Bændur eiga að vísu erfitt með greiðslur, vegna þess hvað vextir eru háir, en fæst lánin mundu hættuleg, ef vextir væru lægri. En það er ein sýsla, sem bæði Suður-Múlasýsla og Árnessýsla þola samanburð við, og það er Ísafjarðarsýsla. Þar hafa bæði útibúin stórtapað. Og svo má líka minna á það, að bankarnir hjer hafa báðir orðið fyrir stórtöpum.

Jeg vil endurtaka það, að frv. á ekki að ganga fram. Og til þess eru þrjár ástæður:

1. Hjer vantar fullkomna bankalöggjöf.

2. Hætt er við, að ofvöxtur hlaupi í braskfyrirtæki, sem til eru, og nýjum skjóti upp.

3. Það getur orðið hættulegt fyrir sjálfstæði landsins að hleypa hjer inn erlendu fje.