29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

1. mál, fjárlög 1927

Pjetur Þórðarson:

Jeg vil leyfa mjer að láta í ljós þakklæti mitt til háttv. samgmn., sjerstaklega fyrir tillögur hennar undir XXII. lið á þskj. 297. Þessi hv. nefnd hefir í raun og veru sýnt mjög sanngjarna viðleitni í því að haga till. sínum eftir því, sem næst verður komist brýnustu þörf, og þó um leið að takmarka fjárframlögin eins og frekast er unt. Og þó að jeg hafi orðið til þess, ásamt hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), að flytja hjer till. undir XXI. lið á sama þskj., sem hækkar styrkinn til bátaferða á flóum og fjörðum, þá er það ekki af því, að jeg hafi ekki viljað viðurkenna þessa viðleitni hv. samgmn., sem jeg nefndi áðan. Það er ef til vill enn í minni hv. þdm., að jeg hefi á flestum þingum að undanförnu flutt till. um að hækka þennan styrk meira heldur en hv. samgmn. hefir sjeð sjer fært að gera, og er það eingöngu af því, að jeg hefi sjeð, hversu brýn þörf var á því að fá nokkru meira fje til umráða heldur en venjulega hefir verið áætlað í þessu efni í fjárlagafrv. Það, sem hv. þm. A.-Sk. sagði um það, hvað fólgið væri í þessari brtt. okkar um að hækka styrk þennan, gat jeg að sönnu viðurkent, og jeg ljet það í ljós við hv. þm. (ÞorlJ), að það lægi á bak við hjá mjer fyrir þessari hækkunartill., að jeg áliti í raun og veru sanngjarnt, að styrkurinn til Mýrabátsins væri viðlíka hár og áætlað hefir verið af hv. samgmn. til Hvalfjarðarbáts, en jeg vissi þá ekki um, að það lá þá fyrir beiðni um það, að sá styrkur yrði hækkaður um þriðjung, og jeg hafði ekki haldið því fram, að styrkurinn til Mýrabátsins þyrfti að vera svo hár. Jeg hafði ekki neitt á móti því, að það gæti verið sanngjarnt að hækka styrkinn til Hvalfjarðarbátsins, þegar tillit er tekið til þess, að hann hefir nú að undanförnu haldið uppi ferðum fyrir hjeruðin beggja megin fjarðarins, þó að það virtist vera sanngjarnt, að hjeraðsbúar norðan- og vestanmegin fjarðarins gætu komið afurðum sínum til Akraness, sem hefir nær sömu bátaferðir til Reykjavíkur og Borgarnes. (PO: Það eru verri vegir þangað). Verri vegir, segir hv. þm. Borgf., en það munu þó ekki vera verri vegir vestanmegin fjarðarins en alment gerist. En jeg skal þó ekki segja nema að rjettara kynni að vera að veita hærri styrk til Hvalfjarðanbátsins heldur en til Mýrabátsins. Jeg get sagt það til dæmis um þörfina, að það hefir ekki komið fyrir, þegar Mýramenn hafa þurft að flytja sjúkling til Reykjavíkur, að þeir hafi ekki heldur tekið þann kost að fá sjer beinlínis mótorbát til þess að flytja hann beina leið til Reykjavíkur heldur en að flytja hann fyrst til Borgarness og þaðan til Reykjavíkur. Sem sagt, þörfin fyrir ferðir frá Mýrum til Reykjavíkur er mjög mikil. Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en um leið vildi jeg minnast á það, að undir stafl. 2. í XXII. lið er styrkur til þess að kaupa bát og vjel í bát, sem jeg álít mjög sanngjarnan, og mjer kemur það nokkuð undarlega fyrir sjónir, hve ólíklega hefir verið tekið í þessa brtt., og þá sjerstaklega undirtektir hv. fjvn. Hinsvegar tel jeg það mesta neyðarúrræði, sem hæstv. atvrh. (MG) stakk upp á, að samþykkja ekki fyrri liðinn, í þeirri von, að þá yrði síðari liðurinn kannske samþyktur. Jeg álít, að þar væri of mikið lagt á hættu með að spilla góðu málefni, ef slíkt ráð væri tekið.

Jeg vil ennfremur þakka hv. fjvn. fyrir það, hve vel hún hefir tekið till. undir XXIV. lið á sama þskj. Hv. þm. Borgf. hefir talað fyrir þessari till. og sýnt fram á það, hve rjettmæt hún væri, eftir því sem á stendur þar; en þó vil jeg bæta því við, að það mætti segja um þessa till., sem er aðeins upp á 3200 krónur, að það er ekki nema tilfærsla á peningum hjá ríkissjóði, því að þessi línuspotti, þó að hann kosti ekki meira, mun brátt gefa aðrar eins tekjur í ríkissjóð og það, sem hjer er til kostað.

Jeg skal svo snúa mjer að einni till., sem jeg á við þennan kafla fjárlaganna, það er X. till. á þessu sama þskj. Við 2. umr. fjárlaganna bar jeg fram till. um að veita styrk til sjúkraskýlis í Borgarnesi; jeg gat þess þá, að nokkuð sjerstaklega stæði á um þetta fyrirhugaða skýli, vegna hinnar óvenjulega miklu umferðar um Borgarnes og vegna fenginnar reynslu um örðugleika, sem ferðasjúklingar verða að mæta þar, og vegna óþægilegra afleiðinga fyrir þá, sem skotið hafa skjólshúsi yfir þessa sjúklinga. En jeg skal nú ekki endurtaka dæmi, sem jeg nefndi þá, nje tilfæra önnur þessu til sönnunar, þó að til sjeu, en hitt skal jeg taka fram, sem jeg ekki man hvort jeg sagði við 2. umr. málsins, að hjer er um að ræða lítið sjúkraskýli, og verður kostnaðurinn því minni en alment gerist, að því er ætla má. Jeg tók aftur þessa till. við 2. umr., vegna þess að mjer þótti hún ekki nægilega undirbúin, og jeg hefi nú borið hana fram aftur, en í breyttu formi. Jeg hefi að sönnu ekki getað útvegað þau gögn, sem venjulegt er að fá til þess að geta gert kröfur um styrki til sjúkraskýla, en hinsvegar tel jeg líklegt, að ekki þyrfti að koma til þess, að fjárveiting í þessu skyni yrði veitt, nema til væru þau gögn, sem venjulegt er að krefjast, þegar til þyrfti að taka. Það er eftir samráði við landlækni, að jeg flyt þessa till. þannig, að auka hið almenna framlag til sjúkraskýla, og bætti við þeirri aths., að af því megi verja upphæð til þess að byggja sjúkraskýli í Borgarnesi, ef venjuleg skilyrði verða fyrir hendi. Till. í sjálfu sjer er sanngjörn, fyrst að því leyti, að ef ekki kemur til að þessi skilyrði verði fyrir hendi, svo að komið yrði upp þessu skýli í Borgarnesi, sem líkindi eru til að kostaði fremur lítið, þá væri þó ekkert í sölurnar lagt, þó að upphæðin væri áætluð ofurlítið hærri í fjárlögum núna; ef hún yrði ekki notuð til annara sjúkraskýla, þá kæmi hún heldur ekki til greiðslu. Jeg vænti þess, að till. þyki svo sanngjörn, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja hana.

Til þess að stytta mál mitt hefi jeg, eins og áður er sagt, forðast að endurtaka það, sem jeg færði málinu til stuðnings við 2. umr. þess, því að jeg veit, að það getur ekki verið hv. þm. úr minni liðið, svo að jeg sleppi alveg að færa sömu ástæðurnar aftur nú, eða aðrar frekari. Jeg get þó ekki stilt mig um það, þó að jeg ætli ekki að tala langt mál, að minnast lítið eitt á það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) beindi til þdm. yfirleitt í dag viðvíkjandi þessum till., sem hjer liggja fyrir. Jeg veit ekki, hvort það verður mjer til hróss eða ekki, enda stendur mjer á sama um það, þó að jeg viðurkenni, að jeg held, að jeg hafi verið sá eini þm. í þessari hv. deild, sem greiddi atkvæði á móti því að nema úr gildi 25% gengisviðaukann, sem gert var um daginn, og í samræmi við það er jeg nú á þessu þingi eindregið á móti því að lækka nokkra tolla eða skatta, sem nú hvíla á þjóðinni, og jeg segi þetta af því, að þó að nú þyki erfitt að inna þessi gjöld af höndum, þá finst mjer samt, að þau sjeu ekki nema bein tillög til nauðsynlegra hluta, sem þjóðin geti ekki án verið, og í sambandi við þetta er jeg ekki nærri eins nákvæmur fyrir því, þó að jeg greiði atkvæði með einhverju því, sem mjer þykir nauðsyn á að framkvæma, þó að svo horfi við, að nokkur tekjuhalli verði á fjárlögunum. Jeg get að vísu ekki neitað því, að jeg er hæstv. ráðh. (JÞ) sammála um það, að rjett sje að athuga það, í hverju samræmi tekjurnar eru við gjöldin, en jeg get heldur ekki neitað því, úr því að jeg er farinn að minnast á þetta, að mjer þykir hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. fjhn. Nd. og jafnvel hv. deild í heild sinni hafa verið nógu ör eða jafnvel of ör á því að vilja lækka tolla eða skatta nú. Á þennan hátt þykist jeg hafa gert grein fyrir því, að jeg get ekki gengið eins langt og jeg vildi, því síður lengra, í því að taka til greina bendingar hæstv. fjrh. í þessu efni.