14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Af því að jeg er frsm. meiri hluta fjhn. skal jeg segja hjer nokkur orð. Það er, eins og hv. 3. landsk. (JJ) veit, þröngt um peninga handa atvinnuvegum landsins til lands og sjávar. Ef úr því yrði, að nýr banki kæmist á stofn, þá mætti gera sjer von um, að peningamagnið ykist. Þá mintist hann á hlunnindi þau, sem verið er að samþykkja í dag í hv. Nd. Íslandsbanka til handa. Það er gert af sömu ástæðum, atvinnuvegunum til hagnaðar. Það er svo sem gefið, að þegar bankarnir komast í vandræðaástand, þá á þingið frekar að styðja en steypa. Slíkt átti sjer stað í vetur, þegar svo leit út, sem ekki væri hægt að gera út nema part af fiskiflotanum. Jeg sje ekki ástæðu til þess að hafa á móti því, að þessi heimildarlög verði samþykt. Jeg vænti þess, að stjórnin verði vönd í vali sínu, er hún heitir einkaleyfið. En jeg býst ekki við, að nokkur maður geti haft á móti því, að bankinn komist á fót, því að við höfum fulla þörf á meira fjármagni.