14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Jónas Jónsson:

Háttv. þm. Vestm. (JJós) segir, að þetta frv. sje fram komið vegna þess, að peningamarkaður okkar sje svo þröngur. Jú, það er gott, ef hægt er að fá peninga út á þetta; en það væri gaman að fá að heyra frá hv. 1. þm. G.K. (BK), hvaða tryggingu hann álítur vera fyrir því, að fje fáist út á þessa heimild. En samhliða því, sem peningamarkaðurinn er svona þröngur, þá hefir verið varað við því af hálfu stjórnarinnar að leggja út í nýjar framkvæmdir. Það hefir verið sent út einskonar hirðisbrjef þess efnis. En hvers vegna er þá ekki hættulegt að fá nýjan banka? Afleiðing hans yrði sú, að fjármagni hans yrði varið til fyrirtækja þeirra, sem stjórnin er að vara við. Hvað varð arðurinn mikill af norska bankanum? Hann var ekki afgreiddur hjer á þinglegan hátt, heldur drifinn í gegn með frekju. Árangurinn varð ekki annar en að fjármálamenn í mjög litlu áliti flökkuðu um erlendis með fríðindin frá íslenska þinginu upp á vasann. Tilgangurinn var ekki annar en sá, að framselja rjettindin, og hjer virðist meiningin vera hin sama.

Hv. þm. (JJós) var svo samviskusamur að játa með þögninni, að það eru aðeins áhrif þessa útlenda banka, sem valda því, að stjórnin gat ekki komið fram sínu frv., því að annars var nógur tíminn. Samtímis er svo játað, að það þurfi að veita Íslandsbanka meiri sjerrjettindi. Þetta sýnir einmitt, hve mikil hætta getur stafað af banka, jafnvel þótt hann sje í peningavandræðum. Þegar verið var að stofna Íslandsbanka hjer á árunum, var fjöldi af mönnum, sem dönsuðu kringum þennan nýja gullkálf, sumir í von um að geta orðið bankastjórar, sumir gjaldkerar, og svo í von um aðra minni pósta; alt þetta hefir gripið inn í og hjálpað til að trufla þá eðlilegu valdskiftingu í landinu. En um Íslandsbanka er það að segja, að þótt leitað væri í lögum um hann frá 1921, þá er ekkert þar því til fyrirstöðu, að hann fái nú seðla frá hæstv. fjrh., sem nú er í raun og veru seðlabanki landsins; en þetta, sem hjer er gert, er ekkert annað en framhald af þeim dansi, sem stiginn hefir verið á þessum danspalli. En nú eigum við að fá nýjan danspall, ef nokkuð verður úr þessu. Annars lítur út fyrir, að það þýði engin rök í þessari háttv. deild, en þau hafa samt komið fram, svo að afleiðingar þessa máls verða á ábyrgð þeirra, sem samþykkja þennan óburð stjórnarinnar.