17.03.1926
Neðri deild: 33. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

74. mál, afnám gengisviðauka á vörutolli

Frsm. (Klemens Jónsson):

Þetta frv. er borið fram af fjhn. og í samráði við hæstv. fjrh. Það vill nú svo vel til, að engin ástæða er til að hafa langa umræðu um þetta mál nú, því að 1. umr. þess er eiginlega um garð gengin. Hún fór fram, þegar háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) bar fram frv. sitt um algert afnám gengisviðaukans. Þá kom flest það fram, sem máli skiftir. Skal jeg því láta nægja nokkrar athugasemdir.

Frv. þetta um 25% gengisviðauka kom fram á þinginu 1924 og var borið fram af þáverandi stjórn, vegna fjárhagslegra örðugleika. Var til ætlast, að þetta yrði einungis bráðabirgðaráðstöfun, og í frv. sjálfu var sú takmörkun, að miða gengisviðaukann við gengi sterlingspunds, þannig, að hann skyldi falla úr gildi, ef sterlingspundið væri skráð fyrir neðan 25 kr. Ef það ákvæði hefði staðið óhaggað, hefði hann gengið úr gildi síðastl. sumar, þegar hin snögga breyting varð á gengi pundsins. En fyrir þetta var girt með breytingu á lögum þessum á síðasta þingi, þegar sett voru föst ákvæði um, að hann skyldi gilda til ársloka 1927. En nú lítur út fyrir, að fjárhagur landsins sje kominn í það horf, að ástæða, sje til að ljetta á þessum gjöldum, sem sett voru sem neyðarúrræði á þeim tímum, sem fjárhagur ríkissjóðs var sem örðugastur.

Af þessum ástæðum mun háttv. 2. þm. Reykv. hafa komið fram með frv. sitt um að afnema gengisviðaukann með öllu. En fjhn. hefir ekki sjeð sjer fært að ganga svo langt. Hún vill aðeins færa hann af nauðsynjavörum, en láta hann halda áfram á munaðarvörum, svo sem tóbaki, víni o. fl. Eftir þeim upplýsingum, sem nefndin hefir fengið hjá fjrh., nam tekjuaukning af gengisviðaukanum 412 þús. árið 1925, og mundi því verða um 300 þús. kr., sem ljett yrði af landsmönnum með þessu frv. á þessu ári.

Jafnframt hefir nefndin athugað, hvort ekki myndi tækilegt að ganga lengra og afnema gengisviðaukann af sykurtollinum, því að sykurinn er óneitanlega orðinn nauðsynjavara, að minsta kosti í sjávarþorpum, og þessi skattur mun láta nærri að vera um 2 aurar á hvert pund. En hún hefir ekki fundið ástæðu til að taka fasta afstöðu til þess að svo stöddu, því að hún ætlar að taka til athugunar, hvort ekki myndi tiltækilegt að ljetta af einhverjum þeim sköttum, er koma hart niður á sjávarútveginum. En hún hefir enga ákvörðun tekið um það ennþá, því að áður en hún kemur með ákveðnar till. í því máli, vill hún sjá, hver útkoma fjárlaganna verður eftir 2. umr. í Nd., því að það er altaf aðalumræða þeirra og á henni má töluvert byggja. En fyr en sú umræða er um garð gengin, kemur nefndin ekki með neinar breytingar.

Sje, jeg svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar og vona, að frv. nái fram að ganga, enda þótt margir kunni að hugsa sem svo, að það hefði getað verið víðtækara.