22.03.1926
Neðri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

74. mál, afnám gengisviðauka á vörutolli

Jón Baldvinsson:

Jeg þarf ekki að flytja hjer langt mál um brtt. mína við þetta frv. nje málið í heild, því að það er þegar búið að ræða það allmikið, bæði í sambandi við frv. mitt á þskj. 117, um afnám gengisviðaukans, og ennfremur í sambandi við þetta frv. frá fjhn., um afnám gengisviðaukans á vörutolli. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir áætlað, að þessi breyting mundi muna ríkissjóð um 400 þús. kr. á ári. Jeg held nú sannast að segja, að þó að sjálft frv., sem hjer liggur fyrir, muni ríkisjóð allmiklu, þá muni þess lítið gæta á vöruverði alment, svo það muni almenning mjög litlu. Hinsvegar hefi jeg flutt hjer brtt. á þskj. 178. um að bætt verði við till. fjhn. tolli af kaffi og sykri. Því hvað sem um það kann að hafa verið sagt hjer áður, þá er það víst og ómótmælanlegt, að þessar vörur eru nú orðið nauðsynjavörur fyrir mikinn fjölda fólks. Kaffi- og sykurtollurinn hefir numið með gengisviðauka einni miljón króna, og munar það auðvitað talsverðu fyrir ríkið. En það ljettir líka talsvert á fólki, einkum í sjóþorpum, ef þeim tolli er ljett af. Mjer urðu það vonbrigði, að fjhn. skyldi fara svona skamt, úr því hún fór á annað borð að hrófla við málinu, því að jeg álít, að það hafi lítil áhrif, þótt af sje ljett þessum 400 þús. kr. En hinsvegar mundi verð lækka mjög mikið á þessum tveimur vörutegundum, ef tollinum yrði af þeim ljett. Jeg vænti þess, að hv. frsm. fjhn. láti uppi álit nefndarinnar um till. mína. En um varatillögu mína, að afnema eingöngu sykurtollinn, mun jeg ekki tala fyr en jeg heyri undirtektir hæstv. fjrh.