22.03.1926
Neðri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

74. mál, afnám gengisviðauka á vörutolli

Jón Baldvinsson:

Mjer skildist nú ekki um daginn, þegar þetta mál var til umræðu, að fjhn. hefði þá tekið fulla ákvörðun um það, því að hv. 2. þm. Rang. (KlJ) sagði frá því, að hún hefði ekki athugað, hvort hún sæi sjer fært að fara lengra en gert er í þessu frv., og að það mundi verða að bíða þar til 2. umr. fjárlagafrv. væri um garð gengin. Þó að það sje nú svo, að 2. umr. fjárlagafrv. í þessari háttv. deild sje ekki búin, þá ætti þó fjhn. og fjvn. að geta farið nokkuð nærri um það, hvernig fjárlögunum muni reiða af; og mjer skildist líka, að hv. fjhn. hafi haft þá till. til athugunar, hvort hún sæi sjer ekki fært að fara lengra í afnámi tollsins. En ef nú hv. fjhn. ætlar sjer að flytja þá ákvörðun sína sem nýtt frv., eða að láta frv. á þskj. 151 bíða, eða jafnvel ekki komast til framkvæmda 1. apríl í ár, því að það er vafasamt, hvort 2. umr. fjárlagafrv. verður þá lokið, þá er það nokkuð, sem menn hefðu þurft að vita, því að það væri hálfleiðinlegt, ef verið væri að koma með mörg frv. um þetta, þar sem eitt mundi nægja. Hv. 2. þm. Rang. sagði, að það yrði að líta á getu ríkissjóðs til þess að geta mist skattana, en þeim orðum má líka snúa við og segja, að það verði líka að athuga getu landsmanna til að bera þá skatta, sem á þá hafa verið lagðir og intir hafa verið af höndum lengri tíma en ætlast var til upphaflega. Jeg þykist vita, að þetta frv., sem hjer liggur fyrir, sje gert í samráði við hæstv. fjrh.; að minsta kosti er það mjög líkt því, sem talað var um í aths. við fjárlögin, nema hvað það gengur skemra. En hvað það snertir, sem hæstv. fjrh. sagði um hækkanir fjvn., þá hugsa jeg, að afkoma yfirstandandi árs muni verða mjög góð fyrir ríkissjóðinn, eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja; en hitt er annað mál með tollana, hvort þeir eiga að vera háir eða lágir. Hæstv. fjrh. sagði, að sykurtollurinn hefði ekki hækkað síðan 1911; en jeg sje ekki ástæðu til að halda við gengisviðaukanum, þó að svo langt sje síðan breytt var til. Sá tollur var þá mjög hár og það er ekki nokkur ástæða fyrir framhaldi þess tolls, að lögunum hefir ekki verið hreyft síðan. Jeg veit ekki, hvort það myndi þýða nokkuð — jeg heyri, að hv. þm. eru að stinga upp á því — að fresta brtt. mínum þar til fjhn. hefir tekið fullnaðarafstöðu til málsins, því að jafnvel þótt hv. form. hennar (KlJ) hafi sagt, að hún myndi verða á móti þeim, þá kemur það ekki vel heim við yfirlýsingu hv. nefndar, sem hv. form. talar um, og hygg jeg það komi á daginn, að ekkert þýði að geyma brtt. til miðvikudags, því að þá liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um það, hvernig fer með fjárlögin. Þess vegna er jeg efins um það, hvort jeg á að geyma brtt. eða ekki. Jeg býst við að láta þær koma til atkvgr.; hv. þm. verða að gera það upp við sig, hvort þeir vilja samþykkja þær eða ekki, enda býst jeg við, að það myndi ekki hafa nein áhrif, því að menn kunni að skjóta því fyrir sig, að þeir þyrftu fyrst að athuga fjárlögin.

Jeg bið þess vegna um, að brtt. komi til atkv., og læt svo ráðast, hvað gert verður við þær.