10.03.1926
Efri deild: 24. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

38. mál, löggilding verslunarstaða

Jónas Jónsson:

Við 2. umr. ljet jeg þess getið, að jeg mundi flytja brtt., eða öllu heldur viðaukatill., við 3. umr. Þetta hefi jeg nú gert. Er viðaukatill. á þskj. 108 og hljóðar um það, að Leirhöfn á Melrakkasljettu verði löggiltur verslunarstaður. En þar sem jeg geri ráð fyrir, að hv. þdm. sjeu lítt kunnir staðháttum norður þar, þykir mjer hlýða að segja nokkuð ger frá, hversu þar til hagar.

Leirhöfn er vestur á Melrakkasljettu, dálítið norðar en Kópasker. Hún hefir verið til fárra ára lítt kunn og örsjaldan heimsótt af skipum, sem aðallega mun hafa verið vegna þess, að hún er ómæld. En í sumar fengu eigendurnir, sem eru dugandi framkvæmdamenn, forstöðumann Fiskifjelagsins, er var þar á ferð, til þess að athuga höfnina, auk þess sem skipstjórinn á vitabátnum framkvæmdi þar einhverjar mælingar. Forstöðumaður Fiskifjelagsins leyfði mjer að hafa eftir sjer, að honum litist vel á Leirhöfn sem bátahöfn í framtíðinni og þætti ekki ósennilegt, að útvegur tækist þar upp. Dýpi væri þar nokkuð, eða svo mikið, að t. d. skip eins og „Þór“ gætu legið þar án nokkurrar viðgerðar, og þar af leiðandi mundi dýpið nóg fyrir öll minni veiðiskip.

Það, sem Leirhöfn hefir fram yfir Raufarhöfn, sem að mörgu leyti er góð, er víðáttumikið undirlendi, einkar nothæft til ræktunar, en alt kringum Raufarhöfn er hrjóstrugt land og lítil von um, að þar verði nokkru sinni ræktað svo nokkru nemi. Hinsvegar má telja heppilegt, ef sjávarþorp myndast í Leirhöfn, að þar eru ágæt skilyrði til aukinnar ræktunar og nóg undanfæri, þó að þorpið vaxi.

Þetta læt jeg mjer nægja. Aðeins vil jeg láta þau orð fylgja að endingu, að jeg hygg, að margar hafnir hafi verið löggiltar, sem síður skyldi en þessi. Því skal jeg bæta við, að þeir, sem þarna eiga hlut að máli, hafa fengið fyrirheit um, að höfnin skuli mæld og kortlögð undir eins og tími vinst til þess eftir að hún hefir náð löggildingu.