10.03.1926
Efri deild: 24. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

38. mál, löggilding verslunarstaða

Forsætisráðherra (JM):

Jeg stend ekki upp til þess að leggjast sjerstaklega á móti því, að þessar þrjár hafnir, sem um er að ræða, verði löggiltar. En mig langar að nota tækifærið til þess að vekja eftirtekt á þessari venju, sem hefir tíðkast nú um hríð, að kastað sje inn í þingið frv. og brtt. í þessa átt og þm. tæplega gefinn frestur til þess að kynnast allra nauðsynlegustu málavöxtum. Það hefir sem sje verið venja, að svona frv. færu nefndarlaust, og stundum alveg umræðulaust líka, í gegnum báðar deildir, en jeg verð að telja það mjög óheppilegt, að þm. gefist ekki kostur á að rannsaka í hvert sinn, hvaða rök mæli með því, að þessi og þessi höfnin verði löggilt. Eins og þessu hefir haldið fram um stund, finst mjer eins hefði mátt setja ein lög, sem mæltu svo fyrir, að allar hafnir á Íslandi skuli vera löggiltar. Eða þá að gefa stjórninni heimild til þess að löggilda hafnir jafnóðum og þess er óskað.

Nú er vitanlegt, að fjöldamargar hafnir hafa á síðustu árum verið löggiltar, og engin verslun risið þar upp enn. — En, sem sagt, þessar löggildingar hafa gengið svo greiðlega, að jeg held, að það væri masminst að ákveða bara eitt skifti fyrir öll, að alt Ísland — utan kaupstaðanna — skuli vera einn löggiltur verslunarstaður.