10.03.1926
Efri deild: 24. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

38. mál, löggilding verslunarstaða

Guðmundur Ólafsson:

Jeg man svo langt, að fyrir tveimur árum, þegar samskonar frv. var hjer á ferðinni, en skift hafði um nafn við hverja umr. í hv. Nd., og jeg stakk upp á, að því yrði vísað til nefndar, að það þótti hreinasta goðgá og olli jafnvel hneyksli. Svo sjálfsagt þótti, að frv. fengi fram að ganga athugunarlaust, og svona gengur það enn. En að fara að breyta stefnu í þessum málum nú, held jeg að sje um seinan, enda skil jeg ekki í öðru en að því sje komið, að hver vík og vogur kringum landið sje nú löggilt, eins og þingið hefir verið greiðugt á þessi fríðindi undanfarið. (Forsrh. JM: Það er nú kannske ofmælt). Jæja, það getur nú verið, að einhver víkin sje eftir, og þá kannske ekki ósennilegt, að henni verði hnýtt aftan í frv. niðri í hv. Nd. og okkur svo sent það. Því ekki dettur mjer annað í hug en að eitthvað hlaðist utan í það á leiðinni svona milli föðurhúsanna.