29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg ætla nú ekki að tefja umræðurnar mjög mikið, en verð þó fyrir hönd samgmn. að svara nokkrum atriðum. Hv. form. fjvn. (ÞorlJ) sagði, að till. samgmn. væru út í bláinn. Nú getur hv. þm. leyft sjer að segja þetta, þótt það upplýsist, að hv. fjvn. hafi alls ekki lesið brjef og till. samgmn. þótt þær væru komnar til hennar fyrir mánuði. Það undrar mig stórum, að hv. fjvn. skuli ekki sjá sóma sinn í að kannast við, að hún hafi farið öðruvísi að en þingvenja er, þar sem hún hefir ekki tekið tillit til erindis frá báðum samgmn. og síðan fengið samgmn. Nd. til að taka aftur brtt. sínar til 3. umr. (ÞórJ: Þetta erindi hefir aldrei borist nefndinni!). Það er sannanlegt, að nefndin hafi fengið erindið. En á 11. stundu vill hún benda á, að rjettara væri að fóðra þessa fjárveitingu á einhvern formlegan (!) hátt. Jeg vil því segja fyrir hönd samgmn., að hún kann best við að hafa sínar tillögur hreinar. Jeg kæri mig ekki um, að nefndin sje að benda á að fóðra fjárframlögin undir öðru nafni en þau eru ætluð til, t. d. rekstrarstyrkinn til flóabáta sem það væri til einhvers annars.

Háttv. form. fjvn. (ÞorlJ) gat sagt, að hjer væri talað út í bláinn, því að hann hefir ekki haft svo mikið við að lesa till. og skjöl þau, er skýra mál umsækjenda. Það má þá fult eins vel segja, að till. hans á þskj. 297 sje flutt út í bláinn; það er um 1000 kr. hækkun á flóabátastyrknum. En hv. þm. Mýr. (PÞ) fór ekki fram á, að veittar yrðu nema 500 kr., og tók nefndin till. þá til greina að mestu leyti og lagði til, að veittar yrðu 400 kr.

Hv. þm. Mýr. (PÞ), sem lengi hefir átt sæti í samgmn., veit vel, að reynt hefir verið að stilla í hóf með útgjöldin, án þess þó að teppa að nokkru leyti samgöngubætur þeirra hjeraða, sem erfiðasta eiga aðstöðuna. Er óskiljanlegt, að hann ætlast nú til, að styrkurinn verði settur helmingi hærri en farið var fram á í fyrstu.

Háttv. frsm. (ÞórJ) talaði um það, að nefndin færi mest eftir till. ráðunauta stjórnarinnar í þessum efnum. Rjett er nú það. Það er gott að hafa þetta til þess að bera fram. En nefndarmönnum verður ekki skotaskuld úr því að panta þær, að minsta kosti ef þeir eiga hlut að máli.

Hv. fjvn. leggur mjög freklega á móti till. samgmn. og einstakra þm., en jeg sje, að við 2. umr. hækkuðu útgjaldaliðirnir um 83 þús. kr., sem fór til hjeraða nefndarmanna. (TrÞ : Hvað fór mikið af því til Strandasýslu?). Til Strandasýslu fór mjög lítið. (TrÞ: Ekkert). Jú, það er fjárframlag til vegabóta. Segir svo í nál., að gert skuli þar við vegi, eftir því, sem þörf þykir. En af þessari hækkun fóru ekki nema um 13 þús. kr. í hjeruð annara þingmanna.

Háttv. frsm. gat þess, að órannsakað væri, hvort hægt væri að leggja símalínu þá, sem um ræðir í till. minni á þskj. 297. En það getur ekki verið miklum erfiðleikum bundið að leggja nýja línu frá Ísafirði til Ögurs, þar sem á að strengja hana á gamla staura. Þá þarf ekki að vera mjög erfitt að leggja línuna yfir Ísafjarðardjúp, því að það er venjulegast íslaust. En að setja loftskeytastöð í Ögri mun verða langtum dýrara. En eins og jeg gat um í dag, telur landssímastjóri nauðsynlegt að leggja þarna nýja línu, þar sem samgöngubætur þessara hjeraða eru langt frá því að vera fullnægjandi. Náskyldar þessari línu eru línur í NorðurÍsafjarðarsýslu, sem standa í símalögunum frá 1912 og ekki er farið að hreyfa við enn. En það kemur nú kannske af því, að þessar kröfur sýslubúa eru orðnar fyrndar. Gæti jeg best trúað því. En það er orðin venja nú hjer á þingi að taka línur, sem eru utan símalaganna, upp í fjárlögin.

Háttv. frsm. segir, að hjeraðsbúar hafi ekki fyr hafist handa í þessum efnum. En það er nú eftir því sem það er tekið, því að þrjú síðustu árin, og hið fjórða nú í ár, hafa komið fram eindregnar áskoranir í þessa átt á flestum þingmálafundum sýslunnar. Og þó að Norður-Ísfirðingar hafi átt mann á þingi, sem gekk linlega eftir því, að kröfur hjeraðsins væru uppfyltar, þar sem hann vildi ekki á þeim kreppuárum auka útgjöld ríkissjóðs, þá hjelt jeg ekki, að við þess vegna töpuðum rjetti okkar til þess að fá sjálfsögðum kröfum okkar framgengt. Og af því að við höfum ekki áður beðið eða verið heimtufrekir, á nú að neita okkur um þessar samgöngubætur.

Jeg býst ekki við, að samgmn. fái kost á því að koma saman og ræða þessa till. frsm. og taka afstöðu til hennar. Munu nefndarmenn því hafa óbundin atkvæði. En jeg segi fyrir mig, að jeg mun verða á móti henni. Jeg vil, að það standi með rjettu, sem á að standa, og vil ekki kaupa fylgi manna með því að fóðra þetta með öðru eða vera með nokkurt yfirvarp í þessu máli.