08.03.1926
Neðri deild: 25. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Áður en jeg sný mjer beint að frv. því, sem hjer liggur fyrir, verð jeg að drepa á nokkur atriði í undanfara þess.

Haustið 1922 gerði Samband ísl. samvinnufjelaga þá fyrstu tilraun, sem gerð hefir verið með að senda kælt kjöt til Englands. Var kjötið sent með Íslandi, en þessi tilraun mishepnaðist, af því að vjelarnar voru ekki í lagi. Önnur tilraun var gerð 1923. Voru þá sendir 1719 kroppar af kældu kjöti. Nokkuð af kjöti þessu skemdist á leiðinni og sumt var fryst þegar til Englands kom. Verð kjötsins í Englandi varð, að frádregnum kostnaði: fryst kjöt kr. 1.42 pr. kg., en kælt kjöt kr. 2,32 pr. kg. Nettóverð hjer heima var þá kr. 1,90 pr. kg. Á sama tíma var útborgað verð á saltkjöti í kaupfjelögunum hjer kr. 1.00–1.10.

Enn var gerð tilraun 1924 og sent kælt kjöt með Gullfossi. Verðið á því kjöti varð, að frádregnum kostnaði, innlendum og útlendum, kr. 1.47 pr. kg., en saltkjötsverð var á sama tíma kr. 1.30–1,35 pr. kg. Síðastl. haust var enn sent kjöt með Gullfossi. 420 skrokkar frá Reyðarfirði. Verðið, að frádregnum öllum kostnaði, varð kr. 1,50 pr. kg., en saltkjötsverð á sama tíma kr. 1,40 eða 1,45 pr. kg. Jeg skal taka fram, að í sumar var einnig gerð tilraun úr Borgarnesi, en hún mistókst, kjötið skemdist, svo að ekkert er á henni að byggja.

Við þessar tilraunir er það að athuga, að upplýst er af fagmanni, að útbúnaðurinn í Gullfossi er ekki ætlaður fyrir kælt kjöt, heldur fryst. Það vantar dragsúg í kæliklefana til þess að kjötið geti haldist í æskilegu ástandi. Jeg hefi nú drepið á reynslu þá, sem þegar er fengin. Þessar þrjár aðaltilraunir virðast benda á, að fyrir kælt kjöt megum við vænta þess að fá hærra verð en fáanlegt er á norskum markaði, en að vandhæfi er á að flytja út kælt kjöt. Þú má vænta þess, að með betri útbúnaði og aukinni reynslu takist að yfirstíga þá örðugleika.

Með útflutning á frosnu dilkakjöti hefir aðeins verið gerð ein tilraun, sú, er gerð var síðastl. sumar, og hefir komið skýrsla í blöðunum um þá tilraun. Jeg ætla að drepa á nokkur atriði. Fluttir voru út 6514 skrokkar. Meðalverð í Englandi var um 7,40 pence pr. enskt pund, og lætur nærri, að það sje kr. 1,45 pr. kg. Fyrir það, sem best seldist, fjekst rúml. 9 pence pr. enskt pund, sem samsvarar kr. 1,93 pr. kg. Þetta verð, sem kjötið seldist fyrir, er nokkru lægra en talið er á verðskrám, að frosið kjöt hafi kostað í Englandi um þetta leyti. En við það er að athuga, að Argentínu- og Nýja-Sjálandskjöt mun hafa verið selt lægra verði en verðskrárnar telja.

Því verður ekki neitað, að þetta verð er lágt, en á það ber að líta, að okkar kjöt er óþekt á breskum markaði sem frosið kjöt. En á hinn bóginn verðum við að keppa um markaðinn við kjöt, sem Englendingar eru búnir að nota lengi, og þegar litið er á það, sem allkunnugt er, hve Englendingar eru fastheldnir við venjur sínar, er eðlilegt, að örðuglega gangi að koma á framfæri nýjum vörutegundum, og að það kosti bæði langan tíma og ítrekaðar tilraunir.

Á þessari tilraun mun hafa orðið mikill halli, um 70–80 þús. kr., ef miðað er við saltkjötsverð. En þess ber að gæta, að kjötverð var óvenjulega hátt í Noregi, um 50% hærra en í fyrra, en kjötverð í Bretlandi 15% lægra en í fyrra, og lækkaði eftir því sem á leið. Ennfremur varð allmikill ófyrirsjáanlegur kostnaður við skipið, vegna viðgerða og tafa, og mun allur kostnaður við skipið hafa orðið um 48 þús. krónur. Þá bættist enn við, að kjötið kom til Englands mánuði seinna en áætlað var, og var þá kjötverð farið að falla að mun. En það er venjulega svo, þegar verðfall kemur, að besta varan gengur helst út, en óþekt vara eða sú, sem er í minni metum, situr þá á hakanum. Þetta er algengt lögmál, sem okkar kjöt hefir líklega orðið fyrir.

Þetta er saga málsins í fáum orðum, og nú er eðlilegt að spyrja, hvað taka skuli til bragðs. Ástandið er þannig nú, að íslensk kjötframleiðsla er algerlega háð norskum markaði. En Norðmenn kappkosta að auka sem mest sína kjötframleiðslu. Í landbúnaðarblöðum þeirra má alstaðar sjá hvatningar til aukinnar ræktunar og fjölgunar búfjár. Yfirleitt keppa þeir að því að verða sjálfum sjer nógir. Norðmenn hafa sýnt okkur í tvo heimana með tolllöggjöf sinni, og þeir geta gert það aftur. Ekki þarf mikil snurða að hlaupa á þráðinn til þess, að það verði gert, því að víða í Noregi er óánægja út af því máli. — Eins og nú standa sakir er því fjölgun sauðfjár hjer á landi nær því útilokuð, því að meira framboð á kjöti til Noregs mundi lækka verðið.

Á hinn bóginn hafa þegar verið gerðar þrjár tilraunir með útflutning á kældu kjöti, sem gefa góðar vonir. Tilraunin með frosna kjötið gefur enga ábyggilega reynslu.

Á nú að halda þessum tilraunum áfram, eða á að láta óhöpp síðasta árs hræða sig og leggja hendur í skaut? Á að sleppa þeim möguleika að halda sæmilegu kjötverði, þó framleiðslan ykist? Stjórnin hefir svarað þessu fyrir sitt leyti. Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er hennar svar, og jeg vil í nafni landbúnaðarnefndar tjá stjórninni eða atvinnumálaráðherra þakkir fyrir svarið. Einhverjum kann að koma til hugar, að betra hefði verið að fara aðrar leiðir, t. d. að halda tilraununum áfram með því að taka skip á leigu. Þar til er því að svara, að í 3 ár undanfarin hefir mjög verið leitast fyrir um leiguskip, og loks fjekst eitt, sem svo reyndist nær því ónothæft. Skip þau, sem buðust, voru flest of stór og þar að auki fengust þau ekki leigð nema miklu lengri tíma en okkur hentar. Á síðasta þingi var talsvert talað um, að ríkið sjálft ljeti byggja kæliskip og gerði það út. Jeg tel þá leið, sem þetta frv. fer, miklu aðgengilegri. Tillag ríkissjóðs er að vísu nokkuð hátt, en það er miðað við kostnað þann, sem liggur í kæliútbúnaðinum, og við hleðslurúm það, er skipið missir. Með þessu tillagi ætti að vera trygt, að ekki þyrfti að taka hærra flutningsgjald fyrir þessa vöru en aðrar, að viðbættum þeim kostnaði, sem fer til þess að halda kælivjelunum í gangi. Skip það, sem hjer um ræðir, á að verða af sömu stærð og Goðafoss og hafa sama hraða. Kæliútbúnaðurinn allur á að verða mjög vandaður. Það á að geta tekið 20–30 þús. kroppa eða 5–6 þús. fjár. Í einni lestinni getur það flutt kælt kjöt, annari frosið kjöt, þriðju lifandi fje, fjórðu ull o. s. frv.

Það verður ágætt vöruflutningaskip og er ætlað að sigla á stærri hafnirnar. Það bætir því úr sárri þörf á tíðari beinum ferðum frá og til útlanda.

Á hinn bóginn er ekki hægt að segja um, hve margvíslega nýja möguleika kæliskip getur opnað framleiðendum. Það má benda á að við erum eina þjóðin, sem hefir aðstöðun til þess að flytja kælt kjöt til Bretlands. Aðrar þjóðir flytja þangað fryst kjöt. Nautakjöt og lax verður oft verðlítið hjer, af því að ekki er hægt að koma því óskemdu á góðan markað og ýmislegt fleira mætti nefna.

Það var oft talað um það, þegar höfnin hjerna var bygð, hve mikla nýja möguleika hún mundi skapa fyrir verslun og útgerð, og þær vonir hafa víst ræst.

Það er nú talað um, að nýjar auðsuppsprettur svo að segja opnist, ef járnbraut væri lögð austur yfir heiði. Með þessu frv. er líka verið að opna nýjar leiðir, og jafnvel nýjar framleiðslulindir, ekki handa einni eða tveimur sýslum, heldur öllum framleiðendum. Jeg vona, að þetta fyrirtæki verði til blessunar landbúnaðinum og sjávarútveginum einnig. En reynslan sker úr, hvort við berum gæfu til að nota þetta tækifæri.