12.03.1926
Neðri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Sveinn Ólafsson:

Jeg þykist mega fullyrða, að engu frv. á þessu þingi hefir verið tekið með öllu meiri ánægju en frv. því, sem hjer liggur fyrir á þskj. 94. Og mjer finst ástæða til að ætla, að svo muni vera hvarvetna úti um landið, að því verði fagnað vel.

En mjer finst líka jafnvafalaust, að það muni verða enn meiri aufúsugestur úti um sveitir landsins, ef brtt. verður samþ., sem fyrir liggur við frv., á þskj. 120, og sem lýtur að því að byggja á næsta ári lítið aukaskip til strandferða. Hún er borin fram af fjórum þingdeildarmönnum auk mín. Jeg efast ekki um það, að hún eigi ítök í mörgum af hv. þdm. og íbúum strjálbygðra sveita með ströndum landsins. Við flm. lítum svo á, að nú sje einmitt hentugur tími valinn til þess að koma í framkvæmd slíkri skipsbyggingu, til þess að koma í verk strandferðum þeim, sem brýn þörf landsins heimtar og veitt geti nokkurn veginn viðunandi samgöngur með ströndum fram.

Að tíminn sje hentugur til þess einmitt nú, byggist meðal annars á því, að við síðustu áramót urðu talsverðar fyrningar í ríkissjóði framar því, sem vant er. Samkvæmt því, sem hæstv. fjrh. (JÞ) upplýsti við 1. umræðu fjárlaganna, hafa þær numið fyrir 1924 og 1925 á 4. miljón króna. Einnig er augljóst, að á þessu ári verður líka nokkurt handbært fje, sem ætlað var til annara hluta, sem sje þær 600 þús. kr., er í fjárlögum yfirstandandi árs voru ætlaðar til afborgana á þeim lausum skuldum ríkissjóðs, sem nú þegar eru greiddar.

Það má því eftir atvikum líta svo á, að tíminn sje vel valinn til þess að koma í framkvæmd þessu þarfa og sjálfsagða fyrirtæki. Um óákveðinn langan tíma getur það hvort, sem er ekki dregist, að í það verði ráðist, og þegar tekjuhalli er á landsreikningi, eru verklegar framkvæmdir erfiðari.

Mjer þykir rjett að geta þess hjer, að þessi till. vor flm. um skipsbygginguna er í raun og veru 2. liður úr till. milliþinganefndarinnar í strandferðamálinu, þeirrar sem starfaði á síðastliðnu sumri, sá liðurinn, sem samgmn. treystist ekki óskift að leggja með, þegar málið var borið undir hana. En hún hefir engu að síður látið það í ljós, að hún teldi þetta eiga að komast í framkvæmd áður langt um liði.

Eins og kunnugt er, hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess að auka og bæta strandferðirnar á þessu ári, með því að undirbúa leigu á skipi til haustferða ásamt „Esju“. En það er vitanlegt, að slíkt er aðeins fyrir stuttan tíma, seinni hluta þessa árs. Og í öðru lagi er það vitanlegt, að slík leiguskip eru í mörgum tilfellum óhagfeld og koma ekki að þeim notum, sem innlend skip geta komið, ekki síst vegna aukins tryggingargjalds á slæmum höfnum.

Jeg tek það fram og legg á það alveg sjerstaka áherslu að hjer er ekki um neitt kjördæmamál að ræða. Þetta er þjóðfjelagsmál. Það snertir beint að minsta kosti 13–15 af sýslum landsins, sem skipaviðkomur geta fengið, og allar hinar óbeinlínis, sem ekki hafa bein not af strandferðunum. Hjer er því ekki verið að draga sjerstaklega fram hagsmuni eins hjeraðs eða kjördæmis. Þetta er mál, sem heildina varðar. En við það verður að kannast, að það snertir þó fyrst og fremst þá hluta landsins, sem mest hafa farið varhluta af samgöngum undanfarið vegna einangrunar, slæmra hafna og strjálbýlis, en þar er líka þörf samgangna brýnust.

Jeg veit það vel, að ýmsum háttv. þdm. þykir í mikið ráðist með þessu, þykir ef til vill of mikið í sölurnar lagt með 400 þús. kr. skipskaupum. En þegar miðað er við þær fjárhæðir, sem á venjulegum tímum eru notaðar til þess að lagfæra og halda við vegum í landinu, þá er þessi upphæð út af fyrir sig ekki mikil. Jeg nefni aðeins það, að í fjárlagafrv. því, sem fyrir þinginu liggur, er gert ráð fyrir um 700 þús. kr. til vegagerðar og viðhalds vega, fyrir utan það, sem ætlað er til akfærra sýsluvega, brúa og minniháttar aðgerða. Og þó eru það aðeins smáspottar vega, sem gerðir eru fyrir þessa upphæð, spottar, sem koma tiltölulega fáum að liði. Það er þó hartnær tvöföld upphæðin við skipskaupin, sem þarna er varið til þess að koma ögn áleiðis þessu seinunna verki, að færa vegakerfi landsins í sæmilegt horf. Og meðan engin tök eru á að koma því í það horf, að hægt sje að tengja aðalhjeruðin saman, þá verðum vjer að notast við þann veginn, sem oftast er greiðfær, ef farartækin vantar ekki, nota leiðina með ströndum fram.

Það má rjettilega bera skipakaupin saman við önnur samgöngufyrirtæki, sem heimta fjárframlög. Þótt ólíkt sje, má þó bera þau saman við þá fyrirætlun í stjfrv., sem hefir komið fram í þinginu undanfarið, að leggja beri jafnvel alt að 200 þús. krónum af ríkisfje í tiltölulega lítið bryggjubyggingarmannvirki í Borgarnesi. Hvað eru þessar 400 þús. kr. til strandferðaskips, sem alt landið nýtur, í samanburði við það, sem þar er ráðgert að fórna fyrir tiltölulega lítinn hluta landsbúa? Jeg er ekki að leggja á móti þessu bryggjufyrirtæki, en aðeins að draga það fram til samanburðar við skipskaupin, til þess að sýna, að hjer er í raun og veru ekki til mikils mælst af oss flm., þegar öll landsheildin hefir þörfina og nýtur fyrirtækisins.

Það má alt eins vel bera þetta saman við ýms önnur þau fyrirtæki, sem ríkið hefir á baki og síst eru heildinni notabetri en strandferðir. Fullkomin fjarstæða væri samt að telja skipskaupin hliðstæð við þá fyrirætlun, sem nú mun hafa bólað á hjá hæstv. stjórn, að vilja leggja á ríkissjóðinn margra miljóna útgjöld í sambandi við örlítinn járnbrautarstúf hjeðan austur yfir Hellisheiði. Og þótt það út af fyrir sig sje mikils vert og komi mörgum landsbúum að liði, ef úr því verður, þá gagnar það alls ekki jafnmörgum og þetta fyrirtæki, sem hjer er stefnt að.

Því var skotið að mjer, þegar brtt. okkar flm. kom fram, að hún myndi vera sett til höfuðs sjálfu frv. Jeg vil því, til þess að fyrirbyggja allar getsakir og grun í þessu efni, lýsa því yfir, fyrir mitt leyti að minsta kosti, að þótt þessi sanngjarnlega tillaga okkar yrði feld, þá greiði jeg eftir sem áður atkvæði með frv. Það er svo fjarri því, að hugmynd okkar sje að spilla fyrir frv., að jeg hygg, að það verði hiklaust stutt af öllum þeim, sem styðja þessa brtt., hvernig sem um hana fer.

Annars er rjett að geta þess um leið, að með þessari brtt. er reynt að stíga eitt fótmál, sem stíga þarf jafnframt því að kæliskip kemst í rekstur. Það getur ekki verið tilætlunin, að jafndýrt skip og stórt sem kæliskipið verði haft til þess að smjúga inn á hvern vog og vík í landinu. En hinsvegar gerum við flm. brtt. ráð fyrir því, að strandferðaskipið verði útbúið nokkru kælirúmi, til þess að flytja kælda matvöru til markaðsstaða og í veg fyrir kæliskipið. Þetta litla skip verður hvort sem er að fara með ströndum fram og safna farmi.

Þess er enn að gæta, að ekki hefir fengist nein ábyggileg reynsla um það, hvernig kæliflutningur muni takast, og mættu þar að liði verða tilraunir strandferðaskipsins, enda er að sjálfsögðu mikilsvert fyrir ýms hjeruð landsins, sem hafa nautakjötsframleiðslu að sumrinu, að eiga kost á að koma slíkri vöru til innlendra markaðsstaða. En til þess hefir ekki verið tækifæri undanfarið — og er ekki ennþá. Framleiðsla þeirra hjeraða nýtist ekki og vöntun flutningatækja á sjó og landi fyrir þau tálmar eðlilegum og nauðsynlegum viðskiftum innanlands, jafnvel svo, að kjöt, smjör, ostur, egg o. s. frv., sem nægt er af í landinu, er að talsverðum mun flutt frá útlöndum. Jeg held þess vegna, að með hentugu strandferðaskipi gefist færi á að gera ýmsar tilraunir með flutning á kældum matvörum á innlendan markað, sem jafnframt hefðu þýðingu fyrir útflutning á útflutningshæfum vörum.

Jeg verð að biðja afsökunar á því, að jeg gríp dálítið aftur í tímann.

Það eru nú 45 ár síðan jeg kom fyrsta sinn austur um álinn til frænda vorra í Noregi og dvaldi þar vetrarlangt. Jeg kyntist þar póstflutningi og samgöngum yfirleitt og átti kost á að sjá, hvernig þeim var hagað. Mjer er ekkert minnisstæðara frá ferðinni en sá samanburður, sem jeg gerði um samgöngur og landsháttu hjer heima við ástandið þar. Strandferðirnar þar voru mikla lengra á veg komnar um og fyrir 1880 en þær eru hjer þann dag í dag. Það mátti þá svo heita, að hvert afskekt útkjálkahjerað og eyjar með ströndum Noregs — en þær eru mýmargar —, hvert smáfiskiver og bygðarhverfi nær sjó ætti vikulega kost á sambandi við hvern stað sem vera skyldi með ströndum fram.

Fyrir utan fjögur stór póstskip, sem gengu óaflátanlega fyrir utan skerjagarðinn, með viðkomum á öllum aðalhöfnum frá Knöskanesi til Oslóar, var fjöldi af litlum gufuskipum sem önnuðust ferðir um sund, víkur og voga á tilteknum svæðum og höfðu ferðaáætlanir samræmdar áætlunum aðalskipanna.

Síðan þetta var hafa stórfeldar breytingar orðið til bóta á samgöngum í Noregi, bæði á sjó og landi. Það er auðvitað með öllu þýðingarlaust að bera saman ástæðurnar þar og hjer og gera hjer jafnháar kröfur. Mjer dettur heldur ekki í hug, þótt jeg nefni þetta, að hjer verði að sinni líkt eftir þeim samgöngum, sem tíðkast við Noregsstrendur. En við verðum að reyna að feta okkur í áttina að samgöngum, sem gera fólkinu vært að dvelja í strjálbýli strandanna. Þeir tímar hljóta að koma — eru ef til vill komnir — að fólkið lætur sjer ekki lynda að sitja í einangri mánuðum saman og jafnvel heil missiri, án póstferða eða samgöngutækja á sjó eða landi, án þess að komast í nærsveitir öðruvísi en á hestbaki, þegar best lætur, eða fótgangandi. En þannig er þó ennþá víða ástatt í voru landi, þar sem strjál er bygðin, jafnvel á stórum svæðum.

Jeg vil ekki þreyta hv. þdm. með langri ræðu, enda þykist jeg vita, að þeir, sem andvígir eru þessu máli, láti ekki skipast af mínum orðum. En við hinu get jeg búist, að einhverjir láti skipast af þörfinni á bættum samgöngum, sem fást til að athuga hana, og snúist þess vegna til fylgis okkur flm., sem stöndum að brtt. á þskj.120.

Jeg hygg þá ekki fáa, sem líta svo á með mjer, að ein ríkasta ástæðan fyrir því, að fólkið flýr úr sveitunum og sest að á mölinni við sjóinn, sje einmitt sú, hvað margar sveitir eru einangraðar og eiga við margháttaða erfiðleika að búa í samgönguleysinu.

Ef sá skilningur er ekki alment vakinn nú, sem sjer og finnur nauðsyn þessa máls, þá mun það aðeins tímaspursmál, að allur fjöldinn vakni til meðvitundar um þörfina og það, hvert stefna beri, og þá verða þeir ekki öfundsverðir, sem leggjast móti kröfunum.

Að lokum vil jeg svo heita á allar hollvættir strjálbygðu sveitanna að styðja þetta velferðarmál, og þykist jeg þess fullviss, að margar þeirra muni hjer innan deildarinnar.