12.03.1926
Neðri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Okkur í samgmn. Nd. kom á óvart, er við sáum hv. l. þm. S.-M. (SvÓ) fara á bak við nefndina og bera fram fyrir hv. deild till., sem nefndin var búin að fella, því hún gat ekki að þessu sinni og að svo vöxnu máli fallist á neina af till. milliþinganefndarinnar, nema þá eina, sem hún tók upp og hefir verið samþykt hjer í hv. deild.

Sem betur fer er það óvanalegt hjer á hinu háa Alþingi, að sú leið sje farin, sem háttv. flm. brtt. (SvÓ) hefir valið sjer, og þess vegna virðist mjer liggja í augum uppi, að háttv. deild vísi brtt. á þskj. 120 til samgöngumálanefndar áður en gengið er til atkvæða um hana. Þetta er samgöngumál og ekkert annað, og því algerlega óskylt því máli, sem því er hnýtt aftan í.

Það er öllum kunnugt, að útlitið er ekki glæsilegt fyrir atvinnuvegina nú í nánustu framtíð, og líklega þarf fleiri ár til þess að komast úr yfirstandandi kreppu. Þykist jeg vita, að allflestir háttv. þm. hafi áhuga og vilja til að ljetta sköttum og þungum álögum af atvinnuvegunum, svo að þeir sligist ekki. Vona jeg, að sú verði niðurstaðan, að ekki minna en 1 milj. kr., sem nú hvílir á atvinnuvegunum, verði af þeim ljett um það er þessu þingi er lokið.

Þessi till., sem hjer liggur fyrir, fer í sömu átt, að ljetta undir með öðrum aðalatvinnuvegi þjóðarinnar og leggja fram 350 þús. kr. til tryggingar betri afkomu landbúnaðarins. Og um þetta hygg jeg, að allir sjeu einhuga, og vænti jeg þá, að hins sama gæti um hinn aðalatvinnuveginn og að af honum verði ljett a. m. k. sem svarar 600 þús. kr. á næsta ári og að tekjubálkur fjárlaganna verði lækkaður að sama skapi.

Allir sjá þá óumflýjanlegu nauðsyn að styrkja atvinnuvegina, að engum kemur til hugar að mæla á móti því að leggja 350 þús. kr. í kæliskip. Ef ekki á að sliga hinn aðalatvinnuveginn, sjávarútveginn, þá verður að ljetta af honum hinum mjög svo þungu sköttum, en þar af leiðir, að fara verður varlega í útgjöldum ríkissjóðsins.

Hv. aðalflm. brtt. (SvÓ) taldi hentugan tíma að ráðast í stórræði til útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. En jeg er þar á annari skoðun. Atvinnuvegirnir stynja undir þungum sköttum og álögum og útlitið er það, að þeir eigi erfitt uppdráttar næstu ár, þó aldrei nema hið háa Alþingi reyni að ljetta undir með þeim sem kostur er.

Þá gat hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) þess, að bygging strandferðaskipsins mundi draga úr fólksstreymi til kaupstaðanna og tryggja fólkið í sveitunum. Þar er jeg líka á öndverðri skoðun. Það eru vegirnir og samgöngurnar innan sýslna og hjeraða, sem best munu stuðla að því í framtíðinni að tryggja fólkið í sveitunum. Það verður að leggja ríka áherslu á, að Norðurlandsveginum verði haldið áfram og flýtt sem kostur er lagningu hans á næstu árum. Mannflutningar liggja um sveitirnar víðast hvar, en ekki með ströndum fram. Þegar Norðurlandsbrautin er komin og akvegur vestur í Dalasýslu, ferðast menn bæði þaðan, úr Strandasýslu og af öllu Norðurlandi landveg til Borgarness, og þaðan sjóveg t. d. hingað.

Jeg skal svo láta staðar numið hjer, en verð fyrir hönd samgmn. að lýsa óánægju minni yfir því, að brtt. þessi skuli vera fram komin í því formi, sem hún er, enda leyfi jeg mjer að leggja eindregið á móti því, að hún nái fram að ganga.