12.03.1926
Neðri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg verð að segja það, að mjer varð mjög illa við, er jeg sá þessa brtt. á þskj. 120. Ekki af því, að mjer detti í hug, að hv. flm. hafi með henni ætlað sjer að spilla fyrir því máli, sem hún er sett í samband við. En mjer var illa við hana af því jeg þóttist sjá, að þetta mál — bygging strandferðaskipsins, sem er ekki óvinsælt mál — átti að fljóta í kjölfari annars máls, sem er þó miklu vinsælla. Og þetta dreg jeg af því, að sá háttv. þingmaður er aðalflm. brtt., sem orðið hafði í minni hluta í samgöngumálanefnd, þegar samþykt var þar að fresta að sinni, að bygt yrði strandferðaskip. Það er ekki sanngjarnt að setja svona mál aftan í annað mál, sem allir viðurkenna, að eigi fram að ganga, þegar búið er að samþykkja í báðum samgmn. þingsins að gera ekki út um kaup á strandferðaskipi á þessu ári. Því þó að frv. um kæliskipið sje vinsælt mál, er ekki víst að það geti borið uppi auk sín svona stórt mál.

Jeg veit ekki, hvaðan hv. flm. hafa þær tölur um verð hins nýja strandferðaskips, sem í brtt. eru nefndar. Framkvæmdarstjóri Eimskipafjelags Íslands hefir sagt mjer, að hann hafi fengið lauslegt tilboð í skip í líkingu við Austra og Vestra, og var það 375 þús. danskar krónur. Í þessu tilboði var ekki tekið tillit til kæliúbúnaðar. Með núverandi gengismun er þetta 440 þús. kr., eða tæplega það. Við þetta bætist kæliútbúnaðurinn og auk þess á skipið eftir tillögunni að vera 10 fetum lengra. Þegar Nielsen framkvæmdarstjóri sá tillöguna, símaði hann til útlanda á ný og spurði, hve mikið slíkt skip mundi kosta, og fjekk það svar, að það mundi ekki verða undir ½ miljón með öllum útbúnaði. Það er rjett að horfast strax í augu við kostnaðinn og vera ekki að gera sjer vonir um, að skipið kosti ekki nema 400 þús. kr., og víst er það, að ekki verður hætt við byggingu skipsins eftir að byrjað er á henni, þótt 100 þús. kr. vantaði upp á fjárveitinguna. Auk þess gæti jeg búist við, að það kæmi til með að kosta meira áður en það væri komið á flot, að fullu útbúið til strandferða. Jeg vildi því mælast til þess við hv. flm., að þeir vildu gera kæliskipsmálinu þann greiða að bera þetta mál fram sjerstaklega, til þess að spilla ekki fyrir kæliskipinu. Ef meiri hluti hv. deildar er með því að byggja strandferðaskip, þá nær það fram að ganga, þó það sje borið fram sjerstaklega. Mjer finst hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) hafa mikið til síns máls, er hann vill láta vísa þessu máli til samgmn. Jeg álít, að það sje erfitt að vísa þeirri kröfu á bug, að mál þetta verði nú látið ganga til samgmn. Mjer finst hún eiga rjett á því að segja álit sitt um málið. Frv. mitt um kæliskipið afhenti jeg fyrst hv. landbn. vegna þess, að jeg leit svo á, að framlagið til kæliskipsins væri í þágu landbúnaðarins sjerstaklega, en það er ekki hægt að segja um byggingu strandferðaskips, að það sje sjerstaklega í þágu landbúnaðarins. Ef mál þetta kæmi til hv. Ed. með þessari breytingu, þá er athugamál, hvort því yrði ekki þar vísað til samgmn. (TrÞ: Það er á móti þingsköpum). Hv. þm. ætti að vera það kunnugt, að það er hægt að veita undanþágur frá þingsköpum, og auk þess getur mál breyst svo í meðferðinni, að það verði alt annað mál en það var í upphafi.

Mjer virtist hv. aðalflm. gera lítið úr því, að kæliskipið mundi bæta nokkuð að ráði úr strandferðunum. En það mun áreiðanlega bæta þær mikið. Kæliskipið mun sigla milli landa eins og Goðafoss gerir nú, en ferðir Goðafoss eru hentugustu strandferðir, sem við höfum nú. Hann tekur vörurnar erlendis og flytur þær beint til þeirra hafna, sem þær eiga að fara á, svo á þær fellur ekkert aukaflutningsgjald. Jeg er því viss um, að þetta skip mun bæta mikið úr strandferðunum. Jeg viðurkenni það auðvitað, að það er ekki þess hlutverk að smjúga inn á hverja vík og vog, eins og hinir hv. flm. hafa orðað það, en ef það tekur vörur erlendis svo nokkru nemur til smáhafna, þá mun það skila þeim þangað beint, líkt og Goðafoss gerir nú.

Bæði hv. l. flm. (SvÓ) og hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) báru saman samgöngur á landi og sjó og sögðu, að strandferðir væru verri nú en þær hefðu verið áður. Það er rjett, að meðan Austri og Vestri gengu hjer voru strandferðirnar góðar, en ef litið er til síðustu ára, þá er öðru nær en strandferðirnar hafi orðið útundan, ef borið er saman við samgöngubætur á landi. Það hefir mjög litlu verið varið til vega í fjárlögum síðustu ára, aðeins haldið við. En á þessu tímabili hefir verið keypt eitt gott strandferðaskip, og auk þess miklu fje varið til þess að styrkja flóabáta. Jeg er sannfærður um, að sá samanburður er rangur, ef sagt er, að strandferðirnar hafi orðið útundan fyrir vegabótunum.

Einhver mintist á bryggjuna í Borgarnesi og taldi ósamræmi í því að veita fje til hennar, en neita um strandferðaskip. Jeg fæ nú ekki betur sjeð en að bryggjugerð í Borgarnesi sje þáttur í því að bæta úr strandferðum. Jeg hefi oft farið leiðina norður, um Borgarnes, og jeg verð að segja það, að það er hörmulegt til þess að vita, hve oft fjöldi manna verður að bíða dögum saman í Borgarnesi, vegna þess að ekki er hægt að afgreiða skipið. Hvaða gagn er að því, þótt fljótt sje lagður vegur milli Borgarness og Norðurlands, ef menn verða svo að bíða marga daga veðurteptir í Borgarnesi vegna bryggjuleysis.

Jeg hygg, að meðan ekki er lengra komin notkun kælirúms en nú er, þá ættum við ekki að hugsa um nema eitt kæliskip að sinni. Betra að láta vöxtinn koma smátt og smátt. Jeg viðurkenni, að það væri æskilegt að hafa kæliskip á smáhöfnunum, til þess að flytja kjötið á stærri hafnirnar, en skilyrðið til þess er, að þá sjeu til frystihús á stærri höfnunum; annars verður varan ónýt. En jeg trúi því naumast, að slík: frystihús verði komin hjer upp fyrir vorið 1927. Það tekur tíma að venjast notkun kælirúma, eins og öðru, og held jeg því, að þetta eina kæliskip sje nægilegt að sinni og geti gert mikið gagn.

Jeg vil undirstrika það, sem hv. frsm. landbn. (JS) sagði, að það er ekki annað sjáanlegt en að strandferðaskipið eigi að ganga fyrir hinu skipinu. Þá vil jeg og benda á það, að það er æskilegt, að mál þetta komist sem fyrst út úr þinginu. Það er þörf á því að semja sem fyrst um byggingu á skipinu. Efni til skipasmíðar er frekar lágt núna, en búist er við, að það hækki á næstunni. Því er best að gera samninginn sem fyrst. En það er ekki hægt fyr en þetta frv. er orðið að lögum.

Mjer þykir það eðlilegt, að hv. þm. A.-Sk. detti fyrst í hug slæmar samgöngur við Hornafjörð og miði margt við það, en þegar hann segist aðeins tvisvar sinnum hafa sjeð strandferðaskipið á síðastliðnu ári, þá er þetta ekki rjett. Það má minna á það, að Hornafjarðarbáturinn hefir fengið töluverðan styrk. Því er ekki nema hálfsögð sagan, þar sem það getur ekki verið lífsskilyrði fyrir þá þar eystra að hafa Esjuna, ef þeir hafa sjerstakan, ríkissjóðsstyrktan bát til þess að flytja vörurnar að sjer og frá. Þá mintist þessi háttv. þm. á það, að það væru ekki flm. till. einir, sem væru bjartsýnir, heldur væri stjórnin það líka, og færði fyrir því þau rök, að stórar upphæðir væru veittar til símalagninga í fjárlagafrv. stjórnarinnar. En hann sjer væntanlega, að því fleiri stórupphæðir, sem um er að ræða, því örðugra verður að standast kostnaðinn. En ástæðan fyrir því, að upphæðin til símalagninga varð svo há, er sú, að meiningin var að tengja Vestfjarðasímann saman að vestanverðu, og eru sjerstakar ástæður sem valda þessu. Þá mintist hann á, að þetta skip mundi geta sparað fjárveitingar til flóabáta. Ekki sparar það Borgarnesbátinn, ekki Víkurbátinn og ekki bátinn á Ísafjarðardjúpi. En þetta eru dýrustu bátarnir. Það kann að vera að það geti sparað Hornafjarðarbátinn, en þó er jeg ekki viss um það. En enginn efi er á því, að þetta skip verður dýrt í rekstri, að minsta kosti 150 þús. kr. á ári. Það er því ekki svo, að hjer sje aðeins að ræða um framlag í eitt skifti fyrir öll, heldur er líka bundinn þungur baggi í framtíðinni. Jeg neita því ekki, að það væri framfaraspor að fá skip þetta, en jeg held því hinsvegar fram, að við höfum ekki ráð á því að svo stöddu að stíga þetta spor. Við verðum nú að láta okkur nægja að taka annað skrefið, sem sje kæliskipið.

Jeg vil að síðustu endurtaka þá ósk mína og bæn, að hv. flm. taki þessa. till. sína aftur og beri hana fram sjerstaklega síðar, svo þeir tefji ekki kæliskipsmálið, sem þeir telja gott og gagnlegt.