12.03.1926
Neðri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. aðalflm. (SvÓ) hefir lýst yfir því, að hann vildi ekki taka aftur brtt., þó að jeg hafi mjög lagt að honum með það, og bar hv. þm. því við, að hann hafi ekki getað borið sig saman við meðflm. sína. En jeg vil minna hv. þm. á það, að jeg fór fram á þetta við hann í gær, og hafði hann því nógan tíma til þess, og jeg skildi það líka svo, þegar málið var tekið út af dagskrá í gær, að það væri einmitt til þess að athuga, hvort brtt. skyldi tekin aftur. Jeg skildi líka svo hv. þm. úr landbn., því að jeg vil ekki geta þess til, að þetta hafi aðeins verið gert til þess að draga málið. Jeg sagði alls ekki, að þessi till., sem hjer er á ferðinni, væri óvinsæl, heldur sagði jeg, að hjer væri hnýtt minna vinsælu máli aftan í annað vinsælla, og það eru nú komnar fram ótvíræðar sannanir um það í dag, svo að það sjest, að jeg hefi ekkert ofmælt í þessu. Og jeg verð að endurtaka það, að samgmn. beggja deilda hafa ákveðið það að ráða ekki af að byggja strandferðaskip á þessu ári. Það lá fyrir nefndum beggja deilda till. um það, en því var í hvorugri deildinni sint, og þess vegna er það auðsætt, að það getur ekki orðið samróma samþykt um þetta hjer í þinginu, en allir, sem talað hafa, hafa lýst sig samþykka því, að kæliskipsmálið gangi fram. Þessi till. getur því ekki verið borin fram til þess að styðja kæliskipsmálið; það er ómögulegt. Mjer skildist hv. aðalflm. till. (SvÓ) viðurkenna, að það væri of lágt áætlaður byggingarkostnaður í brtt. hans og sagði, að það mundi sennilega þurfa 450 þús. kr., og vil jeg þá benda hv. flm. (SvÓ) á, að í brtt. stendur, að það megi verja alt að 400 þús. kr., svo að þá eru 400 þús. kr. hámarkið, og er einkennilegt að taka svo til orða, þegar hv. þm. (SvÓ) veit, að það þarf meira fje. Þá var eitt atriði, sem hv. þm. hafði ekki rjett eftir mjer. Jeg sagði ekki, að það væri ekki hægt að láta vera að vísa þessari brtt. til samgmn. til athugunar, heldur benti jeg á, að það mundi vera erfitt að standa á móti þeirri kröfu, ef nefndin vildi fá það til athugunar. Jeg og hv. samþm. minn (JS) sögðum ekkert meira um þetta atriði. En það sýnist nú vera svo, að hv. þm. (SvÓ) setji strandferðaskipið hærra en kæliskipið, og sömuleiðis kom það fram hjá hv. þm. að hann hjelt, að Eimskipafjelag Íslands myndi fresta að byggja kæliskipið. En jeg get fullvissað hv. þm. um, að það er tilgangurinn að gera samningana eins fljótt og hægt er, ef þetta frv. verður samþykt, og að þetta er ábyggilegt, því að skipið á að verða líkt og Goðafoss, nema hvað farþegarúmið og kæliútbúnaðinn snertir.

Hv. þm. Str. kvaðst hafa búist við, að þessari till. yrði tekið með fögnuði miklum, en á hverju byggir hv. þm. það? Ekki þó á nál. samgmn. beggja deilda. Auðvitað er það rjett, sem hv. þm. segir, að þetta mál gengur fram, ef meiri hl. allra þm. verða með því, og þess vegna bað jeg um það, að málið væri látið koma fram sjerstakt; en það var einmitt það, sem hv. flm. vildu ekki. Þeir vildu reyna að láta það fljóta í skjóli annars vinsælla máls, og jeg skil ekki, að hv. þm. Str. eða aðrir hv. þm. geti farið í neinar grafgötur um það, að við getum ekki fylgt þessari brtt., ef hæstv. fjrh. treystir sjer ekki til að lofa svona hárri upphæð. (SvÓ): Hvað treystir sá hæstv. ráðh. sjer til að leggja fram í fyrirhugaða járnbraut?). Það mál er ekki komið hjer enn, en jeg býst við, að fjrh. muni segja til þess á sínum tíma, hve mikið hann sjái sjer fært að leggja til þess fyrirtækis; en annars hygg jeg, að hv. 1. þm. S.-M. hafi enga heimild til þess að spyrja mig um það, hvað hæstv. fjrh. ætlar sjer. Jeg vonaði, að þetta mál gæti gengið fljótt gegnum þingið, vegna þess að það eru svo að segja allir háttv. þm., sem eru því fylgjandi, og það er áríðandi að fá málið afgreitt sem fyrst, því að ekki er víst, að það tilboð, sem nú er fyrir hendi, standi lengi. Til þess að flýta fyrir málinu fjekk jeg nefnd til þess að flytja það, í von um, að það þá fengi fljótari afgreiðslu, en upphaflega ætlaði jeg mjer að hafa þetta frv. stjfrv., því að jeg bjóst við að geta fengið svo fljótt svar frá fjelaginu, að jeg gæti haft það frv. til á líkum tíma og hin, en eins og frv. sýnir, þá kom ekki svar frá fjelaginu fyr en 24. febr. þ. á. Hvort mjer annars verður að von minni um framgang þessa máls, skal jeg ekki spá neinu, en leyfa mjer að vona það í lengstu lög. Að síðustu tek jeg það fram, að brtt. er í rauninni beint banatilræði við kæliskipsmálið, því að þótt vjer getum lagt fram 350 þús. kr. til kæliskips, getum vjer ekki auk þess lagt fram um ½ miljón á sama ári til strandferðaskips. Og kæliskipið á að ganga fyrir.