24.03.1926
Efri deild: 36. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Jónas Jónsson:

Mjer finst það hlýða, þó að ekki sjeu skiftar skoðanir um þetta mál, að fylgja því úr hlaði með nokkrum orðum frá sjónarmiði þeirra manna, sem hafa barist fyrir þessu máli undanfarin ár. Jeg skal þá fyrst lýsa ánægju minni yfir því, að þessu máli er nú siglt í trygga höfn. Það er augljóst, að hjer er verið að bæta úr tvöfaldri þörf: þörf landsins fyrir kæliskip og þörf Eimskipafjelagsins til að auka skipastól sinn, og það er fjelaginu hin mesta nauðsyn, ekki síst vegna hinnar hörðu samkepni við tvö erlend eimskipafjelög. Ef ekki væri bætt úr þessu, gæti farið fyrir okkur eins og Færeyingum frændum okkar, sem ætluðu að eignast sinn eiginn skipakost, en voru sigldir í kaf í samkepninni við erlend skipafjelög. Það er ef til vill ekki ástæða til að tala um þetta hjer, en þó má benda á það, að svo hagar til hjer, að tilkostnaður verður meiri en hjá hinum erlendu fjelögum, er við okkur keppa. Enda er lífinu hjer í Reykjavík þannig háttað, að nokkur ástæða er til að óttast, að höfuðstaður Íslands verði slíkt dýrtíðarbæli, að það geri samkepnina örðuga. Hitt atriðið í þessu máli er það, að eins og kunnugt er, er markaður fyrir íslenskt kjöt mjög þröngur, og er það hin mesta nauðsyn að bæta úr því. Þá er það ekki síður kunnugt, að kaupfjelögin hafa undanfarin ár heitt sjer fyrir þessu máli. Hafa þau gert tilraunir með að senda frosið kjöt til Englands, og þó að árangurinn hafi ekki orðið tómir sigrar, mun þó mega treysta því, að það takist að vinna markað fyrir nýtt kjöt, ef góð tæki eru til að koma því á markaðinn. Mjer þykir rjett að taka það fram hjer, vegna villandi ummæla, sem komið hafa fram annarsstaðar en hjer, að málið hefir verið borið uppi af kaupfjelögum landsins. Fyrst var leitað samkomulags við útvegsmenn, en þeir álitu, að þó að málið væri gott út af fyrir sig, mundi skip ekki koma þeim að notum. Og þegar skipuð var nefnd til að athuga þetta mál, þar sem tveir fulltrúar voru fyrir landbúnaðinn, þá hjeldu þeir málinu fram þrátt fyrir það, að fjelagar þeirra frá útvegi og verslun lögðu til, að það yrði lagt á hilluna.

Það mun mega telja Jón Árnason framkvæmdarstjóra upphafsmann þessarar hugmyndar, og hefir hann manna mest unnið að því að skýra málið og skapa trú manna á möguleikum þess. Hann hefir líka manna besta aðstöðu til að vinna að þessa máli, því að bæði hafði hann haft með höndum tilraunir í þessa átt og er auk þess fulltrúi landsins í stjórn Eimskipafjelagsins. Og þegar það fór að verða mikil nauðsyn Eimskipafjelaginu að auka skipakost fjelagsins, til þess að geta staðist samkepnina við hin erlendu eimskipafjelög — í sambandi við það er rjett að taka það fram, að fjelaginu er hin mesta nauðsyn að geta kept á hinum stærri höfnum við skip eins og „Ísland“, „Botnia“ og „Lyra“, en það getur það ekki með þeim skipastól, sem það hefir nú, enda hefir fjelagið undir stjórn hins ágæta framkvæmdarstjóra, þó útlendur sje, kostað kapps um að vera þjóðlegt og látið þarfir landsins sitja í fyrirrúmi fyrir eigin gróða — og þegar það var sýnt, að fjelagið mundi ekki geta útvegað þetta skip af eigin ramleik, þá var það, að Jón Árnason gaf ríkisstjórninni, sem hann er fulltrúi fyrir, skýrslu um málavöxtu og skýrði frá því, að mikil hreyfing væri innan Eimskipafjelagsins um að láta byggja nýtt skip, og að komið gæti til mála, að það gæti orðið kæliskip, ef ríkið legði fram einhvern skerf til skipsbyggingarinnar. Atvinnumálaráðherra tók strax mjög vel í þetta mál og skrifaði stjórn Eimskipafjelagins um málið. Þingið hefir nú tekið máli þessu svo vel, að enginn hefir mælt í móti, og jeg þykist þess fullviss, að framgangur þessa máls sje næg viðurkenning öllum þeim, sem eitthvað hafa til þess lagt.