24.03.1926
Efri deild: 36. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Jónas Jónsson:

Jeg get raunar sagt eins og síðasti ræðumaður, að jeg hefi ekki miklu að bæta við það, sem jeg hefi þegar sagt. En mjer virðist hv. frsm. (GunnÓ) ekki hafa ástæðu til að taka til þess, þó þeir, sem fyrir rás viðburðanna eru málinu kunnugri en hann sjálfur, láti það koma fram. Og tilgangur minn var sá, að láta það koma óbeint fram til athugunar hv. frsm., sem er einn af helstu útvegsmönnum hjer, að það bæri að gera svipaða ráðstöfun af hálfu sjávarútvegsmanna, taka svipuðum tökum um markaðsleit fyrir sjávarafurðir, og ætti þjóðfjelagið að styðja það á einhvern hátt. Jeg ætla ekki að þreyta menn á að endurtaka neitt af því, sem jeg hefi áður sagt og öllum er kunnugt. En jeg vil minna hv. frsm. á það, að hann ætti að vinna að því máli — ekki sjer til hróss og dýrðar í augum fólksins, heldur minni jeg hann á, að það þurfi í nytjaskyni að byrja á undirbúningsrannsókn viðvíkjandi þeim málum, sem snerta atvinnuveg hans svo mjög. Hjer er nú verið að ljúka við einn þáttinn í kjötverslunarþróuninni. En að það mál hefir fengið hjer svo góðar undirtektir, sem raun ber vitni, stafar fyrst og fremst af því, hve vel það var undirbúið og hvert traust menn hafa á þeim undirbúningi. (GunnÓ: Var það ekki hæstv. núverandi landsstjórn, sem rannsakaði málið og undirbjó það best?). Af því að hv. 5. landsk. er gamall maður, vil jeg ekki hreyfa neitt við ellidraumum hans, því hvert barn á landinu veit þetta betur en hann. Hann er sá eini, sem virðist ekki vita neitt í sögu þessa máls.