18.03.1927
Efri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jón Baldvinsson):

Mjer þótti það undarlegt hjá hæstv. forsrh. (JÞ), þegar hann var að tala um framkvæmdirnar á Ísafirði, að hann kvað mig hafa eyðilagt allar aðfinslurnar með því ógætnisverki að gefa bankastjórum Íslandsbanka heiðarleikavottorð. Enginn hefir nú farið ver með þessa bankastjóra heldur en hæstv. ráðh. sjálfur, með því að lýsa yfir því, að hann álíti þá ekki þinghæfa. Því er engin furða, þótt honum þyki undarlegt, að jeg vil ekki bendla þá við hlutdrægni eða óhlutvendni. Einstaka maður hefir nú verið svo illkvittinn að láta sjer detta í hug, að þessi dómur hæstv. ráðh. um Íslandsbankastjórana væri ekki fram kominn vegna þeirra allra, heldur mest sakir eins þeirra, sem sumir vilja kalla keppinaut hæstv. ráðh. á vissum sviðum. — Það er samt því undarlegra, að hæstv. ráðh. vill ekki leyfa mönnum að tala virðulega um þessa bankastjóra, þar sem sjálfur hann þóttist vera að verja þeirra málstað. — En það er víst aðallega þessi elskulegi flokksbróðir hæstv. ráðh. á Ísafirði, sem ekki má anda á. Vitanlega er það eftir hans tillögum, sem málum er svo komið, sem orðið er. Það liggja fyrir fullkomnar sannanir um það, að hann hefir reynt að selja út úr bænum bátana, sem þar á Ísafirði eru aðalatvinnutækin. Hann hefir rökstutt það með því, að útsvörin væru svo há á Ísafirði, að ómögulegt væri fyrir framleiðsluna að bera þau. En það er sannanlegt, að útsvör eru ekki hærri þar en hvar annarsstaðar. Við einn bæjarfulltrúann á Ísafirði hefir þessi dýrlingur íhaldsmanna sagt: „Þið hafið komið öllu á hausinn með útsvörunum; nú er best, að þið takið við öllu“. En það er við þessi orð að athuga, að bátarnir tapa, þótt útsvörin sjeu ekki reiknuð með, og hjer er því aðeins verið að ná sjer niðri á pólitískum andstæðingi. Jeg hefi hjer aðeins tekið eitt dæmi úr bankastarfsemi þessa manns. En jeg á bágt með að trúa því, að hæstv. forsrh. hafi farið varhluta af þeim orðrómi, sem fer af bankastarfseminni bæði á Ísafirði og í Vestmannaeyjum, því að það er öllum kunnugt, að á þessum stöðum er hlynt að Íhaldsmönnum fram úr öllu hófi. En þó þetta sje viðurkent, þarf það enganveginn að skerða heiðarleik bankastjóranna í Reykjavík, því að vitanlega ráða útibússtjórarnir öllu um daglega starfsemi sína.

Hæstv. forsrh. skaut því til mín, að jeg skyldi semja brtt. við frv., og bauðst jafnvel til að verja nokkru af sínum dýrmæta tíma til þess að hjálpa mjer að gera þær formlega úr garði. Mjer finst þetta tilboð nú ekki svo ógurlega glæsilegt, því að hæstv. ráðherra hefir sett inn í Landsbankafrv., sem fyrir hv. deild liggur, ákvæði um almenna ábyrgð ríkissjóðs á öllum lánum bankans, og að öðru leyti hefir hann klúðrað þetta mál svo, að hann verður tæplega talinn hinn ákjósanlegasti leiðbeinandi.

Hæstv. ráðherra sagði, að það væri skylda ríkisstjórnarinnar og ríkisvaldsins að veita bönkunum nauðsynlega aðstoð. Jeg get vel tekið undir þetta, en vafamálið er, hvenær um nauðsynlega aðstoð sje að ræða. Mjer skilst t. d., að hjer geti ekki verið um nauðsynlega aðstoð handa Landsbankanum að ræða. Það hefir upplýst í málinu, að Landsbankinn á ekki að nota þetta fje handa sjálfum sjer, heldur fyrst og fremst til þess að geta lánað Íslandsbanka erlendan gjaldeyri. Það er þetta, sem má teljast hið óheilbrigða í málinu, að fá Landsbankann til að taka lán, sem hann sjálfur hefir enga þörf fyrir, og skipa honum síðan að lána það öðrum, sem hann ef til vill hefir ekki það traust á, að hann vilji lána stórfje. Loks þegar þetta er komið vel á veg, að koma þá til Alþingis og knýja það til að leggja blessun sína yfir alt saman. Það hefði verið ólíkt hreinni og drengilegri framkoma að leita til Alþingis um það, hvort því sýndist rjett að ganga í ábyrgð fyrir Íslandsbanka sjálfan. Jeg fyrir mitt leyti hefði tekið slíka málaleitun til mjög velviljaðrar yfirvegunar.

Það er enginn efi á því, að hæstv. ráðh. getur haft mikil áhrif um það, hvernig þessu láni er varið. Það er líka beint sannað í þessu máli, að hann hefir ráðstafað af því nokkrum hluta, og það kalla jeg miklu meiri afskifti en jeg hefði búist við af hæstv. ráðherra. Það er þvert á móti því, sem hann gerði ráð fyrir. (Forseti JKr: Athugasemdin hlýtur að fara að verða búin. Jeg gef þingmanninum eina mínútu enn).

Mjer finst það hart hjá hæstv. forseta að takmarka svona við mig málfrelsi, þegar hann veit, að nál., sem gefur mjer rjett til þess að halda eina ræðu enn og athugasemd til, er væntanlegt á hverri stundu. Já, hæstv. forseti má gjarnan nudda hnallinn til þess að hringja bjöllunni; en hann veit, að þetta er í raun og veru ekki rjett hjá honum að meina mjer að tala. — Jeg er rjett að verða búinn, svo að það verður ekki nema töf hjá hæstv. forseta að taka fram í.

Hæstv. ráðh. getur ekki skilið, að hann og stjórnin hafi orðið til hálfgerðrar minkunar fyrir þetta form um ábyrgð fyrir bankann á erlendum lánum. Honum finst það svo gott og blessað, þegar við erum nú komnir niður á þetta gullfallega form á þskj. 130, sem raunar margir efast um, að sje heppilegt, — þá sje búið að finna lausnina og verði að sjálfsögðu að breyta bankafrv. í það form, að feld sje niður sú heimild stjórnarinnar til þess að — — (Forseti JKr: Þingmaðurinn hefir lokið máli sínu). Jeg beygi mig fyrir því, sem hæstv. forseti úrskurðar, en vænti þess, að nál. komi, sem veitir mjer rjett til að tala frekar í máli þessu.