21.03.1927
Efri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jónas Jónsson):

Jeg er nú svo kvefaður, að óvíst er, að skrifarar heyri til mín. En jeg vildi gera nokkrar athugasemdir við ræðu hæstv. ráðh. Hann neitaði því, að hafa gert nokkrar ráðstafanir á þessu láni frá sinni hálfu. Hann hefir margjátað það fyrir nefndinni, að Íslandsbanki eigi að fá stóra tilgreinda upphæð fyrir tilstilli landsstjórnarinnar. Ennfremur kom það ljóst fram, að Landsbankinn gat ekki orðið við þessari bón hæstv. ráðh., nema með aukinni hjálp utan að frá. Þetta sýnir, að tilefni málsins er þessi beiðni hæstv. ráðh. Það er meira að segja ástæða til að halda, að Íslandsbanki hafi nú þegar fengið hjálp frá Landsbankanum upp á vonina á þessu láni.

Hæstv. forsrh. var að ávíta mig fyrir, að jeg hefði ekki búið vel úr garði það frv., sem jeg bar hjer fram nýlega. Þegar jeg benti honum á, að það var samið í samráði við einn af bestu lögfræðingum, þá virtist hann hringsnúast alt í einu og játa, að reyndar hefði það verið gott að formi til. Hann hefir þá líklega verið að setja út á innihaldið, — sem sje að taka megi ölvaða embættismenn og láta sæta ábyrgð, eins og taka má ölvaða bílstjóra. Þarna eru stjettarhagsmunir, en það er ekki verið að hugsa um góðu mennina — sem eru líklega flestir — heldur úrhrökin, sem maður skyldi þó halda, að stjórnin vildi sigta úr.

Jeg hafði bent hæstv. forsrh. á það, að hlutverk okkar Framsóknarmanna er að koma með hugmyndir og ala hinn skilningslitla hluta þingsins og þjóðarinnar upp til meiri manndóms. Tekur þetta auðvitað misjafnlega langan tíma. Má taka dæmi um byggingar- og landnámssjóð, sem hæstv. forsrh. rjeðist á móti 1925 með mikilli grimd og vildi fella málið frá 2. umr. Nú er svo komið, að „stemningin“ utan af landinu er farin að anda skarpt í þessa átt, svo að menn treysta sjer ekki til annars en að játa fylgi sitt við hugmyndina. Þetta er ekkert nýtt. Það er gamla sagan, Framsóknin skapar það nýja. Hún verður svo að toga í íhaldið áfram, þangað til það lætur undan. Alveg eins var þetta í sjálfstæðismálinu. Þar voru það þeir menn, sem djarfastir voru og hugsuðu stærst, sem sköpuðu það formlega frelsi, sem við höfum. Það voru þunglamalegu silakeppirnir, sem drógu úr, þangað til tilfinning þjóðarinnar rak þá áfram. Þeir þorðu ekki annað. Í dag vorum við vitni að framkvæmd einnar slíkrar hugsjónar, þar sem skip bar að landi. Það skip var bygt eftir tillögum og rannsókn tveggja Framsóknarmanna í milliþinganefnd í kæliskipsmálinu. Á þeirri miklu stund, þegar rætt var um, hvort taka skyldi til framkvæmda eða ekki, þá brugðust tveir íhaldsmenn, — þeir sáu ekki nauðsyn á slíkum umbótum. En þjóðin sannfærðist um gildi þessarar hugsjónar, sem þessir tveir Framsóknarmenn leiddu rjett rök að. Og svo fór í fyrra, að íhaldið sá sjer ekki annað fært en að styðja þetta mál.

Af því að hæstv. forsrh. var að vitna í kveðskap, þá vildi jeg viðvíkjandi þeim hugsunarhætti, sem kemur fram hjá íhaldinu — ekki einungis hjer, heldur í öllum löndum — taka 2–3 línur eftir eitt af okkar mestu þjóðskáldum. Þær hljóða svo: Að verma sitt hræ við annara eld, að eigna sjer bráð, sem af hinum var feld, var grikkur að raumanna geði.

Hæstv. forsrh. kom þá að peningamálunum aftur. Hann virtist neita, að hann hefði nokkurntíma alið þá hugsjón, að landið ætti að vera skuldlaust út á við á því mikla ári 1943. En jeg vil benda á, að blað hans flokks, sem jeg ætla að „Hænir“ hafi heitið þá, sagði frá 3 fundum, á Seyðisfirði, Egilsstöðum og Eskifirði, og sagði beint, að hæstv. ráðh. hafi sett það fram, að Ísland myndi þá verða eina landið í Evrópu án ríkisskulda. Nú er áreiðanlegt, að ritstjórinn var á fundinum á Seyðisfirði, og mjög sennilega á Egilsstöðum líka; og að einni fundargerðinni var hann sjónarvottur. Þó að maðurinn sje kannske ekki sjerlega skýr, þá er engum blöðum um það að fletta, að hjer er rjett hermt; hann hefði heldur varla farið að gera hæstv. forsrh. misrjetti í þessu, sínum samflokksmanni.

Þegar jeg var búinn að benda hæstv. forsrh. á þessa hugsjón í vetur og að farið væri að bóla á því, að hann ætlaði að hafa hana að engu, þá mun hafa komið í blaði hæstv. forsrh. einhver afsökun. En hann hefir aldrei getið upp á því, hvort ritstjórinn hafi upphaflega skrökvað þessu, að hæstv. ráðherra vildi vinna að því, að landið yrði skuldlaust 1943.

Um leið og hæstv. ráðh. afneitaði þessari hugsjón, vildi hann gera mun á því, hvað væri ríkisskuld og ábyrgð. Náttúrlega er þar nokkur munur, meðan ekki þarf að borga ábyrgðina. En úr því er munurinn lítill. Nú skulum við hugsa okkur, að Íslandsbanki — sem 1921 fjekk lán, sem ennþá standa eftir af 6 milj. — verði fyrir stöðugum óhöppum og tapi trausti, eins og hann virðist hafa tapað því í vetur sem leið, þegar hann misti 6 milj. af sínu innstæðufje. Óhöppin geta orðið svo mögnuð, að hann verði í vandræðum með að standa skil á þessu. Getur ekki komið að því, að þetta, sem í raun og veru er skoðað sem ábyrgð, verði í skuld? Við vonum að sjálfsögðu allir, að svo verði ekki. En jeg tek þetta dæmi. Og ef til þess kemur, að bankinn getur ekki greitt þetta, þá er það aðeins af því, að atvinnuvegirnir eru lamaðir. Og hæstv. forsrh. veit, hver hefir valdið þeirri lömun í seinni tíð. Í vor verður landið komið í ábyrgð fyrir 30–40 milj. króna, og þar við bætist, að bankarnir, sjerstaklega Íslandsbanki, geta skuldað stórfje að auki, sem þar við á að leggjast, svo sem póstsjóðsskuld Íslandsbanka. Og þá tel jeg sennilegt, að ef við eigum nú að taka seinasta fimtunginn til þess að krónan komist í gullgildi, þá muni hætt við, að eitthvað af þessari nýju ábyrgð lendi á ríkinu og verði þar með ríkisskuld. Og hæstv. fjrh. er ekki svo skyni skroppinn, að hann viti það ekki, að ábyrgð getur í mörgum tilfellum orðið hið sama og skuld.

Jeg hefi áður sýnt fram á, hvað það er, sem setur bankana hjer á kaldan klaka, en það er misvægi það, sem orðið er á verði íslenskra afurða og erlendrar vöru. Og ef þetta misvægi helst áfram eða magnast, þá er hætt við, að íslenskum atvinnuvegum blæði til ólífis og þá fari svo, að þetta lán, sem ríkið á nú að ábyrgjast, verði ríkisskuld.

Jeg skal minnast hjer á eitt lítið dæmi um það, hvernig farið getur í viðskiftalífinu. Á Vesturlandi var fyrirtæki, sem var eign útlendinga. Til þess að þetta fyrirtæki gæti orðið íslensk eign, lagði Íslandsbanki fram eina miljón króna, og gerði hann það vafalaust í góðri trú, og hafði það fyrir augum að koma hjer upp innlendri iðju í stað hinnar útlendu. En þegar á fyrsta ári hefir bankinn tapað þessu öllu. Jeg þykist vita, að hæstv. fjrh. sje svo fjárglöggur maður, að hann viti það, að eins lítil þjóð og Íslendingar eru er lengi að vinna upp einnar milj. kr. tjón. En nú er ekki svo sem þetta sje eina tjónið. Nei, bankarnir hjer hafa tapað mörgum miljónum, Íslandsbanki t. d. 5 milj. kr. á einu fyrirtæki.

Nú vil jeg spyrja hæstv. fjrh. út af þessu: Er ekki hættan komin áður en varir? Er ekki þessi ábyrgð skollin á ríkissjóði áður en varir og orðin ríkisskuld?

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki mætti miða við það, þótt þröngt yrði í búi eitt ár, því að þegar góðæri kæmi, þá mundu hinar feitu kýr Faraós jeta upp hinar mögru. Jeg veit nú ekki betur en að hjer hafi komið góðæri fyrir skemstu, og dugði þó ekki til. Mörg erlend vara er nú lítið ódýrari en var meðan krónan var 60 aura gullsígildi. En hvernig er svo verðið fyrir afurðir okkar? Það er vissa, en ekki nein tilgáta, að væri krónan nú 60 aura gullsígildi, þá mundi allur almenningur ekki finna neitt til þess, en allar íslenskar afurðir mundu vera í hærra verði og atvinnuvegirnir standa miklu betur að vígi en raun er á. Og hjer er sjón sögu ríkari um það, hvað fjármálastefna hæstv. fjrh. hefir kostað landið, því að ekki þyrfti að koma til þingsins og biðja um lán á lán ofan, ef hún væri góð.

Eins og jeg hefi tekið fram í nál. mínu, eru nú góðar horfur á því, að lánsstofnanir landsins muni bráðlega skulda 40 milj. króna erlendis, eða meira. Hæstv. fjrh. mun kunnugt um það, að allar þessar skuldir hafa safnast seinustu árin, því að árið 1919 áttu bankarnir þó nokkuð fje inni erlendis. En síðan 1919 hefir altaf sigið á ógæfuhlið.

Eins og jeg tók fram hjer í dag, þá er það heiðarlegt, að margir Íhaldsmenn hjer í bæ bera þetta mál mjög fyrir brjósti og óttast þessa lántöku. Þeir hræðast hreint og beint þessi sífeldu lán, sem þeim koma ókunnuglega fyrir sjónir, einmitt vegna margítrekaðra og margendurtekinna ummæla og loforða hæstv. fjrh. Og mjer er kunnugt um það, að einn kunnur og sterkur Íhaldsmaður sagði fyrir fám dögum — hann sagði það að vísu ekki við mig, heldur við kunningja minn —, það var þegar hann heyrði, að þetta frv. væri á ferðinni. Hann sagðist vona, þótt hann væri á móti Framsóknarflokknum, að honum yrði þó helst trúandi til að afstýra þessari vitleysu.

Hæstv. ráðh. viðurkendi það, sem jeg hafði sagt áður, að hann hefði framið stjórnarskrárbrot með 15. gr. Landsbankalagafrv., er nú liggur fyrir þinginu, og eins með þessu, en hann gerði það ekki fyr en elsti maður hjer í deildinni, og jeg hygg elsti maður á þingi, skar upp úr með það, að þetta væri stjórnarskrárbrot. En þegar þessi hv. þm. skar upp úr með þetta, þá mun hæstv. forsrh. hafa viðurkent þetta með sjálfum sjer, og þá fór hann, eftir gömlum vana, að pára í bækur, — að þessu sinni ekki í gerðabók deildar, heldur í gerðabók fjárhagsnefndar. Og með þessu tel jeg því slegið föstu, að hjer sje um stjórnarskrárbrot að ræða, þar sem á að afhenda stjórninni ótakmarkað vald til þess að ábyrgjast lántökur fyrir Landsbankann.

Sá bankastjóri, er vann að lántökunni erlendis, var spurður að því á fundi fjárhagsnefndar, hvort Landsbankinn þyrfti lán nú sem stæði. Hann svaraði svo, að bankinn þyrfti þess ekki. Nefndin fjekk líka hjá honum aðrar upplýsingar, og af þeim kom skýrt fram, að svo framarlega sem Íslandsbanki hefði getað staðið straum af viðskiftunum út á við í hlutfalli við þau viðskifti, sem hann hefir hjer innan lands — ef hann hefði getað yfirfært fje til Danmerkur og Englands, þá hefði Landsbankinn ekki þurft að fá eina krónu að láni. Það er kreppa Íslandsbanka, sem nú hefir kastast yfir á herðar Landsbankans og orsakar það, að þetta lán á að taka. En þetta stafar aftur alt saman af því, hvernig gengishækkunin hefir farið með Íslandsbanka.

Þá vildi hæstv. forsrh. skjóta sjer undir verndarvæng fyrirrennara sinna og sagði, að árið 1924 hefði þáverandi stjórn veitt slíka ábyrgð sem þessa án leyfis Alþingis. Þótt jeg álíti lögskýringu þáverandi ráðherra og samflokksmanns míns ranga, þá vil jeg minna á það, að bak við ábyrgðina 1924 lá að dómi þingsins heimild frá 1921, og sú upphæð, sem ríkið ábyrgðist 1924, var lægri heldur en heimildin frá 1921 leyfði. Þetta var þó, að mínu áliti, aðeins óformleg heimild og óþingleg, en túlkun flokksbræðra hæstv. forsrh. á henni á þinginu 1923 gerir það afsakanlegt, þótt stjórnin veitti ábyrgðina 1924, og verður hún varla áfeld fyrir það.

En að sú skoðun sje rjett hjá mjer, að heimildin hafi verið óformleg, sjest best á því, að hinir amerísku fjármálamenn telja hana ekki fullnægjandi og heimta nú sjerstök og ákveðin lagafyrirmæli um þetta. í þessu sambandi vil jeg minna hæstv. fjrh. á það, út af afsökunum hans vegna þess að Íslandsbanki gat ekki staðið í skilum í fyrra með bráðabirgðalán sitt, er hann hafði fengið hjá landinu, að jeg er hræddur um, að slíkar afsakanir mundu hinir amerísku fjármálamenn ekki taka gildar.

Hæstv. fjrh. reyndi að flýja frá því að minnast á, hvernig sumir flokksbræður hans líta á gengispólitík hans, og að þeir eru mjer sammála. Þetta tek jeg sem algerða uppgjöf frá hans hálfu, og það skal jeg fullvissa hæstv. fjrh. um, að margir bændur og útvegsmenn vita vel, hvað gengishækkunin hefir þýtt.

Í seinustu ræðu sinni fór hæstv. fjrh. út á það svið, sem enginn mun hafa búist við, að hann hætti sjer út á, þar sem hann fór að tala um listir og skáldskap. Það er nú einn af megingöllum hæstv. ráðherra, að hann ber ekki hið minsta skynbragð á það, sem kallað er fagrar listir og skáldskapur; hann hefir engar gáfur til að meta það og enga þekkingu heldur. Þetta veit hann líka ósköp vel sjálfur, og því hættir hann sjer sjaldan út á þann hála ís að tala þar um. Hann líkist í þessu efni vissum húsdýrum, sem eru furðu góð að klöngrast slysalítið yfir mýrar og foræði, en þýðir ekki að hætta sjer út á svell. Já, hæstv. forsrh. var að vitna í Lear konung eftir Shakespeare. Ef hann hefði gáfnafar til þess að skilja Shakespeare, þá mundi hann ekki halda jafnvitlausar ræður hjer á þingi eins og hans er vandi. En úr því að við erum nú hjer farnir að tala um lán, veðsetningar og skáldskap, þá ætla jeg að hafa hjer yfir vísu eftir eitt stærsta þjóðskáldið okkar, vegna þess að hún á vel við um hæstv. ráðherra og stefnu hans og flokk hans:

„Það hefir ekki þennan svip,

þar sem stafna milli

alt er veðsett, von og skip,

væskla’ og þræla hylli.“

Þá skal jeg snúa mjer að hv. 6. landsk. (JKr) og minnast á það, sem hann var að tala um, að jeg ætti að hafa meiri samúð með kaupfjelögunum, sem öllum væri vitanlegt að skulduðu stórfje og þyrftu nú enn á miklu lánsfje að halda. Jeg skal þá benda honum á það, að ef ekki væru aðrir stærri og verri skuldunautar en kaupfjelögin eða S. í. S., þá væri ekki hundrað í hættunni, því að bankarnir hafa eigi enn tapað einum eyri á viðskiftunum við S. Í. S. Og á mestu krepputímunum, þegar Landsbankinn átti erfitt með að yfirfæra, þá ljet S. Í. S. bankann fá 1 miljón króna í erlendum gjaldeyri, og hjálpaði þá um leið keppinautum sínum, kaupmönnum, bæði á Sauðárkróki og annarsstaðar, þannig að þeir gátu fengið erlenda „valuta“ í gegnum bankann. Og jeg skal nú þegar taka það fram, og jeg fullyrði það, að þessar 9 miljónir, sem nú á að taka að láni, eru ekki fengnar vegna kaupfjelaganna nje S. Í. S.

Vegna þess hvað jeg er kvefaður og á bágt með að tala, þá verð jeg að geyma það betri tíma, með leyfi hæstv. forseta, að svara sjálfsjátningu hv. 6. landsk. (JKr) um syndafall hans í því máli, sem mest umtal og mesta athygli hefir vakið úti um land allra þeirra mála, sem fyrir þetta þing hafa komið, og á jeg þar við frv. um viðurlög við ölvun embættismanna og skipstjóra. Frv. þessu var ekki beint að háttv. 6. landsk., því að allir vita, að hann er aldrei ölvaður við embættisverk sín. En í þessu máli brást hann öllum þeim vonum og öllu því trausti, er menn höfðu gert til hans, þá er hann notaði þingatkvæði sitt til þess að drepa þetta mál, sem borið var fram eftir eindreginni ósk goodtemplara, styrktarmanna hans.

Jeg efast um, að jeg taki oftar til máls í kvöld, en mjer þykir vænt um, að mjer hefir tekist, bæði í nefndinni og hjer í hv. þingdeild, að leggja fram þau gögn í máli þessu, að miklar líkur eru til þess, að lánið verði betur notað og með meiri gætni heldur en hæstv. stjórn mun hafa hugsað sjer í öndverðu.

Hæstv. forsrh. (JÞ) barði sjer á brjóst og sagðist hvergi smeykur við að taka þetta lán, þótt kosningar væru fyrir dyrum. (Forsrh. JÞ: Þar kom það!). Mjer er engin gleði að hans óförum, en ástand það, sem hann hefir skapað hjer í landinu með gengispólitík sinni, hlýtur að miða að því, að annaðhvort fari þjóðin í hundana eða hún verður að losa sig við þessa tvo menn, sem nú eiga sæti í stjórninni.

Að svo mæltu skal jeg láta staðar numið, en jeg vil enda með þeim orðum, sem einn mætur maður, Einar Ásmundsson í Nesi, sagði um skuldirnar: „Þær eru þrælsband, þó að engill sje lánardrottinn.“