21.03.1927
Efri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jón Baldvinsson):

Hvað snertir formið á þessari lánsheimild, þá er það svo, að ef heimildin væri samþykt nú, þá hefir stjórnin heimild til að framlengja þetta lán meðan það heldur áfram hjá sama banka, og er það rjett að því leyti, að málið er þá laust við þingið, nema að því leyti, að þingið getur breytt þessum lögum eða numið þau úr gildi og gert þær ráðstafanir, sem gera þarf til þess að greiða upp lánið, ef á þarf að halda. það, sem hæstv. forsrh. sagði í sinni síðustu ræðu til mín, var ekki annað en andsvar út af bankastjórum Íslandsbanka. Hæstv. ráðherra vildi halda því fram, að þeir væru þinghæfari en jeg. Það getur vel verið, en það var dálítið merkilegt, sem hann sagði í viðbót. Hann sagði, að ef sú regla væri tekin upp, að stjórnskipaðir bankastjórar Íslandsbanka mættu ekki sitja á þingi, þá ætti hið sama að gilda um bankastjóra og útibússtjóra. En hvernig er þetta nú í framkvæmdinni? Hefir ekki, nú einmitt í tíð íhaldsstjórnarinnar, verið skipaður alþingismaður í bankastjórastöðu, þvert ofan í þá reglu, sem upp var tekin fyrir nokkrum árum? Og jeg veit ekki betur en að íhaldsstjórnin lafi enn á atkvæði þessa eina manns, sem eftir áliti hæstv. stjórnar á ekki að sitja á þingi.

Svo þjettur og fastur, sem hæstv. forsrh. þykist vera, þá eru skoðanir hans svo lausar, að menn geta aldrei vitað, hvenær hann gengur frá skoðunum sínum, þeim, sem hann hefir haldið fram. Annars þótti mjer einkennilegt, að hæstv. ráðh. svaraði ekki einu atriði í ræðu minni. Hann svaraði því reyndar með látæði, þegar jeg sagði það, en hann svaraði engu þegar hann stóð upp til að tala. Jeg spurði hann að því, hvort Íslandsbanki væri ekki þegar búinn að fá erlendan gjaldeyri lánaðan hjá Landsbankanum upp á þetta væntanlega dollaralán. Hæstv. ráðherra hristi höfuðið, en það getur þýtt allan skollann og ekki gott að vita, hvað meint er með því.

Það verður ekki hjá því komist að tala um Íslandsbanka í þessu sambandi. Það vita allir, að fyrir hann er þörfin brýnust, honum liggur á peningum. Jeg veit, að hann á að fá eina miljón, og er ef til vill þegar búinn að fá eitthvað af henni. Hæstv. ráðh. var í dag að afsaka þetta og sagði, að Íslandsbanki væri að afhenda seðlaútgáfuna í hendur Landsbankans. En nú vil jeg biðja hæstv. ráðh. um upplýsingar í þessu máli. Er það ekki svo, að Íslandsbanki skuldi Landsbankanum meira en sem svarar seðlum þeim, sem hann dregur inn? Ef svo er ekki, þá hefir bankinn fengið fje í staðinn fyrir þá seðla, sem hann hefir dregið inn, og þarf þá ekki að leita til Landsbankans um lán, nema það sjeu þessar „aðrar ástæður“, sem valda því, að Íslandsbanki er í fjárþröng.

En hverjar eru þessar „aðrar ástæður“, sem hæstv. ráðh. talaði um? Kannske það sje það, sem háttv. 1. landsk. talaði um í dag, að bankinn hefði mist mikið af sparisjóðsfje, sem nema mundi um 6 milj. kr. En ef svo er, er þá ekki verið að leyna þingið og þjóðina einhverju? Heldur þá ekki áfram sama svikamyllan þangað til búið er að hirða alt það, sem hægt er að hirða, og nota lánstraust landsins út í æsar án þess fullkomin vitneskja sje gefin um ástand peningastofnananna? Það er margt líkt með skyldum. Á þinginu 1921 var um það rætt að taka stórt erlent lán. Bjarni heitinn frá Vogi flutti frv. um að taka 15 milj. kr. lán til stuðnings bönkunum. En það form fjekk ekki að standa fyrir núverandi hæstv. atvrh. (MG), sem þá var fjrh.

Ástæðurnar fyrir breytingunni á þessu formi 1921 voru þær, að ráðh. vildi ekki láta umheiminn vita, að við ætluðum að taka svona stórt lán. Það er líklega það sama, sem vakir fyrir hæstv. forsrh. nú. Það minnir óneitanlega á strútinn, sem stingur hausnum niður í sandinn, þegar hann vill fela sig, og heldur þá, að enginn sjái sig. Því auðvitað vita allir fjármálamenn, hvað lánið er stórt. Hæstv. forsrh. og Íhaldsmönnum þykir gaman að skreyta sig með þessum sparnaðarfjöðrum og láta svo sem þeir vilji lækka skatta o. s. frv. Það kemur því mönnum undarlega fyrir sjónir, að í þeirra tíð skuli safnast stærstu skuldirnar og að þessir menn skuli bera fram glannalegustu lánsheimildirnar.

Þegar hæstv. ráðh. lagði fram fjárlögin fyrir 1928, mælti hann þau varnaðarorð í lok ræðu sinnar, að nú yrði að fara einstaklega gætilega með fjármálin. Honum hefir þó sennilega verið kunnugt um, að þessi lánsheimild væri á döfinni. Engu að síður notar hann þetta íhaldsorðtak, þó að hann sje ráðinn í að stofna til nýrrar skuldar og koma óorði á landið erlendis með stöðugum lántökum. — Lánstraust landsins virðist nú farið að þverra í Danmörku. Í Englandi höfum við hið fræga enska lán, og nú á að leita til amerískra banka, þótt þegar sje upplýst, að bankinn, sem lánið á að fá, hafi ekki brýna þörf fyrir það. Hæstv. ráðh. segir, að þetta sje ekki sama sem að eyða fje, því ekki sje víst, að fjeð verði notað. Hann segir, að þrátt fyrir þessa lántökuheimild munum við ekki skulda einum eyri meira út á við. Hvernig má það ske á annan hátt en þann, að lánið verði ekki notað? Og hví á að festa lánstraust landsins í þessu nýja láni, ef ekki er tilætlunin að nota það? Jeg veit nú ekki, hvort það er rjett af mjer að hrella hæstv. ráðh. meir út af þessu máli. En að síðustu vil jeg leggja fyrir hann þá spurningu, hver sje upphæð lánsins og með hvaða kjörum það sje tekið, til þess að svör hans komi fram í Alþt. Hann getur ekki skorast undan að svara þessum spurningum, þar sem þjóðinni allri er ætlað að ábyrgjast þetta lán.

Hv. 6. landsk. (JKr) var svo ákaflega góður og vægur í ræðu sinni í kvöld, að jeg þarf raunar ekki að svara honum neinu. Hann brá mjer að vísu um útúrsnúning, en hann gerði það svo linjulega, að jeg held, að enginn hugur hafi fylgt máli. Hann talaði um einhvern, sem gjarn væri á að strá fræi sundrungar, og átti víst að skiljast svo, sem það væri jeg. En jeg met slíkar dylgjur einskis. Hefði hann fært einhver rök fyrir því, að jeg væri valdur að sundrungu, hefði jeg tafarlaust svarað. En slík rök getur hann ekki fundið. Það er ekki hægt að segja, að jeg sje að sá fræi sundrungar, þótt mjer líki ekki tölur hans eða sje ekki á sama máli og þeir, sem hann er sammála. Annars var ræða þessa hv. þm. sömu endurtekningarnar um, að ekki mætti auka á óánægju verkafólksins, þegar atvinnuvegirnir stæðu höllum fæti. En atvinnuvegirnir þýða oft í munni þessara manna einhverja örfáa atvinnurekendur. Af óánægju getur margt gott leitt. Hún er einmitt undirrót flestra framfara. Það er sagt, að hv. þm. (JKr) sje góður í sinni iðn. En það á hann vafalaust því að þakka, að hann hefir verið óánægður með sjálfan sig og kunnáttu sína í læknisvísindunum, og sú óánægja hefir knúð hann til þess að afla sjer meiri og betri þekkingar.