21.03.1927
Efri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. 5. landsk. (JBald) hefir þótt rjett að láta ekki nægja þessa fjórðu þynningu af ræðu sinni, sem hann bar fram síðast, heldur kemur nú með 5. þynninguna, og á kannske eftir að halda lengur áfram. Jeg man ekki eftir, að hann kæmi með neitt nýtt í þessari ræðu nema dylgjurnar um það, að hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) sæti ólöglega hjer á þingi. Jeg held það hljóti að vera orðið of framorðið fyrir þennan hv. þm. til þess að halda áfram ræðum sínum, þegar hann kemur með annað eins og þetta. Svo vel hefir hann fylgst með í því, sem hjer hefir gerst síðan þm. Ísaf. var kosinn, að hann veit, að farið hefir að öllu löglega um kosning hans og þingsetu samkvæmt úrskurði rjetts aðilja þar um, sem er Alþingi. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. hefir meint hitt, að þm. Ísaf. hafi ólöglega verið gerður að útibússtjóra á Ísafirði. En það lýsir ærið lítilli lagaþekkingu hjá hv. þm., hafi hann viljað halda því fram. En það skiftir ekki miklu, hvort heldur hann hefir meint, því hvorttveggja er jafnmikil fjarstæða.

Þá spurði hv. þm., hvort Íslandsbanki væri ekki búinn nú þegar að taka lán hjá Landsbankanum út á þetta lánsfje, sem hann heldur, að Íslandsbanki eigi að fá af þessu erlenda reikningsláni. Jeg veit ekki til þess. En ef Íslandsbanki er búinn að fá þessa upphæð, þá fær hann hana víst ekki aftur úr þessu reikningsláni. Jeg hefi ekki heyrt frá þessum hv. þm. (JBald), sem annars segir meira í þessu máli en aðrir vita, að Íslandsbanki fengi sömu upphæðina tvisvar. Þá spurði hv. þm., hvort Íslandsbanki skuldaði ekki meira í Landsbankanum en næmi umferð seðlanna. (JBald: Þeirra, sem hann hefir dregið inn). Því get jeg ekki svarað. En hitt get jeg upplýst, að Íslandsbanki skuldar Landsbankanum meira en það, sem Landsbankinn hefir nú í umferð af seðlum.

Það fór eins fyrir hv. 5. landsk. og hv. 1. landsk. Þeim þykir svo glæsileg og góð stefna Íhaldsflokksins, að þeir finna ekkert betra til að gylla sig með í augum kjósenda sinna en að segja: Það erum við, sem höldum fram stefnu Íhaldsflokksins betur en hann sjálfur. Háttv. þm. getur reynt þetta. Hann getur reynt að stofna til fundar í Bárubúð. Jeg býst samt ekki við, að hann fengi marga áheyrendur, nema ef við lofuðum honum að auglýsa, að við kæmum líka. Þá mundi hann fá fult hús. Jeg held samt, að það væri óvarlegt fyrir hann að hrósa sjer mjög fyrir varfærni í fjármálum. Til þess á hann of margar till. í þingtíðindunum, sem lýsa þeirri hlið hans. Jeg get yfirleitt verið ánægður, ef andstæðingarnir finna ekki annað betra ráð til þess að þóknast kjósendum en að þykjast taka upp stefnu Íhaldsflokksins í fjármálum og reyna að fá kjósendur til að trúa því.

Þá reyndi hv. þm. að villa ummæli mín í svari til hv. 1. landsk. um það, hvaða áhrif þessi lánsheimild hefði á skuldaskifti okkar út á við. Hann gerði það með því að sleppa tveim smáorðum úr því, sem jeg sagði. Hv. 1. landsk. hafði lýst því, hvað skuldirnar yrðu miklar í vor, ef þessi lánsheimild yrði samþykt. Jeg sagði honum, að þetta hefði engin áhrif á skuldaskifti okkar í vor. 1 dag er 21. mars. Jafndægur eru því á morgun, svo að ekki er langt að bíða vorsins. Jeg fullyrti ekkert um, hvort þetta hefði áhrif á skuldaskifti okkar í sumar, en fram á vorið hygg jeg, að fje það, sem Landsbankinn hefir ráð á erlendis, muni duga honum.

Loks spurði hv. þm., hver upphæð lánsins væri og með hvaða kjörum það fengist. Jeg hefi margsagt, að ekki væri hægt að gefa svar um það, hve stórt lán bankinn tekur. Ef hámarkið væri nefnt, væri um leið gefin skökk mynd af þeirri lántöku, sem hjer er um að ræða. Jeg vil ekki gefa slíkar villandi upplýsingar með því að nefna hámarkið. Hv. þm. getur spurt stjórn Landsbankans, og hann mun jafnan geta fengið upplýsingar hjá henni um það, hve stórt lán hafi verið tekið á hverjum tímá hjá þessum ameríska banka.