01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Fjárlagafrv. kemur nú seinna til umr. en oft áður, og seinna en nefndin hefði óskað, en drátturinn stafar sjerstaklega af því, að ýms stór mál og smá hafa legið fyrir til umr. hjer í deildinni, svo að frv. hefir ekki komist til umr. nú á aðra viku síðan því var útbýtt. Störfum nefndarinnar og því mikla verkefni, sem hún hafði með höndum, er lítillega lýst í nál., og skal jeg ekki um það fjölyrða. Það er ósk nefndarinnar, að umræður um þennan kafla fjárlagafrv. gætu gengið sem greiðast, og mun jeg því gera mitt til að þær verði sem stystar, enda er það víst, að langar umr. hafa ekki mikla þýðingu, þó að sjálfsagt sje að skýra málin sem kostur er á.

Eins og hv. deild er kunnugt af nál., þá hefir niðurstaða nefndarinnar af brtt. hennar við frv. orðið þannig:

Tekjuafgangur frv......... kr. 103091,67

Lækkunartill. nefndar-

innar — 143030,00

Samtals kr. 246121,67

Hækkunartill. nefndar-

arinnar kr. 188608,00

Lækkuð tekjuáætlun — 50000,00

Tekjuafgangur kr. 7513,67

Þessari niðurstöðu hefir nefndin náð með því að koma fram með sem minst af nýjum brtt. í útgjaldaáttina og með því að leggja til, að felt verði niður á útgjaldahlið frv.

Nú á síðari þingum hefir verið best gengið frá fjárlögunum á þinginu 1924. Ástæðan til þess er auðsæ. Fjárhagurinn var þá svo erfiður, að vá var fyrir dyrum. Síðan hefir þetta farið smáversnandi, eftir því sem fjárhagurinn varð glæsilegri, og sá straumur hefir ekki orðið stöðvaður. Nú erum við í hnignun í fjárhagslegu tilliti, og allir geta litið sömu augum á kringumstæðurnar og viðurkent, að nú þarf að taka eins föstum tökum á þessum málum og 1924 og takmarka útgjöldin. Og meira að segja, það þyrfti líka að takmarka skattabyrðina, er svo mjög hefir reynt á gjaldþol þjóðarinnar. En það verður nú ekki gert, og því brýnna er hitt, að forðast útgjaldaaukann. Þegar menn velta fyrir sjer fjárlögunum og reyna að gera sjer grein fyrir, hvernig útkoman verði, þá er alt á huldu. Og fari menn að leita leiðarvísis í þessu efni, þá er helst að rannsaka, hve mikið tekjur og gjöld hafa farið fram úr áætlun á undanförnum árum. Þetta er geysimisjafnt. þannig var það árin 1920 og 1921. Þá fóru gjöldin um og yfir 100% fram úr áætlun. Síðan hefir þetta jafnast mikið. Og á árunum 1923–1925 er það frá 30–40%. Tekjurnar hafa jafnan farið mikið fram úr áætlun, og stundum meira en gjöldin. En nú er það óbrigðult, að þegar kreppa gengur yfir, eða í fjárhagslegri óáran, fara tekjurnar minst fram úr áætlun, eða með öðrum orðum, það gengur út yfir tekjurnar. Þess vegna má búast við því, að nú fari svo, að tekjurnar fari tiltölulega minna fram úr áætlun en undanfarið. En hvað má ætla um gjöldin? Undanfarið hafa þau farið 30–40% fram úr áætlun, eins og jeg tók áður fram. Ef byggja ætti á þessari undanförnu reynslu, þá fara gjöldin nú yfir 3 milj. kr. fram úr áætlun. Eru nokkrar líkur til þess, að tekjurnar nái þeirri hækkun? Nefndin telur það ólíklegt. Því á þetta sjerstaklega að vera til þess að vekja varkárni þingsins nú, svo að það hækki útgjöldin hóflega.

Jeg skal þá leyfa mjer að gefa stutt yfirlit yfir breytingar nefndarinnar.

Á 2. gr. frv. er lækkun á tekjum 50 þús. kr. Á 10. gr. er lækkun á gjöldunum 47 þús. kr. og á 11. gr. 8 þús. kr. Á 12. gr. er lækkun 5760 kr., en hækkun 63 þús. kr., og því samtals hækkun á greininni 57240 kr. Á 13. gr. er lækkun 70 þús. kr., en hækkun 15600 kr., og nemur því lækkunin á þeirri gr. 54400 kr. — Lækkunartillögur nefndarinnar á útgjaldahlið nema samtals 109400 kr., en hækkunartill. 57260. Lækkunin á þessum kafla gjaldabálksins er því samkv. till. nefndarinnar 52140 kr., en lækkunartill. hennar við tekjubálkinn nemur 50 þús. kr. Má því svo heita, að eftir till. nefndarinnar haldist lækkun og hækkun í hendur.

Um 1. brtt. nefndarinnar, við 2. gr. 21, að lækka hinar áætluðu tekjur um 50000 kr., er það að segja, að nefndinni virtist ófært annað en að lækka þann lið, þar sem síðastliðið ár hefir orðið tekjuminna en búist var við, og sama útlit er nú á yfirstandandi ári. Tekjurnar af víneinkasölunni hafa orðið að meðaltali frá 1923 –1926, eða í 4 ár, 380 þús. kr. á ári. Mestar urðu þær 1925, 550 þús. kr., en á árinu 1926 ekki nema 275 þús. kr. Vegna þessarar reynslu virtist nefndinni, að áætlun frv. væri of há, og hefir nefndin því lagt til að lækka liðinn um 50 þús. kr. eins og áður segir. Jeg skal taka það fram í þessu sambandi, eins og vikið er að í nál., að hið megnasta ólag virðist vera á innheimtunni við verslunina. Líklega verður ekki hjá því komist, að verslunin láni út vörur sínar að einhverju litlu leyti, vegna þeirrar venju, sem á er komin, en nefndin vill aðeins benda á það, að nauðsynlegt er, að farið sje varlega í því efni og ekki látnar standa ógreiddar stórupphæðir árum saman án minstu tilraunar til innheimtu.

Þá kem jeg að 2. brtt. nefndarinnar, við 10. gr. III. 1. a.–c., um sendiráðið í Kaupmannahöfn. Meiri hluti greiddra atkvæða í nefndinni var með því að fella niður laun og kostnað við sendiherraembættið, eða með öðrum orðum að leggja það niður. Jeg skal strax taka það fram, að jeg vil fyrst líta á þetta mál frá sjónarmiði minni hl., sem jeg er í, og svo gera grein fyrir ástæðum meiri hl.

Á þinginu í fyrra var sendiherrann settur inn í embættið af þinginu, og hafði þá verið óskipað í það um tveggja ára skeið. Störf sendiherrans hafði þá Jón Krabbe skrifstofustjóri í íslensku stjórnardeildinni haft með höndum og rækt þau svo vel, að hvarvetna mæltist vel fyrir. í fyrra sagði hann af sjer starfanum og lá sú afsögn þá fyrir þinginu. Gekk þá þingið inn á, að skipaður yrði reglulegur sendiherra í embættið, og var það skilyrði margra, að embættisveitingin væri bundin því skilyrði, að einmitt sá maður yrði skipaður, sem nú þjónar embættinu. Það var afsakanlegt, þó að það mætti mótspyrnu þá að skipa í embættið, en nú sýnist þetta horfa öðruvísi við. Þó að þingið gengi inn á að fella niður þennan lið, þá eru engar líkur til þess, að ríkissjóður losnaði við útgjöldin, heldur mundi hann þurfa að greiða þessum embættismanni launin jafnt eftir sem áður. Jeg skal taka það fram, að það er vitanlegt, að störf þau, er þessi maður hefir haft með höndum — utanríkismálin —, eru bæði mikil og margvísleg, og má þar t. d. nefna kjöttollsmálið o. fl., sem hann hafði áður starfað að. Nú hefir hann haft miklar annir við samninga um óafgerðar sakir síðan á stríðsárum, svo sem eins og ullartollskröfu Svía og tunnutoll Norðmanna. Og eru nú mestar líkur til, að til samkomulags dragi. Þetta sýnir, að störfin eru ærin og umfangsmikil, eins og allir skilja, sem eitthvað hafa þessu kynst. Og hitt er líka jafnvíst, að ef sendiherrann væri enginn, myndi kostnaður við sendifarir og sendinefndir verða miklum mun meiri. Jeg þykist vita, að hv. deildarmenn heyri, að jeg tala hjer ekki fyrir munn þeirra manna, sem lagt hafa til, að liður þessi sje feldur niður. En jeg veit, að það er eingöngu af sparnaðarástæðum, sem þeir leggja þetta til, og um leið vegna þess, að þeir álíta embættið óþarft.

Þá kem jeg að 3. brtt., við 10. gr. III. 3, ríkisráðskostnaður, að fyrir 6 þús. kr. komi 4 þús. kr. Nefndin hefir ekkert um þessa niðurfærslu að segja annað en það, að hún telur starf það, sem þessar 6000 kr. eru greiddar fyrir, svo lítið, að það muni vera fulllaunað með 4000 kr. Það má vera, að slík störf sem þessi sjeu hátt launuð, þótt lítil sjeu, en nefndin sjer ekki, að nein sjerstök ástæða sje til þess fyrir okkur að fara eftir því.

Þá kemur kostnaðurinn við hæstarjett, að fyrir 8000 kr. komi 5000 kr. Eins og kunnugt er, eru innifalin í þessum lið: „Annar kostnaður við hæstarjett“ laun hæstarjettarritara. Nú hafa laun hans ekki verið ákveðin í fjárlögum, eins og lög um breyting á hæstarjettarlögunum frá 1924 mæla fyrir, heldur hefir stjórnin greitt honum laun og sett á þennan lið. Nú hafði nefndin átt tal við stjórnina um það, hvað hæfilegt væri að greiða fyrir þetta verk í framtíðinni, og taldi hún hæfilegt að greiða 2500 kr. En hitt skal jeg taka fram, að þó að hæstv. dómsmálaráðherra (MG) teldi þetta hæfilegt í framtíðinni, þá vildi hann þó, að þeim manni, sem nú situr í embættinu, yrði greidd meiri þóknun. Jeg býst líka við, að nefndin átelji það ekki, þótt slíkt verði gert.

Þá kemur næst brtt. við 11. gr., um að skrifstofukostnaður sýslumanna og bæjarfógeta verði lækkaður úr 100 þús. kr. niður í 96 þús. kr. í stjfrv. er liðurinn hækkaður um 8 þús. kr. frá núgildandi fjárlögum. Eins og háttv. deildarmenn muna, komu fram á þinginu í fyrra háværar kröfur um hækkun á þessum lið. Aðalkrafan var þá, að sýslumennirnir og bæjarfógetarnir fengju skrifstofukostnað sinn greiddan samkv. reikningi eins og bæjarfógetinn og lögreglustjórinn hjer. Niðurstaðan varð þá sú, að liðurinn var hækkaður um 8 þús. krónur. En þegar hækka átti lið þennan á ný um 8 þús. kr., þá fór nefndin að kynna sjer, í hverju sú hækkun væri fólgin. Eftir upplýsingum hæstv. dómsmálaráðherra (MG) eru það aðallega tveir staðir, Vestmannaeyjar og Ísafjörður, sem valda hækkuninni, þótt ef til vill væri nokkur þörf að bæta víðar upp. Á þessum stöðum hafa störfin aukist frekar en annarsstaðar, einkum þó í Vestmannaeyjum, sem liggur í því, að umsjón á leigulóðum ríkissjóðs þar í Eyjum hefir verið í ólagi, er þarf að ráða bót á, og þess utan er mikil ný lóðaútmæling til ræktunar. Eykur þetta mjög störf bæjarfógetans þar. Nefndin áleit þó, eftir því sem hún kynti sjer þetta og aukna erfiðleika á hinum stöðunum, að nægja mundi til sæmilegrar uppbótar 4000 kr., og lækkar því liðinn um þá upphæð, eða niður í 96000 kr. Jeg þarf ekki að fara um þetta fleiri orðum; jeg vænti, að hv. dm. sjái, að nefndin er söm við sig og vill ekki fara lengra í hækkunum en hún finnur, að bersýnilega er ástæða til.

Þá er borgun til setu- og varadómara færð úr 6000 kr. niður í 5000 kr. Frv. til laga um uppkvaðning dóma og úrskurða, sem er hjer á leið í gegnum þingið og telja má víst, að verði að lögum, hefir í för með sjer mikinn sparnað í greiðslu til setu- og varadómara. Því leggur nefndin til þessa lækkun. Auk þess getur þetta líka verið bending í þá átt, að hæstv. stjórn fari að öllu fjárhagslega hyggilega í því, er skipa skal setu og varadómara. Þó er þetta engin aðalástæða, heldur hitt, sem jeg fyr nefndi, því að nefndin hefir ekki út á neitt að setja hjá stjórninni í þessu efni.

Með því að mikið innbyrðis ósamræmi er á þessu kaupi, og auk þess þykir nefndinni það ganga langt úr hófi, samanborið við samsvarandi kaupgreiðslu annarsstaðar, þá hefir hún lagt til, að kaup þetta yrði lækkað um 10%. Hún fer ekki lengra að þessu sinni, en væntir þess, að frekari lækkun geti átt sjer stað á árinu 1928. Það er dálítið einkennilegt að bera laun þessara starfsmanna saman við laun annara starfsmanna. —

Þá er næsta brtt. lækkun á kaupi starfsfólksins á holdsveikraspítalanum í Laugarnesi, Kleppi og Vífilsstöðum. Nefndin hefir komið fram með þessa brtt. vegna þess, að hún hefir rannsakað launakjör þessa starfsfólks og komist að þeirri niðurstöðu, að þau sjeu í ósamræmi við verðlag í landinu, í ósamræmi sín á milli og í ósamræmi við kaupgreiðslur á búum úti um land. Jeg skal nú draga fram kaup nokkurra þessara starfsmanna, til þess að sanna mál mitt með tölum:

Yfirhjúkrunarkonan á Vífilsstöðum . hefir kr. 3000

á Kleppi — — 2400

í Laugarnesi .. . — — 2400

Ráðskona á Vífilsstöðum — — 3000

á Kleppi — — 900

í Laugarnesi — — 1500

Bílstjóri á Vífilsstöðum — — 2100

— á Kleppi — — 2100

— í Laugarnesi — — 1800

Fjósamaður á Vífilsstöðum — — 1680

á Kleppi — — 1680

í Laugarnesi — — 1200

Vinnukonur á Vífilsstöðum frá kr. 600—780

á Kleppi — 220—600

í Laugarnesi - 600

Fjósamaðurinn á Kleppi hefir ca. 1700 kr. og alt frítt. Einhleypur maður þarf að hafa hjer í Reykjavík um 3500 kr. til þess að vera eins vel settur. Annar bókavörður við Landsbókasafnið, kennarar við stýrimannaskólann, símritarar, aðstoðarmenn í stjórnarráðinu, sóknarprestar úti um land — allir þessir starfsmenn mættu þakka fyrir að vera fjósamenn á Kleppi. Það er eitthvað bogið við þetta. Auk þess er það ilt fyrir aðra atvinnurekendur, sem þurfa að ráða til gín samskonar hjú. Vinnukonukaup er hjer eins hátt og hærra en kaup vinnumanna úti um land. Þá má benda á það, að ráðskonan á Vífilsstöðum hefir 3000 kr. í laun, en ráðskonan á Kleppi ekki nema 900 kr. Þetta sýnir viðleitni læknisins á Kleppi til þess að færa þetta í betra horf, enda tók hann þessum till. vel, kvaðst mundu verða fyrsti maður til þess að koma betra skipulagi á þessi launamál, en hann vildi líka, að þá yrði komið á samræmi í hinum stöðunum. Jeg vænti þess nú, að hæstv. stjórn sjái um, að þessu verði kipt í lag, enda veit jeg, að hún er hlynt því.

Þá er næsta brtt., að hækka styrkveitinguna til sjúkraskýla og læknabústaða. Það, sem nefndin leggur til að hækka liðinn, er alt óumflýjanlegt, eins og sjá má á nál. Liggur þessi hækkun í því, að sumum þessum sjúkraskýlum, sem á árinu sem leið höfðu lokið við byggingar sínar, ýmist að nýju eða umbætur, varð ekki greiddur hinn venjulegi styrkur að fullu og reikningar þeirra ekki fullgerðir fyr en á þessu ári. Greiðsluheimildin í fjárlögunum 1926 hrökk þá ekki til og upphæðin í núgildandi fjárlögum er ætluð sjúkrahúsinu á Siglufirði, sem væntanlega verður bygt á þessu ári. Einnig má gera ráð fyrir, að nýtt sjúkraskýli og læknisbústaður verði bygður í Hofsóshjeraði á árinu 1928, þótt ekki sje það þó fullvíst. Annars leggur landlæknir til, að til þessara mála sje veitt alls 1928 30 þús. kr. Er þá ekki tekið til greina tillag til fjórðungsspítala eystra, sem fyrirhugaður er í næstu framtíð. Annars skal jeg geta þess, að í brjefi til stjórnarinnar í des. síðastl. býst landlæknir við því, að sjúkrahús verði reist í Reykhólahjeraði. En af viðtali við landlækni er nefndinni kunnugt um það, að nú sem stendur eru litlar eða engar líkur til þess, að það verði gert, þar sem málið strandar á jarðarkaupum undir læknisbústað, sem hjeraðið vill, að ríkið geri, en landlæknir leggur á móti. Nefndin tekur þetta því ekki upp í áætlunina. Jeg skal að síðustu geta þess, að tölur þær, sem nefndin hefir tiltekið, eru rúmar tölur; getur verið, að sumir liðir verði lítið eitt hærri eða lægri, og verður ekki rekist í slíku.

Næst leggur nefndin til, að Heilsuhælisfjelagi Norðurlands verði veittur alt að 56 þús. kr. lokastyrkur, gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar að. Um þennan lið er það eitt að segja, að nefndin hefir ekki sjeð sjer annað fært en taka þennan styrk upp. Fyrirheit var gefið í fyrra um greiðsluna og þá fyrst lá fyrir ákveðin áætlun um byggingarkostnaðinn. Nú er byggingin það á veg komin, að fullvíst má telja, að henni verði lokið í næstkomandi októbermánuði. Þessi upphæð mun nægja til þess að koma á móti jöfnu framlagi annarsstaðar frá.

Þá hefir nefndin lagt til að hækka tillagið til akfærra sýsluvega um 10 þús. kr. Þessi hækkun byggist á því, að hvaðanæfa eru háværar kröfur um fje til vegagerðar á sýsluvegum, og svo eru 5 þús. kr. af fje þessu ætlaðar til ákveðins vegarkafla sem aukatillag. Jeg verð að víkja dálítið nánar að þessu, því að vegur þessi er í mínu kjördæmi. Vænti jeg þess, að jeg geti sannfært hv. deildarmenn um, að hjer er ekki um neina ósanngirni að ræða, enda er þetta gert að tillögu vegamálastjóra. Vegarspotti þessi er frá Vatnshorni í Vesturhópi í Húnavatnssýslu að hreppamörkum milli Kirkjuhvamms- og Þverárhreppa. Hann er tengilína milli sýsluvegarins í Þverárhreppi og þjóðvegarins, sem nú liggur um svo nefndan Múlaveg hjá Vatnshorni. Vegarspotti þessi er 4l/2 km. á lengd og áætlaður að kosti um 18 þús. kr. Ber ríkissjóði að greiða þar af helminginn, eða 9 þús. kr. Hinn helminginn, 9 þús. kr., leggur vegamálastjóri til, að ríkissjóður greiði 5 þús. kr. og sýslusjóður 4 þús. kr. Vegur þessi, sem liggur í Kirkjuhvammshreppi, er sýsluvegur, en aðeins eitt býli í þeim hreppi, er gæti haft not vegarins. Sá hreppur leggur því ekki fje í þennan veg til þess að gera hann akfæran, en aftur á móti er þessi kafli hindrun fyrir Þverárhrepp að komast á þjóðveginn. Og þegar þess er gætt, að Þverárhreppur verður að bera uppi að sínum hluta 100 þús. kr. dýran sýsluveg austan Vatnsnesfjalls, þar sem búa aðeins 200 menn, þá sýnist það vera óhæft ranglæti að leggja þess utan á hann ósanngjarnar byrðar. Eins og hv. deild man, var á þingi 1924 lagt til, að þjóðvegurinn lægi um Vesturhópið. Þá hefði þessi sveit fengið veg á löngum parti frítt. Jafnframt því að þessi tillaga var gerð um breyting á legu þjóðvegarins, var því heitið, að Fram-Víðdælingar, sem verst hefðu orðið úti vegna færslunnar, fengju veg á kostnað ríkissjóðs af þjóðveginum hjá Vatnshorni og ofan í Víðidal, sem var þá eins og þessi vegur tengivegur, en miklu lengri og dýrari. Auk þess var orð á því, að ríkissjóður kostaði aðra brú á Víðidalsá fram í dalnum. Þegar nú ríkissjóður fríast við þetta alt og þess utan að þjóðvegurinn, þar sem hann nú á að liggja, er að minsta kosti 60 þús. kr. ódýrari, sýnist þetta ekki vera nema sanngjarnt. Nefndin felst því á tillögu vegamálastjóra, að ríkissjóður leggi 5 þús. kr. aukatillag til þessa vegarkafla.

Þá er næst orðabreyting við styrkinn til vöruflutninga austur yfir fjall; orðin „til vörubifreiða sjerstaklega“ eiga að falla niður. Þetta byggist á því, að ætlast er til, að nokkur hluti þessa styrks gangi til þess að halda veginum austur opnum og færum bifreiðum að vetrarlagi. Telur vegamálastjóri, að aðaláherslu beri að leggja á það að styrkja vetrarferðirnar, en sumarferðir sje óþarfi að styrkja, þar sem samkepni sje orðin svo mikil um þær milli hinna einstöku bifreiðafjelaga, en hinsvegar áhættusamt að halda uppi reglubundnum ferðum að vetrinum og venjulegast lítill flutningur. Því hefir þessu orðalagi verið breytt.

Næsta brtt. er við 13. gr. D. II., að liðinn skuli orða svo: „Til nýrra símalagninga, með því skilyrði, að samkomulag náist við hlutaðeigandi hjeruð“. Jeg þarf ekki að eyða orðum að þessari brtt. Það gefur að skilja, hve sjálfsagt er, að fyrirfram fáist samkomulag um það, hvern hlut hjeruðin vilja taka í flutningi efnis o. s. frv. Því er þessi brtt. tekin upp eftir tilmælum landssímastjóra.

Þá er brtt. við 13. gr. D. III. 7–9, að orðin „ásamt bæjarsímakerfinu“ falli niður. Þetta gefur ekki heldur tilefni til neinna aths., er aðeins tilfærsla. Það á heima undir viðbót og viðhald stöðvanna í V. lið.

Næst kemur nýr liður, 13. gr. D. III. 17, „Til Jónasar Eyvindssonar og Gróu Dalhoff, persónuleg launaviðbót, 300 kr. til hvors“. Þessa brtt. ber nefndin fram eftir ákveðinni ósk Forbergs heitins landssímastjóra, þar sem þetta fólk hefir starfað við símann frá upphafi við lág laun.

Þá er hækkun á upphæðinni til leiðarljósa, 15 þús. í stað 10 þús. Það er álit vitamálastjóra, að upphæðin í stjfrv. sje of lág til að vinna það, sem til er ætlast. Hann var raunar í upphafi ekki viss um, hvernig hann ætti að verja upphæðinni, en svo kom nýtt atvik fyrir, sem fjekk hann til að taka ákvörðun. Skipstjórafjelagið Ægir fór þess á leit við Útgerðarmannafjelagið eða Fjelag ísl. botnvörpuskipaeigenda, að það gengist fyrir því, að reistur yrði viti á Hópsnesi við Grindavík. Erindi þetta er sent til ráðuneytisins og hefir það svo fengið umsögn vitamálastjóra í brjefi dags. 20. sept. 1926. Brjefið er ekki svo ákveðið, að út af því sjerstaklega hafi nefndin lagt til hækkun þessa liðs, en í viðtali við nefndina var vitamálastjóri miklu ákveðnari og lagði áherslu á, að liðurinn væri hækkaður með tilliti til þessa vita, þar sem hann kostaði ekki minna en 14 þús. kr. Fjvn. hefir tekið það trúanlegt, að mikil þörf væri á þessu leiðarljósi, því fremur sem henni barst skýrsla um, að á þessum slóðum hefðu 24 skip strandað og slitnað upp frá 1850–1926.

Loks leggur nefndin til, að niður falli fjárveiting til byggingar Hornstrandavitans. Það var vitanlega óljúft verk fyrir fjvn. að fresta þessu, þar sem hún þekkir þýðingu svona framkvæmda. En vegna stefnu sinnar um að hafa fjárl. tekjuhallalaus, var hún neydd til að leggja til, að einhverjum framkvæmdum væri slegið á frest, og var afráðið að leggja til, að þessi viti væri feldur niður. Jeg get tekið það fram, að það er síður en svo, að þetta sje gert með samþykki vitamálastjóra, En hvað snertir það atriði, að sjálfsagt sje, að vitagjöldin gangi öll til byggingar nýrra vita, þá sýnist það engan veginn vera svo. Má í því sambandi minna á, að lögbundið er, að tekjur af símanum gangi til byggingar 3. fl. lína, en því hefir aldrei verið fylgt. Er því einsætt, að til þessa er engin sjálfsögð krafa hvað vitana snertir. Fyrir því hefir nefndin ekki getað tekið þessa ástæðu til greina. — En þegar hún leggur til að fresta byggingu Hornstrandavitans, er síður en svo, að það sje af nokkurri mótstöðu til þessara mála. Auk stefnu fjvn. um að hafa fjárlögin tekjuhallalaus, bætist við sú ástæða, að vitamálastjóri hefir sagt nefndinni frá hinum nýju radiovitum, sem víða hafa verið reyndir með mjög loflegum árangri. Býst fjvn. við, að mjög háværar kröfur verði um fjárframlög til þeirra á næstunni og ekki verður undan því komist að leggja þar fje fram.

Áður en jeg skilst við þessa grein, vil jeg undirstrika það, sem í nál. segir um rekstrarkostnað vitanna. Vitamálastjóri gerir ráð fyrir, að kostnaður þessi verði á árinu 1928 80 þús. kr., í brjefi til stjórnarráðsins 13. sept. síðastl. Síðan hefir hann farið fram á hækkun á þessum lið upp í 110 þús. kr. Hefir hann haldið mjög fast við þá hækkun og talið fyrri áætlun sína alveg óáreiðanlega. Fjvn. felst á, að rekstrarkostnaðurinn muni verða hærri en áætlað er, en hún vill draga úr kostnaði með því að breyta því fyrirkomulagi sem nú er, þannig, að hætt verði að nota sjerstakt skip til efnisflutninga, en flutningarnir hafðir á venjulegan hátt til næstu staða við vitann. Útgerð þessi hefir orðið svo dýr, að enginn vegur sýnist vera til að halda henni áfram. Í fyrstu ætluðu landssímastjóri og vitamálastjóri að hafa skip þetta í sameiningu til flutninga fyrir vitana og símann, en landssímastjóri gafst strax upp við þessa útgerð sakir kostnaðar. Ekki er alveg vonlaust, að selja megi skipið fyrir eitthvert fje, þótt það sje dýrt í rekstri.

Áður en jeg sest niður vil jeg lýsa fyrir hv. deild, hvaða brúargerðir fyrirhugaðar eru á næstu árum, þar sem margir hv. þm. hafa ekki greiðan aðgang að komast að því.

Vegamálastjóri telur æskilegt að geta varið á næstu þrem árum að minsta kosti 700 þús. kr. til nýrra brúargerða, og eru sumar þeirra mjög dýrar. Helstu brýrnar eru á:

Hjeraðsvötn á Grundarstokk, Hvítá í Borgarfirði, mesta mannvirkið, sem áformað er. Selá og Hofsá í Vopnafirði, Húseyjarkvísl í Skagafirði, Víðidalsá og Gljúfurá í Húnavatnssýslu, Brunná í Öxarfirði, Bjarnadalsá og Sanddalsá í Borgarfirði og Laxá á Stykkishólmsbraut. Þess utan endurbygging á nokkrum gömlum timburbrúm fúnum. Og ennfremur tillag til brúargerða á sýsluvegum og smábrýr á þjóðvegum.

Vegamálastjóri hefir hugsað sjer, að árin 1927 og 1928 sje fje varið til brúnna eins og hjer segir:

1927 Kr.

Hvítárbrú 70000

Hjeraðsvatnabrú 85000

Selárbrú í Vopnafirði .... 25000

Bjarnadalsá o. fl 30000

Víðidalsá 24000

Gljúfurá í Húnavatnssýslu . . 7000

Gljúfurá í Vopnafirði 4000

Mógilsá á Kjalarnesi 4000

Skallá á Heljardalsheiði .... 2500

Þorvaldsdalsá í Eyjaf. 2/3 .. 3500

Hjaltadalsá í Skagaf. 2/3 .... 5500

Hallá í Húnavatnssýslu 2/3 . 3500

Djúpá í Laugardal 2/3 3000

Brunná 25000

1928 Kr.

Hvítárbrú 60000

Svartá í Skagaf 20000

Djúpadalsá 8000

Sanddalsá 16000

Auðólfsstaðaá 8000

Laxá á Stykkishólmsbraut ....... . 20000

Ásavatnsbrú 20000

Svarfaðardalsá í Eyjaf .... 50000

Stóra-Laxá í Árnessýslu ........... 50000

Grímsá á Völlum 25000

Tungufljót í Árnessýslu .... 15000

Ytri-Laxá í Húnavatnssýslu . 15000

Glerá í Dalasýslu 8000

Jeg þykist ekki þurfa að geta þess, að þrátt fyrir þessi áform geta auðvitað orðið ýmsar breytingar, tilfærslur milli ára o. s. frv. Skal jeg nú láta staðar numið, og vænti jeg þess að þurfa ekki miklu að svara aftur. — Brtt. einstakra hv. þdm. mun jeg ekki gera að umtalsefni, fyr en þeir hafa sjálfir mælt fyrir þeim.