01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það gleður mig að sjá í nál. hv. fjvn., að hún telur ekki rjett, að þetta þing afgreiði fjárlög með tekjuhalla. Jeg hygg, að margir fleiri en jeg, vilji taka undir þessar góðu fyrirætlanir hv. fjvn. Þó skilst mjer, að jafnvel eftir till. hv. nefndar sje það hæpið, að þetta takist. Að vísu ber hún fram. till. um 143 þús. kr. lækkanir á útgjöldum. En af því eru a. m. k. 45 þús. kr. kostnaður við sendiherra í Kaupmannahöfn, sem hefir ekki einu sinni náð samþykki meiri hl. í hv. nefnd, að því er hv. frsm. upplýsti. Auk þess mátti hv. nefnd vita það fyrirfram af reynslu fyrri ára, að þessi niðurfelling mundi ekki ná fram að ganga. — Loks virðist mjer það orka tvímælis, hvort löglegt sje að fella niður fjárveitingu til embættis, sem stofnað er með lögum og maður skipaður í. Vil jeg leyfa mjer að biðja hæstv. forseta að taka þetta atriði til yfirvegunar.

Jeg mun því að öllu athuguðu ekki reikna með þessari brtt., og ef það er ekki gert, er þegar kominn tekjuhalli á fjárlögin, eins og hv. nefnd gengur frá þeim, í stað 100 þús. kr. tekjuafgangs í stjfrv. Þetta stafar af því, að þótt hv. nefnd leggi til nokkrar lækkanir á útgjöldum, þá eru þó hækkanirnar ennþá meiri, eða nálægt 188 þús. kr. Eftir því, sem reynslan hefir verið á undanförnum árum, má búast við því, að allar hækkunartill. háttv. fjvn. verði samþ., lækkunartill. hennar sæti misjöfnum dómum og loks verði samþ. ýmsar hækkunartill. frá einstökum hv. þdm. Síðan á frv. eftir að ganga gegnum hv. Ed., og má búast við svipaðri meðferð þar. — Mjer finst því, að hv. nefnd hafi misstigið nokkuð fyrsta sporið við þá góðu fyrirætlun sína að afgreiða fjárlögin tekjuhallalaus.

Annars eru ekki margar brtt. við þennan kafla, sem mig snerta sjerstaklega. Jeg felst fúslega á þá till., að lækka áætlaðar tekjur af víneinkasölunni úr 500 þús. kr. í 450 þús. kr. Eins og jeg gat um við 1. umr., hefði stjórnin ekki sett þessa upphæð svo háa í frv., ef niðurstaða af rekstri verslunarinnar árið 1926 hefði verið kunn, þegar frv. var samið. — Um næstu till. — að fella niður útgjöld við sendiherraembættið — hefi jeg þegar sagt mitt álit, að ekki geti komið til mála að samþykkja hana. — Þegar framkvæmd þessara laga var frestað um stundarsakir fyrir fám árum, stóð svo á, að þáverandi sendiherra hafði sagt lausu embættinu. Þá vildi svo vel til, að í bili var hægt að fá mjög vel hæfan mann til að taka að sjer störf sendiherrans svo að segja endurgjaldslaust. En það skipulag gat ekki haldist til lengdar, af því að þessi maður var ofhlaðinn störfum, svo að heilsa hans gat ekki þolað þetta til lengdar. Engar slíkar ástæður eru nú fyrir hendi, og þótt embættið væri lagt niður, eru engar líkur til, að hægt yrði að fá sendiherrastörfin leyst af hendi án tilfinnanlegs kostnaðar. par á ofan bætist það atriði um formshlið málsins, er jeg nefndi áður og skaut til hæstv. forseta. — Næsta brtt. er um lækkun á ríkisráðskostnaði úr 6 þús. kr. í 4 þús. kr. Jeg vil geta þess, að ríkisráðsritari er jafnframt orðuritari, og því starfi hefir hann til þessa gegnt án sjerstaks endurgjalds. Jeg er því mjög hræddur um, að verði þóknun hans sem ríkisráðsritara færð niður, verði nauðugur einn kostur að veita honum aukaþóknun fyrir starf hans við fálkaorðuna. Yrði því raunverulegur sparnaður af þessari niðurfærslu mjög lítill eða enginn. — Þetta eru þær brtt., sem mjer koma sjerstaklega við. En sumar aðrar af lækkunartill. hv. nefndar eru svo vaxnar, að þær orka mjög tvímælis, svo sem ýmsar áætlunarupphæðir. T. d. má nefna till. um að lækka áætlunina á „öðrum kostnaði við hæstarjett“ úr 8 þús. í 6 þús. kr. Þessu fylgja þau ummæli frá hv. nefnd, að hún ætli hæstarjettarritara 2500 kr., en hefir þó ekki á móti, að þeim manni, sem nú gegnir því starfi, sje greitt eitthvað meira. Þessi „önnur útgjöld“ urðu á árinu 1925 rúml. 5 þús. kr. auk launa hæstarjettarritara. Veit jeg ekki, hvort hæstv. dómsmrh. (MG) sjer sjer fært að gera ráðstafanir til, að þessi útgjöld lækki svona mikið. Það er ekki til neins að færa niður áætlunarupphæðir, nema nokkur vissa sje fyrir, að það sje rjettmætt. — Mjer fyrir mitt leyti þykir náttúrlega ágætt, ef hægt er að lækka eitthvað þennan kostnað. — Sama er að segja um 6. brtt. hv. nefndar, að færa borgun til setu- og varadómara úr 6 þús. í 5 þús. kr. Þessi kostnaður var árið 1925 8800 kr., og efast jeg um, að hæstv. dómsmrh. hafi tök á að lækka hann svo mjög sem hv. fjvn. vill.

Loks vil jeg geta þess, að fyrirætlanir þær, sem hv. frsm. (ÞórJ) las upp um brúargerðir á næstu árum, eru vitanlega bundnar því skilyrði, að nægilegt fje verði veitt. Af hálfu fjármálaráðuneytisins mun verða gengið mjög ríkt eftir því, að ekki verði greitt af hendi meira en ákveðið er í fjárlögum.