01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

21. mál, fjárlög 1928

Björn Líndal:

Við þennan kafla fjárlaganna á jeg aðeins tvær brtt. Um þá fyrri er það að segja, að jeg tek hana aftur til 3. umr. Hin brtt. er sú, sem hv. 2. þm. Eyf. (BSt) mælti vel fyrir áðan, og kann jeg honum þakkir fyrir. Þessi till. er gamall kunningi hjer í hv. deild, bæði frá 1925 og 1926. Jeg býst ekki við, að jeg geti gert skýrar eða betur grein fyrir rjettmæti hennar nú en jeg hefi áður gert. En með leyfi hæstv. forseta vildi jeg lesa upp kafla úr ræðu, sem jeg hjelt í fyrra:

„Hjer stendur svo á, að gistihúshaldarinn á Akureyri varð fyrir því óláni, að taugaveiki kom upp í húsi hans. Læknirinn áttaði sig ekki strax, hvað hjer væri um að vera. Margir veiktust og gistihúsinu var lokað, og er saga þessa máls sú, að flest heimilisfast fólk hjá gistihúshaldaranum veiktist, og voru legudagar þess 169 í sjúkrahúsi og 314 heima, samtals 483 legudagar heimafólksins. Það var í sóttkví langan tíma, frá 10. febr. til 31. mars. Er það langur atvinnuleysistími og öllum auðsætt, að hjer hefir verið um stórtap að ræða“.

Þetta er sagan í stuttu máli. Auk þess getur hver maður sagt sjer sjálfur, sem þekkir hræðslu fólks við hættulega sjúkdóma, að það var eðlilegt, að fólk þyrði ekki að koma í þetta gistihús talsvert langan tíma eftir að sóttinni ljetti af.

Það, sem er sjerstaklega eftirtektarvert — og hv. þm. eru beðnir að taka vel eftir því — er það, að hjer liggur nokkur sök á læknunum. Þeir áttuðu sig ekki í tíma á því, að þetta væri taugaveiki, svo að mikil brögð urðu að veikinni áður en læknirinn skarst í leikinn og sóttkvíaði húsið.

Jeg tók það fram áður, og tek það fram enn, að í landi, þar sem jafnmikið er gert fyrir heilbrigðismálin og til þess að ljetta byrðar þeirra, sem verða fyrir veikindum, finst mjer það óverjandi ósanngirni að neita um lítilsháttar þátttöku í slíku fjártjóni, sem hjer er um að ræða, þar sem þetta fjártjón stafar að mestu leyti af opinberum ráðstöfunum í þarfir almennings. Jeg hefi á tveimur undanförnum þingum farið fram á talsvert hærri upphæð. Nú er hjer aðeins um lítilsháttar viðurkenningu að ræða, sem er alveg hverfandi samanborið við það tjón, sem maðurinn varð fyrir. Það er óhætt að fullyrða, að þegar alt er reiknað, megi meta tjónið upp undir 10 þús. kr. Beint fjártjón var af óvilhöllum, greindum og skilríkum mönnum metið nál. 6 þús. kr. Erfiðara er að reikna út tjónið af því, að enginn maður þorði þangað að koma um alllangan tíma; en það þurfa ekki að vera ýkjamikil brögð að slíku á stóru veitingahúsi til þess að tjónið hlaupi fljótlega upp í nokkur þúsund krónur. Jeg sem sagt trúi því ekki fyr en jeg tek á, að Alþingi sýni ekki þá sanngirni að veita þessa litlu fjárhæð, til þess að sýna í verkinu, að það viðurkenni, að ekki verði hjá því komist, að það opinbera taki lítilsháttar þátt í slíku gífurlegu fjártjóni, sem þannig er til komið. Auk þess hefir slíkt verið gert áður undir líkum kringumstæðum; var þó líklega síður ástæða til, því að um miklu minna tjón var að ræða. Jeg á við gistihúshald í Borgarnesi árið 1923.

Að lokum vil jeg geta þess, að hv. 4. þm. Reykv. (HjV) getur ekki mætt í deildinni í dag. Jeg átti tal við hann um seinni brtt. mína, og kom okkur saman um að bera fram öðruvísi orðaða till. sama efnis við 3. umr. Hann bað mig að taka þessa till. sína aftur að sinni.