01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

21. mál, fjárlög 1928

1034Jón Guðnason:

Það hafa fallið orð um það, að fjárlögin færu ekki að verða glæsileg, og því er það ekki vinsælt verk að tala fyrir hækkunartill.

Jeg hefi borið hjer fram brtt. við 13. gr., á þskj. 284,VI, um 25 þús. kr. til Vesturlandsvegar frá Dalsmynni að Fellsenda. Þetta er að vísu gamall góðkunningi hv. þd., því að beiðni þessi hefir oft verið borin hjer upp, þótt aldrei hafi hún náð fram að ganga.

Jeg hefi nú leyft mjer að taka upp þetta mál að nýju, og það er auðvelt að sýna fram á það, að þessi till. á eins mikinn rjett á sjer og aðrar samskonar fjárveitingar, sem í frv. eru. Jeg hefi verið að líta yfir þær fjárveitingar til nýrra akvega, sem í frv. eru, og komist að þeirri niðurstöðu, að veita á fje til vega í öllum sýslum nema Austur-Skaftafellssýslu og á Vesturlandi fyrir vestan Snæfellsnes. Þetta eru einu svæðin, sem eru alveg undanskilin.

Dalasýsla á við einhverjar örðugustu samgöngur að búa á landi hjer. Má svo segja, að samgöngur hennar á landi út úr hjeraðinu, suður á bóginn, sjeu enn að mestu leyti eins og þær voru á landnámstíð, og er þó ekki nema um 20 km. vegarlengd að ræða til þess að hún nái sambandi við vegakerfið í Mýrasýslu. Það er því tilfinnanlegra fyrir sýsluna að hafa svona örðugar samgöngur suður á bóginn, þar sem hún er í námunda við miðstöð dýrtíðarinnar í landinu, Reykjavík, og verður að búa við ýmsar þær búsifjar, sem af því leiða, en hefir ekki hlotið nein þau þægindi, er vega þar upp á móti.

Dalasýsla er ekki fjær Borgarnesi en ýmsir Borgarfjarðardalir, en aðstaðan er gerólík, eins og nú er varið samgöngum. Jeg held því fram, að á undanförnum árum hafi Dalasýsla átt við mikið misrjetti að búa, samanborið við aðrar sýslur og hjeruð landsins. Í fjárlagafrv. eru áætlaðar 285 þús. kr. til akvega á næsta ári, en enginn eyrir til þess hjeraðs, er svo hefir farið varhluta af vegagerðum á undanförnum árum.

Það má öllum vera vitanlegt, að sú upphæð, sem jeg fer fram á í brtt. minni, er ekki nema lítill hluti af því fje, sem þarf til að gera þær vegabætur í sýslunni, sem nauðsynlegar eru. En það er sjerstök knýjandi nauðsyn til þess, að byrjað sje á þessu verki sem fyrst. Með því að fá þennan veg getur Dalasýsla haft gagn af vegunum um Norðurárdal, og hefir nokkurt gagn þeirra nú þegar, en sjerstaklega þó, er brú kemur á Bjarnadalsá hjá Dalsmynni. Þessi á er oft hinn versti þröskuldur fyrir ferðamenn og liggur þvert á leið Dalamanna. En þótt brú sje á ánni, hafa Dalamenn ekki fult gagn af henni, ef ekki fæst fje til vegar frá Dalsmynni og vestur í Dali, því að núverandi vegur vestan úr Dölum er á alt öðrum stað, og þegar vond er færð, er ekki hægt að komast að brúnni með öðru móti en því, að fara yfir túnið í Dalsmynni. En bóndinn þar gerir ráð fyrir, að á sumum tímum árs muni af þessu stafa svo mikill átroðningur, að hann neyðist til að banna alla umferð yfir túnið hjá sjer.

Jeg vona, að háttv. þdm. líti með sanngirni á þetta nauðsynjamál og ætli nú Dölum sama rjett og öðrum hjeruðum, og það því fremur, sem þeir hafa svo lengi verið settir hjá um vegabætur.