01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf ekki að vera langorður um þann kafla fjárlaganna, sem nú er til umræðu, því að jeg þarf ekki að minnast á nema fáar brtt. Vil jeg fyrst segja nokkur orð um brtt. hv. fjvn.

Verður þá fyrst fyrir að athuga brtt. háttv. nefndar við einn lið um hæstarjett. Vildi jeg árjetta það, er háttv. frsm. fjvn. sagði og mjer þótti vænt um, að nefndin ljeti óátalið, þótt núverandi ritara hæstarjettar væru greidd hærri laun en öðrum mundu vera greidd, af því að embætti hans er lagt niður og hann hefir ekki enn sem komið er fengið annað. En þessi maður, sem um er að ræða, er svo þektur, að ólíklegt er, að það dragist lengi, að hann fái embætti við sitt hæfi.

Jeg sje, að hv. nefnd hefir fært skrifstofukostnað sýslumanna og bæjarfógeta niður um 4000 kr. Jeg viðurkenni fúslega, að upphæðin í þessum gjaldalið er há. En ástæður til hækkunarinnar eru sífeldar kvartanir sýslumanna um, að þeir komist ekki af með það fje, sem veitt hefir verið hingað til. Kvarta þeir undan því, að altaf sje verið að bæta við þá nýjum störfum. T. d. nú nýlega hefir verið gerð til þeirra sú krafa að safna og senda mánaðarlega skýrslur um út- og innflutning í sínu umdæmi. Fylgir því mikið umstang og fyrirhöfn. Jeg vil því mjög mæla með, að tillaga stjórnarinnar fái að standa óbreytt.

Næst koma brtt. nefndarinnar við 12. gr. frv., um laun starfsfólks á holdsveikraspítalanum, Kleppi og Vífilsstöðum. Það er ekki nema sjálfsagt, að stjórnin reyni að fá þau sett niður og samræmd við það, sem laun og verkkaup er annarsstaðar. En sum störf þessa fólks eru þann veg, að ekki er hægt að bera þau saman við störf annarsstaðar, og verða því launin ekki miðuð við þau. T. d. er sumum vinnukonustöðunum á Vífilsstöðum svo háttað, að stúlkurnar, sem gegna þeim, eiga að þvo þvott á hverjum einasta degi. En það er svo erfitt, að enginn kvenmaður heldur það út til lengdar, og fást þær því ekki til slíks starfa fyrir venjulegt kaup. Annars skorast jeg ekki undan að reyna að setja kaupið niður eftir atvikum; það skal gert.

Út af liðnum um fjárframlag til Kristsneshælisins vil jeg geta þess, að óhjákvæmilegt er að koma með brtt. við 3. umr. um fje til rekstrar heilsuhælinu árið 1928. Vildi jeg biðja hv. nefnd að taka það til athugunar, en ef henni sýnist ekki rjett að koma með till. um það, mun jeg fyrir mitt leyti gera það. Það er erfitt að segja, hversu mikill sá styrkur skuli vera, en mjer hefir dottið í hug 5000 kr. Það verður áætlunarliður og af því leiðir, að þótt of lágt sje reiknað, verður borgað það, sem umfram er.

Það er að vísu ekki útilokað, að hælið beri sig, ef borgað er fyrir berklaveika sjúklinga, en því er ekki að treysta á fyrsta ári. Sem sagt er gott að hafa þar lið í fjárlögum til þess að taka til, ef með þarf.

Þá er að minnast á brtt. fjvn. um að fella niður bygging Hornstrandavit ans, sem áætlað er, að kosti 70 þús. kr., og um leið á till. sjútvn. um að láta reisa 3 radiovita.

Jeg tek undir með hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), að það er hart að farið að fella niður þennan vita og setja ekkert í staðinn, þar sem í stjfrv. er áætlað minna til vitamála en vitagjöldin nema. En jeg get ekki skrifað undir þá skoðun vitamálastjóra, að ríkið eigi á ári hverju að byggja nýja vita fyrir alt vitagjaldið.

Ríkið gerir vissulega hreint fyrir sínum dyrum, ef tekin er upp sú regla að veita til rekstrar og nýbygginga vita yfirleitt jafnmikið fje og tekjur af þeim nema. Og jeg álít, að ekki eigi að vera mikill munur á þessum tvennum fjárhæðum. En það er nú svo, að ef bæði Hornstrandavitinn væri látinn standa og radiovitarnir reistir, þá væri meira krafist úr ríkissjóði en vitagjöldin gefa af sjer. Eftir frv. stjórnarinnar eru ætlaðar 250 þús. kr. til vitamála, en tekjur áætlaðar 300 þús. kr. Vantar þá 50 þús. kr. til þess að reglunni sje fullnægt, að tekjur og framlög standist á. En athugavert er það, að rekstur vitanna fer jafnan fram úr áætlun. Mjer dettur í hug, þar sem háttv. fjvn. mun standa saman um að fella niður Hornstrandavitann og háttv. sjútvn. fylgir fast fram kröfum um að láta reisa radiovita, þá sje rjettast að gera samkomulag um að sleppa Hornstrandavitanum og veita 70–75 þús. kr. til nýrra vita og láta stjórnina ráða, hvort hún notar þessa fjárhæð til radiovita eða annara vita.

Örfáum orðum vil jeg þá fara um brtt. einstakra þingmanna.

Verður þar fyrst fyrir brtt. nr. VI á þskj. 284, frá hv. þm. Dal. (JG), um 25 þús. kr. til Vesturlandsvegar. Það er rjett, að felt var á undanförnu þingi að veita fje til þessa vegar, meðfram vegna þess, að hið opinbera hefir verið að leggja veg, sem er upphaf þess vegar, og áður var ákveðið af þingi að halda sem fyrst áfram með þann veg norður yfir Holtavörðuheiði. Þegar stjórnin var að sníða þetta frv., gerði hún vegamálastjóra aðvart um, hvað mætti áætla til vegalagninga, og ljet hann um, hverja vegi hann teldi þýðingarmesta, og man jeg ekki til, að stjórnin viki neitt frá till. hans. Verður því að álykta svo, að hann álíti þennan veg ekki svo bráðnauðsynlegan, að hann geti að svo stöddu gengið fyrir öðrum. Hvað seinna verður, veit jeg ekki. En af því, hve mikið er áætlað til vegamála samkvæmt frv., tel jeg mjer ekki fært að greiða atkvæði með brtt.

Svipað má segja um VII. brtt. á sama þskj., frá hv. 2. þm. Eyf. (BSt), um hækkun á framlagi til Þelamerkurvegar um 10 þús. kr.

En ef bærilega stendur á fyrir ríkissjóði um fje 1928, gæti vel komið til mála — og jeg fyrir mitt leyti mundi leggja með því —, að það sumar yrði unnið fyrir tvennar 10 þúsundir, eða með öðrum orðum notuð væntanleg sama fjárveiting fyrir árið 1929.

Jeg veit ekki, hvort hv. 2. þm. Eyf. vill sætta sig við þau málalok. En þetta hefir oft verið gert, þegar vegir enduðu á ófærum svæðum og komu ekki að neinum notum nema haldið væri lengra áfram. Hinsvegar finst mjer hæpið að skuldbinda ríkissjóð til þess að greiða umfram þessar 10 þús. 1928, en rjett að stuðla að því, að unnið verði fyrir fjárveiting ársins 1929 sumarið 1928, ef unt verður.

Þá er brtt. frá háttv. 2. þm. Árn. (JörB) um ferju á Hrosshyl í Þjórsá. Hv. flm. gerði ráð fyrir, að gleymsku væri um að kenna, er fjárveiting til ferjunnar er feld úr frv. En svo er ekki. Ástæðan er sú, að ferjan er ekki á landssjóðsvegi. Jeg vil segja hv. flm. það, að jeg mun greiða atkv. með brtt. hans. Jeg hefi sjálfur farið þessa leið og þekki, hve erfiður ferjustaður þar er. Og jeg mun greiða atkvæði með hærri till. án þess jeg vilji ámæla háttv. 1. þm. Árn. (MT) þótt hann kæmi með varatill., til þess að tryggja framgang einhvers styrks. Jeg vona, að þetta verði ekki að sundurþykkju samþingismönnunum.

Því verður ekki neitað, að ekki má ganga út frá, að það eigi að Verða reglan að taka inn í fjárlögin styrk til hverrar lögferju. En ástæðan til þess, að jeg get gengið inn á það í þessu tilfelli, er sú, að ferjan á þessum stað er sjerstaklega erfið.